132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[14:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Málið sem hér er um rætt, um landshlutaverkefni í skógrækt, fjallar um miklu meira en það sem fram hefur komið í andsvörum við hæstv. ráðherra. Ég held að ekki sé hjá því komist að við gaumgæfum heildarstefnu okkar varðandi skógræktarmál, sem snertir síðan stefnu okkar almennt í náttúruverndarmálum. Mér er í fersku minni skýrsla Ríkisendurskoðunar, sem átelur ríkisstjórnina fyrir að standa sig ekki nægilega vel í ákveðnum þáttum umhverfisverndarinnar og því að fara að alþjóðlegum samningum sem við höfum undirgengist. Á ég þar sérstaklega við samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika. Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika kemur upp í hugann þegar skógræktarverkefni okkar eru skoðuð, á hvern hátt hefur verið staðið að þeim og stutt við bakið á þeim. Eins og hæstv. ráðherra gat um áðan þá höfum við sett mikla fjármuni í að skapa þessa auðlind, hæstv. ráðherra sagði áðan að 500 millj. kr. hefðu þegar farið í að skapa þessa auðlind, þ.e. auðlindina í skógrækt okkar.

Mér þykir skorta á að hæstv. ráðherra hafi skýrt okkur frá því hvernig hann sér fyrir sér að haldið verði á málum til framtíðar. Mér er vel kunnugt um þá áætlun sem við eigum, þingsályktunartillögu sem samþykkt var á 128. löggjafarþingi um skógrækt á tímabilinu 2004–2008. En þegar við rýnum í upplýsingar þar, sem eru handhægar í þingskjölum, þá vantar okkur kannski þegar öllu er á botninn hvolft skýrslu frá hæstv. landbúnaðarráðherra um það hvernig málum hefur undið fram.

Skógræktaráætlunin sem við vinnum eftir hefur fyrst og fremst að geyma ákvæði um hve mikla fjármuni skuli setja í einstök verkefni en minna um þýðingu þeirra og hvernig við viljum sjá skógræktina sem atvinnuveg, þ.e. að skógarhögg verði stundað sem atvinnugrein af alvöru á Íslandi. Hæstv. ráðherra mætti oftar nota tækifærið til að segja okkur á hvern hátt hann sjái þann atvinnuveg þróast á Íslandi. Sömuleiðis er í skógræktaráætlun okkar ákvæði um þjóðskóga. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er fjallað sérstaklega um það hlutverk Skógræktar ríkisins að vernda náttúrlega skóga. Þar er og fjallað um þau merkilegu skóglendi sem Skógrækt ríkisins hefur í vörslu sinni til að sinna því hlutverki. Þjóðskógarnir eru, eftir því sem segir í greinargerð um skógræktaráætlun okkar, fjölnytja skógar þar sem saman fara verndarsjónarmið, útivist fyrir almenning, rannsóknir, þróun og lítils háttar viðarframleiðsla.

Hlutverk skógræktar okkar er margþætt og margslungið. Það skiptir verulegu máli að hæstv. ráðherra sýni okkur oftar á spil sín í þessum efnum, að við sjáum hvert stefnir bæði með tilliti til verndarhagsmuna og verndaráætlun varðandi náttúrlega skóga, hvernig er háttað samstarfi milli landbúnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis í þeim efnum. Að því leyti get ég fallist á það sem hæstv. ráðherra segir, að atvinnuvegurinn skógrækt eða skógarhögg geti heyrt undir landbúnaðarráðherra sem landnytjaatvinnuvegur.

Hins vegar verður landbúnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti að hafa mjög öflugt, opið og skilgreint samstarf um verndarþátt þessara mála. Við alþingismenn höfum ekki fengið á okkar borð nægilega yfirgripsmiklar upplýsingar um hvernig þessu samstarfi er háttað, á hvern hátt hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands skarast við stofnanir landbúnaðarráðuneytisins, á hvern hátt Landbúnaðarháskólinn er fléttaður inn í þetta, bæði rannsóknarhlutverk hans og hlutverki hans við að byggja upp þessa nýju atvinnugrein. Skógarhögg er sannarlega ný atvinnugrein á Íslandi og ég hefði viljað heyra hæstv. ráðherra fara örlítið dýpra í málin en raunin varð.

