132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjárhagsvandi Háskólans á Akureyri.

[10:48]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er gaman að heyra þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala fjálglega um Háskólann á Akureyri. Þeir voru ekki allir svo miklir stuðningsmenn hans í upphafi. En sérstaklega er undarlegt að hlusta á fagurgalann sem fellur af vörum hæstv. menntamálaráðherra. Hún talar eins og henni sé ekki umhugað um neitt meira en að efla hag Háskóla Akureyrar. Það hefur enginn stjórnmálamaður sloppið jafnvel frá vitleysunni í sjálfri sér eins og hæstv. menntamálaráðherra gagnvart Háskólanum á Akureyri.

Hvað er að gerast þar núna? Það er verið að fækka kennurum, það er verið að draga úr námsframboði og það er verið að vísa frá hundruðum manna, ungu fólki sem vildi gjarnan nema við þessa stofnun. Svo kemur hæstv. ráðherra og talar um að hún vilji enga plástrameðferð. Hvað er það sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að gera til að styrkja Háskólann á Akureyri? Það er svartur blettur á hæstv. menntamálaráðherra hversu lítinn áhuga hún hefur sýnt þessum skóla. Það er staðreyndin. Þessi skóli hefur umfram aðrar menntastofnanir á Íslandi sýnt frumkvæði. Það er við þennan skóla, og reyndar aðra á Akureyri, sem vagga fjarmenntunar á Íslandi stendur. Það gerðist vegna þess að einstakir þingmenn á Alþingi tóku á með Háskólanum á Akureyri til að toga út úr Sjálfstæðisflokknum peninga til að þróa það áfram öllum til gagns í dag. Hvernig er þessum skóla launað þetta frumkvæði? Jú, hann er sveltur og það vita það allir. Svo kemur hæstv. menntamálaráðherra hér aftur og aftur og talar um að hún vilji efla háskólamenntun í Reykjavík og annars staðar og það kemur alveg skýrt fram að henni og Sjálfstæðisflokknum er umhugaðra um sjálfstæðu háskólana en þá skóla sem ríkið á og rekur, þeir mega liggja óbættir utan garðs og það veit enginn betur en hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir.