132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kynbundinn launamunur.

224. mál
[16:43]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um opinbera nefnd sem vinni gegn kynbundnum launamun. Þessi tillaga er á þskj. 224, mál 224. Flutningsmenn tillögunnar ásamt þeirri er hér stendur eru hv. þingmenn Jónína Bjartmarz, Dagný Jónsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir og Magnús Stefánsson.

Af þessari upptalningu má sjá að flutningsmenn eru úr öllum stjórnmálaflokkum nema Vinstri grænum. En þeir flytja annað mál sem lýtur líka að kynbundnum launamun. Þeir vilja að sjálfsögðu útrýma honum eins og aðrir stjórnmálaflokkar. Því má segja að hér ríki þverpólitísk samstaða um að útrýma kynbundnum launamun og menn vilja nota til þess öll tæki sem tiltæk eru. Þessi þingsályktunartillaga er dæmi um eitt slíkt tæki.

Í tillögunni sjálfri kemur fram að Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að koma á fót þverpólitískri nefnd sem skipuð verði fulltrúum stjórnmálaflokkanna ásamt fulltrúa Jafnréttisstofu og nefndin hafi það verkefni að vinna gegn kynbundnum launamun. Það er eðlilegt að nefndin verði vistuð hjá Jafnréttisstofu sem fjallar um jafnréttismál á Íslandi í víðum skilningi. Nefndin þyrfti að ráða til sín starfsmann sem jafnframt yrði framkvæmdastjóri hennar. Það er eðlilegt að sérstakur starfsmaður verði ráðinn ef ráðast á í eins viðamikið starf og þessi þingsályktunartillaga ber með sér.

Virðulegur forseti. Það kemur fram í þessari tillögu að verkefni nefndarinnar verða margvísleg. Í fyrsta lagi á nefndin að vinna að áætlanagerð og aðgerðum til að minnka launamun kynjanna. Það er mjög brýnt að vinna að áætlanagerð í þessu sambandi í ljósi þess hve flókið er að útrýma launamun kynjanna.

Í öðru lagi er sagt að nefndin eigi að vera í nánu samstarfi og samráði við hagsmunasamtök og þá aðila sem áhrif hafa á launaþróun í landinu. En það eru auðvitað fjölmargir aðilar sem hafa áhrif á launaþróun, svo sem stéttarfélögin, aðilar vinnumarkaðarins og alls kyns hagsmunahópar sem fylgjast með og vinna gegn óréttlæti í samfélaginu.

Í þriðja lagi á nefndin að standa fyrir ráðstefnuhaldi og skoðanakönnunum og framleiða efni til opinberrar birtingar sem stuðli að launajafnrétti kynjanna. En það er mjög brýnt að koma upplýsingum á framfæri bæði við almenning og aðra sem áhrif hafa á launaþróun þannig að menn viti að hverju ber að stefna og hvar skórinn kreppir í þessu sambandi.

Í fjórða lagi segir að nefndin eigi að kanna til hvaða aðgerða nágrannar okkar á Norðurlöndunum hafa gripið til að minnka kynbundinn launamun. Kynbundinn launamunur er alþjóðlegt fyrirbæri, konur almennt hafa lægri laun en karlar, a.m.k. þekkir sú er hér stendur ekkert samfélag þar sem konur hafa almennt hærri laun en karlar. Í flestum ef ekki öllum samfélögum hafa karlar hærri laun almennt. Öll lönd eru meira og minna að fást við þetta vandamál. Norðurlöndin hafa kannski tekið hvað mest á þessu og það er eðlilegt að við skoðum hvað nágrannar okkar hafa gert til minnka launamun kynjanna. Hér segir einnig að nefnd þessi eigi að vinna í fimm ár þannig að þetta er tímabundin aðgerð. Nefndin á að gefa út áfangaskýrslu um störf sín á miðju starfstímabilinu, þ.e. þegar u.þ.b. tvö og hálft ár eru liðin af starfstíma hennar. Þetta er hugsað þannig að þá geti þeir sem um þessi mál fjalla skoðað skýrsluna og áttað sig á hvert stefnir og hversu ötul nefndin hefur verið og hvað hún hefur lagt til málanna.

