132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[11:49]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir byrja á að þakka kærlega fyrir þessa góðu skýrslu. Mér finnst hafa verið lagður mikill metnaður í hana og hún unnin mjög vel. Hún er afskaplega upplýsandi fyrir mörg svið sveitarstjórnarstigsins sem bæði alþingismenn og sveitarstjórnarmenn þurfa gjarnan að skoða vel. Fyrir utan þetta venjulega skýrsluform er þetta upplýsandi plagg um margt sem menn þurfa að huga að. Það þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um mikilvægi sveitarstjórnarstigsins og því er mikilvægt að skýrslan sé lögð fyrir Alþingi.

Í upphafi skýrslunnar segir að henni sé ætlað að leggja mat á núverandi stöðu sveitarstjórnarstigsins og vekja spurningar um framtíð þess. Ég tel mjög mikilvægt að samskipti ríkis og sveitarfélaga, verkefni sveitarstjórnarstigsins og fjárhagsmál sveitarstjórnarstigsins séu til stöðugrar umræðu. Við komumst að sjálfsögðu aldrei til enda í því en eigum að hafa gleraugun stöðugt á þeim málefnum. Ég tel það góðan tímapunkt að leggja skýrsluna fyrir nú í ljósi þess að það eru sveitarstjórnarkosningar á komandi vori. Ekki síður er þetta ágæt úttekt á því mikla átaki sem ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga stóðu fyrir um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Þess vegna tel ég mjög jákvætt að koma fram með skýrsluna á þessum tímapunkti.

Það hvíla sömu skyldur á öllum sveitarfélögum, smáum og stórum, 50 manna upp í 150 þús. manna. Í grunninn eru það sömu verkefnin. Menn verða auðvitað stöðugt að velta fyrir sér hvernig á að leysa þau verkefni til hagsbóta fyrir íbúana. Sveitarstjórnarstigið er líka mjög mikilvægt í efnahagslegu samhengi og hlutdeild þess í samneyslunni hefur vaxið mjög á undanförnum árum. Fram kemur í skýrslunni að hlutur sveitarfélaganna í samneyslunni hafi aukist frá 1991 til 2006 úr 22,9% upp í 33,3%. Á síðustu 15 árum hefur því vöxturinn verið mjög mikill og við erum mörg sem höfum þá skoðun að hluturinn eigi að aukast enn frekar með það að markmiði að auka þjónustu við íbúana og að þau verkefni sem eru nálægt íbúunum, svokölluð nærþjónustuverkefni, verði hjá sveitarfélögunum.

Ég ítreka enn og aftur þá skoðun mína að málefni fatlaðra eru eitt af þeim verkefnum sem eiga best heima hjá sveitarfélögunum og falla mjög vel að félagsþjónustu sveitarfélaga. Um það hafa verið skrifaðar margar skýrslur og mikið um það rætt en ekki enn tekist að koma því á. Ég held að það hljóti að vera það nærtækasta sem við tökumst á við í stjórnkerfinu, að flytja málefni fatlaðra alveg yfir til sveitarfélaganna. Þau sveitarfélög sem hafa tekið verkefnið að sér með þjónustusamningum hafa gert það ákaflega vel. Því er þó ekki að leyna að þjónustusamningar á milli ríkis og sveitarfélaga í þessu efni eru ekki sérstaklega gott form. Tekjur sveitarfélaganna til þessara verkefna koma ekki beint frá íbúunum heldur er þarna um millifærslu á tekjum frá ríkinu að ræða. En það er alltaf heppilegast að hafa samhengi á milli tekna og útgjalda og að þau komi beint frá íbúunum. Hitt er annað mál að þau sveitarfélög sem hafa tekið þessi verkefni að sér hafa gert það mjög vel. Þess vegna vilja mjög margir leggja áherslu á að þetta sé verkefni sem sé augljóst að eigi að vera hjá sveitarfélögunum.

Í verkefninu Efling sveitarstjórnarstigsins var farið í mjög viðamikla vinnu við það hvaða verkefni væri nærtækast að flytja yfir til sveitarfélaganna. Málefni fatlaðra og málefni aldraðra auk ýmissa eftirlitsverkefna komu auðvitað fyrst. Þróun í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hefur þó verið dálítil á undanförnum árum. Verkaskiptalögin svokölluðu sem margir sem hafa starfað í sveitarstjórnum kannast mjög vel við og tóku gildi árið 1990 breyttu auðvitað mjög miklu í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, skýrðu verkefnin og það varð markvissari stjórn á þeim. Grunnskólinn var auðvitað viðamesta verkefnið sem hefur verið flutt. Það hefur tekist afskaplega vel til í því og komin ágæt reynsla á það síðan 1996. Önnur verkefni eins og vinnumiðlanirnar og húsaleigubótakerfið hafa einnig flust yfir til sveitarfélaganna. Af þessu hefur verið góð reynsla og þess vegna er ástæða til að horfa áfram í þá átt að flytja fleiri verkefni.

