132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[19:32]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sameining undir einn hatt, eignarhalds- eða móðurfélag einhvers konar talaði hæstv. ráðherra um og talaði líka um að þessi fyrirtæki væru ekki svo mikið að keppa og það væri t.d. ekki síður í orkuflutningi en orkuframleiðslu, og að Orkuveita Reykjavíkur væri öflugt fyrirtæki. Nú efast ég ekkert um að Orkuveita Reykjavíkur er öflugt fyrirtæki en stærðirnar á þeim fyrirtækjum sem eru á þessum markaði eru bara þannig að Landsvirkjun ásamt þeim fyrirtækjum sem hér er verið að tala um er gríðarlega stórt fyrirtæki og Orkuveita Reykjavíkur er það að vísu líka og Hitaveita Suðurnesja getur svo sem talist ágætt fyrirtæki. Samt eru þessi fyrirtæki óskaplega misjafnlega stór og það vantar alveg greinilega eitthvert jafnvægi á þennan markað.

Það er þess vegna sem ég hef spurt grannt eftir því hvort menn hefðu ekki hugmyndir um það að búa til fyrirtæki þarna sem kæmi þá inn í þessa samkeppni sem gæti þá orðið til úr Rarik og Orkubúi Vestfjarða og hugsanlega með einhverjum breytingum á eignarhaldi með öðrum fyrirtækjum til þess að þarna geti orðið til eitthvert umhverfi sem væri trúverðugt samkeppnisumhverfi. Mér finnst þessi lýsing sem ég var að fara hér yfir ekki vera á trúverðugu samkeppnisumhverfi. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að beita sér fyrir því í ríkisstjórninni að þessi mál verði tekin til endurskoðunar með það í huga að þessi markaður verði markaður þriggja, fjögurra, fimm öflugra fyrirtækja en ekki svona samsettur eins og ég var að lýsa.