132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[15:48]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum. Auk mín eru flutningsmenn hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Gunnar Örlygsson.

Þetta er einfalt frumvarp en með því er lagt til að gjöld fyrir skráningu félaga verði lækkuð, sem og gjald fyrir skráningu loftfars til atvinnuflugs. Lækkunin yrði mismikil eftir tegund þeirra félaga sem um ræðir en mest yrði hún fyrir skráningu hlutafélaga og samvinnufélaga og skráningu erlendra félaga. Þar mundi gjaldið lækka úr 165.000 kr. í 40.000 kr. Lækkun gjalda fyrir skráningu annarra félaga yrði minni. Skráningargjöld félaga eftir breytinguna yrðu þó aldrei hærri en 40.000 kr.

Ástæðan fyrir því að þetta mál er flutt er einfaldlega að auðvelda á fólki að fara út í atvinnurekstur. Menn tala iðulega um nýsköpun og sprotafyrirtæki þegar um þetta er rætt á fínu máli. Virðulegi forseti. Alþjóðabankinn gefur út samanburð á því hve mikla fyrirhöfn og fjármuni þarf til að stofna fyrirtæki eftir löndum. Það er ánægjulegt að þegar bornar eru saman aðstæður til stofnunar fyrirtækja í ýmsum nágranna- og samkeppnislöndum Íslands kemur í ljós að hér á landi er framkvæmdin nokkuð skilvirk og einföld. Hins vegar liggur fyrir að kostnaðurinn er hér hár í samanburði við þessi lönd. Kostnaður við stofnun einkahlutafélags hér á landi er hærri en í Danmörku svo að dæmi sé tekið, Finnlandi, Svíþjóð og Bandaríkjunum, eins og kemur fram í greinargerðinni.

Þetta er í sjálfu sér ekki flókið mál og engin ástæða til að hafa mörg orð um það. Fyrir fjársterka aðila skiptir það litlu máli, fyrir stórfyrirtæki og fyrirtækjasamsteypur sem hafa sem betur fer vaxið og dafnað og eru í mikilli útrás. Það að lækka skráningargjöld, eins og hér um ræðir, skiptir litlu máli fyrir þessi fyrirtæki sem eru kannski með hagnað upp á tugi milljarða og gríðarlega veltutölur. Þetta frumvarp er ekki flutt fyrir þá aðila. Það er flutt fyrir þá sem hafa minna milli handanna og eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnurekstri, eða lítil og meðalstór fyrirtæki sem vilja láta til sín taka á fleiri sviðum. Þá munar um hverja krónu, sérstaklega hjá þeim sem fara út í sinn fyrsta atvinnurekstur.

Mig minnir að ég hafi séð, virðulegi forseti, að við séum, sem betur fer, það þjóðfélag sem er með mesta frumkvöðlastarfsemi og keppum þar, að ég held, við Bandaríkjamenn. Það er afskaplega ánægjulegt og vonandi verða Íslendingar alla tíð óhræddir við að fara út í atvinnustarfsemi, að taka áhættu og reyna fyrir sér með þessum hætti í atvinnulífinu. Við eigum alltaf að hafa það markmið að leita allra leiða til að gera það ferli einfalt og skilvirkt þannig að hér verði alltaf virk nýsköpun og Ísland verði miðstöð frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunar.

Virðulegi forseti. Það er engin ástæða til að dvelja meira við þetta mál. Þetta er einfalt. Það gengur út á að lækka gjöld á fyrirtæki sem er verið að stofna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég flyt þetta mál en ég vona að það nái fram að ganga og við munum sjá það verða að lögum í vor.