132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Styrkir til ættleiðingar.

[15:20]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn minni til forsætisráðherra. Fyrirspurnin snýr að því hvar innan Stjórnarráðsins hæstv. ráðherra telji að vista beri mál um styrki til ættleiðingar. Félagið Íslensk ættleiðing hefur síðustu þrjú árin unnið að því að komið verði á styrkjum til foreldra sem ættleiða börn erlendis frá og sent erindi með þeirri ósk til a.m.k. tveggja ráðuneyta, og í upphafi til forsætisráðuneytisins í tíð fyrrverandi forætisráðherra. Erindin hafa síðan verið framsend og endursend eftir atvikum á milli ráðuneyta og Stjórnarráðsins.

Nú hefur í þriðja sinn verið mælt fyrir þingsályktunartillögu um slíka styrki og í annað sinn er málinu að umræðu lokinni vísað til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar, en í fyrsta skipti var málinu vísað til allsherjarnefndar. Heilbrigðis- og trygginganefnd er í sjálfu sér ekkert að vanbúnaði að vinna þetta mál og forsvarsmenn Íslenskrar ættleiðingar hafa hvað vistun þess varðar einungis lagt áherslu að opinber aðili fari með styrkveitingar en ekki félagið sjálft eins og fyrstu hugmyndir voru uppi um. Þó hafa heyrst ýmsar efasemdir um að þetta mál eigi að heyra undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið því að um sé að ræða styrk af félagslegum toga samanber það að fæðingarorlofið heyrir undir félagsmálaráðuneytið. Svo hafa ýmsir bent á að ættleiðingar almennt heyri undir dómsmálaráðuneytið. Ég tel, frú forseti, að það sé brýnt fyrir þennan hóp — þetta er jafnræðismál fyrir foreldra — að finna úrlausn þessa máls innan framkvæmdarvaldsins, þ.e. að það liggi fyrir hvar efnisleg úrlausn málsins eigi heima.