132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[14:01]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í mikla efnisumræðu um frumvarpið sem hér er til umræðu. Mér sýnist það vera til bóta, þ.e. til einföldunar með sameiningu þriggja lagabálka. Í 3. gr. frumvarpsins er þó atriði sem nauðsynlegt er að vekja athygli og fær væntanlega góða umræðu í landbúnaðarnefnd, þ.e. varðandi nafngiftir á þessum verkefnum. Ég tek eftir því að það er ekki alveg fullt samræmi, miðað við tillöguna sem hér liggur fyrir, að landshlutaverkefnin séu Suðurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum, Vesturlandsskógar og Héraðsskógar á Austurlandi. Auðvitað getur verið viðkvæmt að eiga við nafngiftir og það er augljóst að Héraðsskógaverkefnið er elsta verkefnið. Það hefur ef ég man rétt verið í gangi frá 1991 og þar af leiðandi er kannski viðkvæmt að breyta því nafni.

En það stingur í augun að tveir landshlutar séu með aðrar nafngiftir en hinir, þ.e. Skjólskógar gætu til samræmis verið Vestfjarðaskógar og á hinn bóginn væru Austurlandsskógar. Ég held að það sé rétt að nefndin fari yfir þetta. Það er örlítið ankannalegt fyrir Austfirðinga að tala um Héraðsskóga á Austurlandi öllu. Það er auðvitað ákveðið svæði á Austurlandi sem heitir Hérað. Þegar sú nafngift er notuð þá kallar hún eðlilega á þær hugrenningar að átt sé við svæðið þar sem þessir skógar eru. En það er auðvitað ekki merkingin. Menn vilja hafa skóga um allt Austurland. Ég held að hæstv. ráðherra sé örugglega sammála mér um að það megi fegra töluvert, þótt fallegt sé, á Austurlandi með skógum.

En varðandi stjórnina þá virðast mér breytingarnar frekar til einföldunar, þ.e. í sumum verkefnum hafi verið fjögurra manna stjórnir og sé ekki óeðlilegt að þær séu þriggja manna. Það er aðeins spurning varðandi tengingar t.d. við sveitarfélög, hvort menn hafi hugleitt það við samningu frumvarpsins hvort það væri eðlilegt að sveitarfélögin eða landshlutasamtök sveitarfélaganna ættu fulltrúa í stjórnum.