132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjármálaeftirlit.

556. mál
[15:20]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra leggur áherslu á sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins og ég get á vissan hátt tekið undir það. En það er rétt að við áttum okkur á að hæstv. ráðherra er viðskiptaráðherra og ráðherra bæði samkeppnismála og neytendamála. Það er því mjög óeðlilegt að ráðherra með þessa málaflokka geti ekki haft aðgang að frumkvæði í því að eitthvert mál sé kannað. Með því að slíta þarna á milli með þeim hætti sem verið er að leggja til er ráðherra í raun og veru að fría sig ábyrgð en þó ekki, af því að stjórn Fjármálaeftirlitsins er áfram tilnefnd af viðskiptaráðherra. Stjórnin á því allt sitt undir viðskiptaráðherra hvað það varðar.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra, frú forseti: Væri ekki réttara að slíta hér á milli, að slíta Fjármálaeftirlitið, sem við erum öll sammála um að þurfi að vera öflugt og starfa gagnsætt, frá viðskiptaráðuneytinu og setja það undir Alþingi, eins og við höfum lagt til, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Fjármálaeftirlitið er svo mikilvæg eftirlitsstofnun og þarf að geta starfað hlutlaust en geta þó jafnframt tekið við erindum, líka frá viðskiptaráðherra, líka frá ráðherra neytendamála og ráðherra samkeppnismála. Það gerist best með því að það verði sett undir Alþingi, eins og t.d. Ríkisendurskoðun. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur þetta verið kannað? Hefur það verið skoðað hvort þetta væri kannski stjórnsýslulega sterkast fyrir Fjármálaeftirlitið og þar með líka (Forseti hringir.) ráðherrann?