Þessu fylgir samt sem áður að mörg sveitarfélög hafa þurft að leysa verkefnin í samvinnuverkefnum, bæði með byggðasamlögum, landshlutaverkefnin hafa tekið að sér slík verkefni og héraðsnefndirnar fyrir minni sveitarfélög. Það form er ekki sérstaklega gott lýðræðislega séð því íbúarnir hafa þá ekki bein áhrif á stefnumótunina vegna þess að fulltrúar þeirra sitja ekki í þeim stjórnum og ráðum sem ráðstafa málaflokkunum nema að litlu leyti. Allt leiðir þetta í þá átt að huga þarf að því að stækka sveitarfélögin enn frekar.

Við verðum að horfa til þess að af sameiningarátakinu sem við gengum í gegnum á síðasta ári varð kannski ekki sá ávinningur sem við og sveitarstjórnarmenn reiknuðum með. Hitt er annað mál að þegar slíkt hefur verið sett af stað hafa sveitarstjórnarmenn farið í mikla skoðun á stjórnsýslu sinni og grunngerð. Það hefur kallað á viðræður við aðrar sveitarstjórnir um hagkvæmari rekstur á mörgum þeim verkefnum sem sveitarstjórnirnar sinna. Upp úr því, eins og áður hefur verið rakið, hafa orðið sameiningar sem menn hefðu kannski ekki lagt til í upphafi. Þessa dagana hafa sveitarfélögin verið að sameinast þó svo það hafi ekki verið upphafleg tillaga sameiningarnefndar. Menn hafa því fundið sér farveg í gegnum þetta verkefni. Ég held að þó verkefnið, Efling sveitarstjórnarstigsins, hafi ekki skilað eins miklu og menn væntu á síðasta ári sé það ekki að fullu komið fram enn þá og muni sýna sig frekar á næstu missirum. Sveitarstjórnarmenn lögðu á sig óhemju mikla vinnu í kringum átakið og ég held að það muni nýtast bæði við stjórnsýslu einstakra sveitarfélaga og hugsanlega til sameiningar á stærri vettvangi í framhaldinu.

Hæstv. forseti. Eðlilega er mikið rætt um fjárhagsmál sveitarfélaganna. Tekjustofnanefnd skilaði áliti sínu og tillögum í mars á síðastliðnu ári. Þær tillögur færðu mjög auknar tekjur til sveitarfélaganna. Tímabundin áhrif af þeim tillögum voru 9,5 milljarðar á árabilinu 2005–2008 og varanleg áhrif upp á 1,5 milljarða. Þetta skiptir verulega miklu máli og eins og ég sagði áðan þarf alltaf að vera að skoða fjárhagsmálin.

Vegna umræðu um stöðu minni sveitarfélaganna þá er í gangi endurskoðun á reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna og við væntum auðvitað mikils af vinnu þeirrar nefndar. Menn segja að jöfnunarsjóðurinn sé afskaplega flókinn og það sé á færi fárra manna að skilja þann sjóð. Ég held að það sé eðlilegt þar sem um svo fjölbreytileg sveitarfélög er að ræða og það er verið að taka tillit til sveitarfélaga af mjög misjafnri stærð og mismunandi verkefna sveitarfélaga sem þeim hafa verið færð með lögum. Jöfnunarsjóðurinn er hluti af tekjustofnakerfi sveitarfélaganna og þess vegna er það hlutverk sjóðsins að deila þeim fjármunum sem koma úr honum til sveitarfélaganna miðað við þau verkefni sem þau eiga að leysa.

Ég held að það sé mjög gott að hafa það alltaf í huga að á meðan sveitarstjórnarstigið er með þessum hætti verða reglur jöfnunarsjóðs trúlega alltaf mjög flóknar. Hann skiptist í margar deildir. Á undanförnum árum hafa fleiri verkefni verið flutt til jöfnunarsjóðs og hann hefur vaxið að stærð. Nú úthlutar sjóðurinn yfir 12 milljörðum til sveitarfélaganna og auðvitað skiptir þetta gífurlegu miklu máli í tekjuöflun þeirra. Þess vegna er það mikið mál, þó svo menn tali um að um flóknar og erfiðar reglur sé að ræða, að sveitarstjórnarmenn, og alþingismenn líka sérstaklega kynni sér sjóðinn mjög vel, vegna þess að umræða er oft mikil um hann án þess að menn hafi nákvæmlega kynnt sér verkefni hans og stöðu.

Hæstv. forseti. Tími minn er búinn. Ég vil að lokum taka undir tillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að félagsmálanefnd (Forseti hringir.) fjalli um skýrsluna vegna þess að ég held að þar komi fram mjög margt og merkilegt sem (Forseti hringir.) er umfjöllunarvert fyrir nefndina.