Þá erum við kannski komin að mínu hjartans máli og vonandi fleiri sem skipa þingheim. Það er sjálfbærni skógræktarverkefnanna og sjálfbær þróun almennt. Ég held ég hafi lesið málið frá orði til orðs eins og það kemur fram í frumvarpi til laga. Ég sé ekki að sjálfbær skógrækt sé skilgreind sem slík. Mér finnst það nokkuð athyglisvert og jafnvel áhyggjuefni í ljósi þess að nýverið kom út skýrsla frá norrænu ráðherranefndinni varðandi endurskoðuð markmið og verkefni Norðurlandanna í sjálfbærri þróun. Það er stefna sem samþykkt var af forsætisráðherrum Norðurlandanna í nóvember 1998. Hún var undirrituð fyrir Íslands hönd á sínum tíma. Við höfum gefið þessa stefnu út í viðamikilli og efnismikilli bók sem ríkisstjórninni var gert að stýra eftir. Hún segir okkur að í orði kveðnu stýri hún eftir þessari stefnu.

Þegar við skoðum nýútkomna skýrslu með endurskoðuðum markmiðum og verkefnum á árabilinu 2005–2008 þá rekumst við á kaflann um skógrækt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Markmiðið er sjálfbær skógrækt þar sem nýtingu og stjórnun skóga og skógarsvæða er þannig háttað að skógar bæði nú og í framtíðinni geta gegnt vistvænu, efnahagslegu og þjóðfélagslegu hlutverki. Skógrækt á að vera samkeppnishæf til að geta tryggt tekjur og störf og framleitt hágæða timburvörur. Í skógrækt á einnig að tryggja og standa vörð um hollar og lífvænlegar auðlindir skógarins, líffræðilega fjölbreytni og önnur umhverfisverðmæti. Skóginn á líka að nota til útivista og tómstunda.“

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst að í þessum kafla þessarar norrænu skýrslu komi fram veigamikil atriði sem hæstv. landbúnaðarráðherra lætur engu getið í þingmáli sínu. Mér finnst miður að menn skuli ekki átta sig á hversu víðtæk stefna hefur verið unnin upp í hendurnar á okkur, hve góð áform eru til staðar í þeirri norrænu stefnu sem sér hvergi stað í stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málefnum sem snerta framtíðarsýn til sjálfbærrar þróunar. Ég vil t.d. spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái þróast á næstu örfáum árum rannsóknir á skógrækt. Þá er ég að tala um tvíþættar rannsóknir, annars vegar náttúrurannsóknir sem byggja á að náttúrulegur skógur sé rannsakaður og áætlun sé gerð um áframhaldandi verndun hans, mögulega eflingu og útbreiðslu og svo að hinu leytinu rannsóknir varðandi mögulega nýja atvinnugrein sem lýtur þá að skógrækt sem atvinnu til skógarhöggs.

Mér finnst nauðsynlegt að hæstv. ráðherra uppfræði þingheim um á hvern hátt þeim verkefnum sem við höfum sett fjármuni í vindur fram. Ég auglýsi þess vegna eftir því að hæstv. ráðherra geri þingheimi grein fyrir því hvernig þeim verkefnum reiðir af og á hvern hátt hann sjái nánustu framtíð í þessum efnum. Hæstv. forseti, mér finnst dýptin í þessu máli talsverð þótt hennar gætti ekki í máli hæstv. ráðherra. Ég vil leggja áherslu á að Skógræktin þurfi að leggja áherslu á líffræðilegan fjölbreytileika. Eins og ég vék að í upphafi máls míns hefur ríkisstjórnin fengið ákúrur fyrir að fara ekki nægilega eftir þeim samningi sem hún þó hefur undirgengist í þeim efnum.