Þegar rætt er um svona tillögu er eðlilegt gera í örstuttu máli grein fyrir því sem gert hefur verið varðandi kynbundinn launamun. En sú skoðun er almennt ríkjandi að mikið ranglæti felist í kynbundnum launamun og að ekki sé hægt að líða slíkt ranglæti í nútímasamfélagi og hefur reglulega verið vakin athygli á því ranglæti. Í því sambandi er kannski eðlilegt að minnast hér á kvennafrídaginn árið 1975 en þá lögðu konur einmitt niður vinnu til að sýna fram á verðmæti vinnuframlags kvenna fyrir íslenskt efnahagslíf. Þær héldu fjöldafund til að krefjast jafnréttis. Sá fundur var geysilega fjölmennur og mikil stemning ríkti á honum. En núna, 30 árum seinna, erum við ekki komin í mark varðandi þetta mál. Það er enn þá launamunur í íslensku samfélagi og mismunur ríkir hér gagnvart konum á mörgum öðrum sviðum líka. Hinn 24. október sl. lögðu konur aftur niður störf til að sækja fjöldafund og krefjast jafnréttis enn á ný. Sá fundur sló öll fyrri met, var mjög fjölmennur, og það ríkti mikill baráttuandi á honum. Það er því alveg ljóst að þetta er mál sem almenningur vill að tekið sé á og við þurfum að gera mun meira en við höfum gert til að uppræta launamuninn sem er svo flókið að eiga við.

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á kynbundnum launamun og ég mun koma að þeim síðar í máli mínu, en umræðan um hann hefur verið mjög löng. Fyrstu lög um jöfn laun karla og kvenna í tilteknum starfsstéttum voru sett árið 1945. Árið 1961 voru samþykkt á Alþingi lög um launajöfnuð karla og kvenna. Árið 1975 litu fyrstu jafnréttislögin dagsins ljós og þau voru síðan endurskoðuð árið 2000. Það ber að nefna að ríkisstjórnin hefur gert jafnréttisáætlanir sem hafa verið endurskoðaðar nokkrum sinnum. Sú fyrsta var gerð 1986 en í núgildandi jafnréttisáætlun, sem var samþykkt fyrir ekki löngu síðan eða á þarsíðasta ári, segir að markmið ríkisstjórnarinnar sé að uppræta launamun kynjanna þannig að jafnrétti náist á því sviði.

Í stjórnarskránni er mælt fyrir um það að konur og karlar skuli njóta jafnréttis í hvívetna. Samt er það staðreynd þegar við skoðum launamun milli kynja að hann er greinilega fyrir hendi þegar við berum saman laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Það er kerfislægur launamunur milli kynjanna, hann hefur verið ríkjandi um árabil eða kannski frá upphafi og því miður eru lítil teikn á lofti um breytingar. Það má því færa rök fyrir því að verið sé að fara á svig við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar ásamt fleiri lögum eins og lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna.

Varðandi rannsóknir sem gerðar hafa verið á launamun kynjanna þá hafa þær ekki allar sýnt sömu niðurstöðu en það má segja á grófum skala að þær hafi sýnt að kynbundinn launamunur sé á bilinu 7,5–18%. Oft hefur verið talað um 10–15% en alla vega er hann allt of mikill. Heildarvinnutekjur kvenna eru að jafnaði um 60% af atvinnutekjum karla en ef tekið er tillit til vinnutíma er hlutfallið komið upp í 79%. Ástæða þess er að margar konur stunda launavinnu í skemmri tíma en karlar. Karlar tengjast barneignum og fjölskylduábyrgð á annan hátt en konur. En þegar búið er að taka tillit til allra þátta sem oft hefur verið gripið til til að sýna fram á einhverja eðlilega skýringarþætti á mismunandi launamun standa alltaf eftir 7,5–18% sem flokkast sem kynbundinn launamunur sem alls ekki er hægt að útskýra með nokkrum hætti, með engum afsökunum og engum sérstökum skýringarþáttum sem gripið er til. Þetta er bara kynbundinn launamunur

Einnig hefur verið sýnt fram á það í könnunum að kynbundinn launamunur á almenna vinnumarkaðnum er meiri en hjá hinu opinbera. Skýringin er talin að hluta til af því að kjaraákvarðanir eru í meira mæli einstaklingsbundnar á almennum vinnumarkaði en algengara er hjá hinu opinbera að þar séu miðstýrðir kjarasamningar hafðir til viðmiðunar. Samkvæmt þessu er staðan því verri ef eitthvað er á einkamarkaðnum en á hinum opinbera markaði.

