132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Aðbúnaður aldraðra sem bíða eftir útskrift á LSH.

[14:00]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og hæstv. ráðherra svörin sem staðfesta hið óviðunandi ástand sem ég lýsti í ræðu minni áðan. Forseti Íslands sagði í áramótaávarpi sínu til þjóðarinnar:

„Það er til marks um siðmenningu hverrar þjóðar hvernig hún býr öldruðum ævikvöldið og gerir þeim kleift að njóta áranna sem eftir eru.“

Ég tek undir það. Ástandið eins og það er nú gefur stjórnvöldum hér ekki háa einkunn og við því verður að bregðast. Hér er bæði verið að fara illa með gamalt fólk og fjármuni. Ekki er hægt að kenna R-lista um að nefskattur til þessarar þjónustu hefur ekki skilað sér. Það er ákveðið hér, í þessum sölum af ríkisstjórnarmeirihlutanum.

89 aldraðir hjúkrunarsjúklingar í fokdýrum spítalarúmum eru fastir inni á spítalanum og sex hafa verið þar í a.m.k. ár. Það staðfesti hæstv. ráðherra. 89 bíða, þar af eru 62 á öldrunarlækningadeild og þriðjungur á ýmsum öðrum bráðadeildum, í dýrum sjúkrarúmum án þjónustu við hæfi. Það gerir það að verkum að fólk sem er læknisþurfi fær ekki pláss, bíður úti í bæ, kemur inn sem bráðasjúklingar og bíður svo jafnvel inni á spítalanum eftir viðunandi læknisþjónustu. Helmingur öldrunarsjúkrarúma er tepptur, eða tæplega það. Á öldrunardeildinni eru 145 rúm og þar af eru 62 teppt af fólki sem er að bíða eftir útskrift.

Það verður að gera eitthvað í málunum, efla heimaþjónustu við aldraða, koma á sjúkrahústengdri heimaþjónustu og fjölga fjölbreyttum úrræðum, eins og á að gera t.d. í Hafnarfirði. Ég fagna þeirri leið. Við verðum að sýna öllu fólki sóma á ævikvöldinu, og þessi framkoma við gamalt fólk á síðustu æviárunum er auðvitað til háborinnar skammar.

Úrbætur eru í sjónmáli, sagði hæstv. ráðherra, en þangað til býr gamalt fólk inni á spítalanum við (Forseti hringir.) óviðunandi aðstæður.