Mér finnst að þess þurfi að sjá stað að einhver vinna sé í gangi sem tryggi vernd grunnvatns okkar eða á hvern hátt binding koltvísýrings í skógi vindur fram. Hvaða áætlanir hafa verið gerðar varðandi það? Hvað á hún að vera umfangsmikil og hvar á hún að vera? Mér finnst vanta heilmikið í þetta mál til að ég geti sagt að ég sé sátt við það.

Eitt af því sem Norðurlandabúar leggja áherslu á varðandi sjálfbæra nýtingu skógarins er margvíslegt hlutverk skóganna í samfélaginu. Norðurlöndin leggja áherslu á að ræða allar ákvarðanir sínar varðandi skógrækt á opinberum vettvangi, sem mér hefur fundist skorta á hér. Mér fyndist að vera ætti meiri opinber umræða um skógræktarmál og hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því í framhaldi af þessu þingmáli, að efla umræðuna, hafa hana opnari og sjá t.d. til þess að umhverfisverndarsamtök komist inn í þessa umræðu og séu hvött til að taka þátt í henni.

Norðurlandabúar leggja líka mikla áherslu á umhverfismerkta skógrækt, þar sem ræktaðir eru skógar samkvæmt alþjóðlegum vottunarstöðlum sem heimila sérstaka vottun framleiðslunnar. Ég tel afar mikilvægt, ef á að efna til stórfellds skógarhöggs og iðnaðar í tengslum við skógrækt og skógarhögg á Íslandi, að við skipum okkur fremst í flokk landa með umhverfisvottaða framleiðslu. Ég veit satt að segja ekki hvort eitthvað slíkt sé á prjónum hæstv. ráðherra. Ég treysti því að hann segi okkur meira um þau efni í síðari ræðu sinni. Það skiptir máli að við þróum í enn frekari mæli náttúruumhverfisvæna starfshætti í skógrækt. Við þurfum að leggja verulega áherslu á að framleiðsluvörur í skógræktinni séu umhverfisvænar og þurfum að krefjast skráningar á lagalegum og sjálfbærum uppruna timburafurða.

Varðandi síðan félagslegt hlutverk skóganna í þjóðfélaginu þá er rétt að geta þess að það þarf að tryggja aðgengi að skógum. Það er mikilvæg forsenda fyrir virka útivist í skógræktarumhverfi. Ég hef sjálft lent í því að koma í gamla skógrækt í Skorradalnum, afar gróskumikla skógrækt, sem er svo óaðgengileg sem frekast getur verið. Þar kemst ekki nokkur maður um og hæstv. ráðherra þarf aðeins að skoða hvort möguleiki fólks til útivistar í skóglendi sé nægilega mikill og á hvern hátt við getum tryggt að skógarnir okkar verði opnaðir til umgengni fyrir almenning.

Síðan þarf að skoða eða ræða a.m.k. um ólík búsvæði á Íslandi, með tilliti til skógræktar. Ég sakna umræðu um á hvern hátt búsvæði okkar henta misvel til skógræktar þannig að plöntur, dýralíf og búsvæði séu virt, hið besta sé nýtt í þeim og meðvitaðar ákvarðanir teknir. Allt þetta þarf að gera í öflugri samvinnu við útivistarsamtök, skógareigendasamtök, náttúruverndarsamtök, samtök landeigenda og eigenda lögbýla.

Hæstv. forseti. Mér finnst afar þarft mál á ferðinni. Varðandi breytingar á þessu fyrirkomulagi hef ég kannski ekki svo stór eða mikil sjónarmið uppi. En ég tel að í málinu búi tækifæri fyrir dýpri umræðu en hæstv. ráðherra bryddar upp á í málinu. Ég hvet til að hæstv. ráðherra haldi áfram að efla skógræktina og umræðuna um skógrækt og tryggi að sú umræða verði ævinlega á dýptina.