Nýlega var gerð launakönnun sem nefnd um efnahagsleg völd kvenna lét gera í samvinnu við Jafnréttisstofu. Sú könnun sýndi að aðgerða er þörf en meginniðurstaða þeirrar könnunar var að konur hefðu 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnudag. Könnunin sýndi að það mætti skýra 21–27% af þessum launamun með ólíkum starfsvettvangi, starfi, menntun og ráðningarfyrirkomulagi kynjanna. Það sem eftir stendur, þ.e. 7,5–11% launamunur stafar af því að hjónaband, barneignir og fleira hefur önnur áhrif á laun kvenna en karla. Það kom fram að föst dagvinnulaun karla eru t.d. 4–5% hærri en ella ef þeir eru í sambúð eða hjúskap. Sambúðin hefur lítil áhrif á laun kvenna, þ.e. karlarnir fengu meiri laun ef þeir voru í hjúskap eða í sambúð en það virtist ekki hafa áhrif á laun kvenna. Það má líka geta þess að í sömu könnun kom fram að hlutfall kvenna í æðstu stjórnunarstöðum hjá ríkinu væri afar lágt, um 20%, og hvað þá meðal framkvæmdastjóra stærstu fyrirtækja landsins, einungis 4% þeirra voru kvenkyns. Við erum þannig langt á eftir í jafnréttismálunum á þessu sviði líka, virðulegi forseti.

Þessi launamunur er mjög flókið fyrirbæri, margir þættir hafa áhrif á hann og þeir eru missýnilegir. Nefna má að viðhorf til hlutverkaskiptingar kynjanna hefur áhrif, flokkun hluta vinnumarkaðarins í karla- og kvennastörf, misjafnt aðgengi kynjanna að stjórnunarstöðum í fyrirtækjum, launaleynd og misjöfn fjölskylduábyrgð kynjanna.

Því miður eru engar beinar töfralausnir til. Ef svo væri þá væri búið að eyða þessum launamun. Aðgerðir hafa þó mjög mikið að segja í þessu sambandi. Ég vil nefna ný fæðingarorlofslög sem réttu hlut karla til fæðingarorlofs en sá réttur er núna jafn á við rétt kvenna. Sú nýbreytni hefur örugglega leitt til að bæta stöðu kvenna gagnvart launum af því atvinnurekandi þarf ekki að hafa eins miklar áhyggjur af því að einungis kona hverfi frá störfum vegna barneigna, heldur líka karlinn eða faðirinn.

Vitundarvakning hefur áhrif og líka viðhorfsbreytingar. Því ber að fagna að samtök launafólks hafa staðið fyrir herferðum þar sem er verið er benda á kynbundinn launamun. Þar er verið að hvetja konur til að krefjast hærri launa og verðmeta sjálfar sig hærra og mér þykir það mjög jákvætt.

Þrátt fyrir allt þetta er launamunurinn staðreynd og á honum verður að taka. Mikil umræða hefur verið um launaleynd og það er mál sem þarf að skoða vel. Ég veit að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur skoðað það sérstaklega og hefur flutt mál um það. Loks er það starfsmat sem ég tel eðlilegt að skoðað verði enn frekar en þar hefur Reykjavíkurborg kannski gengið hvað lengst. Sú er hér stendur var einmitt formaður starfsmatsnefndar á sínum tíma. Þar verið var að skoða starfsmat og hvaða áhrif það gæti haft á laun karla og kvenna en við starfsmat eru jafnverðmæt og sambærileg störf metin á einingaskala, má segja. Slíkt starfsmat, slíka reglustiku, væri hægt að nota á kvennastörf og karlastörf til þess að greiða jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Ég tel að Reykjavíkurborg hafi unnið þarna mjög gott starf svo og fleiri sveitarfélög.

Fyrir stuttu var ákveðið að félagsmálaráðuneytið færi í sérstaka vinnu varðandi launamun kynjanna og vinnur nefnd að því núna að setja upp kerfi þar sem fyrirtæki sem standa sig vel í launamálum kynjanna eiga að geta beðið um að láta gera úttekt hjá sér og geta fengið nokkurs konar gæðavottun. Fyrirtæki sem fær slíka gæðavottun á að geta sannað að þar ríki ekki kynbundinn launamunur. Verður spennandi að sjá hvernig það kerfi verður þegar það verður kynnt síðar.

Virðulegur forseti. Ég tel að þetta mál sé mikilvægt og veit að þverpólitísk samstaða er um það. Það er einungis spurning um hvaða leiðir eru bestar að markinu.