132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Strandsiglingar.

251. mál
[11:04]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason, fyrsti flutningsmaður þessa máls, fór vel yfir kosti þess að við legðum á ný áherslu á strandsiglingar við landið. Það er ánægjulegt að þingmenn Frjálslynda flokksins skuli tilbúnir að leggja fram tillöguna ásamt þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Í umræðum á þinginu í gær kom fram að mikill samhljómur er milli þingmanna Samfylkingar um þetta mál. Ég vona að breið samstaða myndist um málið. Nú vantar aðeins fulltrúa tveggja flokka til að taka málið endanlega í sátt.

Í öllum umræðum um samgöngumál á þinginu er talað um að flutningar hafi færst upp á vegina í miklum mæli. Það hefur auðvitað ýmsan vanda í för mér sér. Vegirnir eru hreinlega ekki gerðir fyrir þungaflutninga. Ég vil meina að við séum að kasta krónunni til að spara aurinn vegna þess að það er þjóðhagslega hagkvæmt að flytja þungavarning í gámum á milli landshorna með skipum. Það er ekki gáfulegt að gera það með flutningabílum. Oft hefur verið bent á að einn flutningabíll með tengivagni skemmi vegina jafnmikið og 10 þús. fólksbílar. Þetta eru tölur frá Vegagerðinni. Þar fyrir utan eru skipaflutningar mun umhverfisvænni kostur og mætti halda um það langt mál.

Sem betur fer er eitthvað að gerast í siglingamálum þjóðarinnar. Ég vil t.d. nefna að það eru að komast á reglulegar siglingar milli Akureyri og Evrópu. Ég fagna því að það skuli gerast. En reyndar er merkilegt að þar eru Norðmenn í fararbroddi. Þessi hugmynd, um að bjóða út siglingaleiðir líkt og gert er í fluginu, er mjög góð. Ég held að það eigi að nást samkomulag á þinginu um að þetta sé þjóðhagslega hagkvæm leið og mjög gáfuleg upp á framtíðina.

Það er skrítið að flutningum til og frá landinu skuli miðstýrt frá Reykjavík. Gámar eru fluttir af Norður- og Austurlandi um vegina til Reykjavíkur. Þeir eru settir í skip og fluttir til annarra landa. Það er hluti af miðstýringaráráttunni í þjóðfélaginu.

Ég vona að þessi tillaga til þingsályktunar fái nú góða umfjöllun í samgöngunefnd og verði samþykkt hér þannig að strax í haust verði farið í að bjóða út siglingar. Þá horfi ég fram á bjartari tíma í umhverfis- og samgöngumálum þjóðarinnar.