132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Strandsiglingar.

251. mál
[11:08]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni mikið framfaramál sem ég er sannfærður um að breið samstaða er um á Íslandi. Það er flutt af þingmönnum úr tveimur flokkum eins og fram kom í umræðunni, annars vegar þingmönnum úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og hins vegar þingmönnum úr Frjálslynda flokknum. Fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Jón Bjarnason, sem hefur beitt sér mjög fyrir þessu máli í langan tíma. Fyrir nokkrum árum fór hann fyrir okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og flutti þingsályktunartillögu um að rækileg úttekt yrði gerð á strandsiglingum við Ísland með það fyrir augum að efla siglingarnar. Síðan hafði hann forgöngu um þetta þingmál, þ.e. tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar. Það gengur út á samgönguráðherra undirbúi að strandsiglingar verði hluti af vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Við erum að sjálfsögðu opin fyrir öllum leiðum sem fara mætti í þessu sambandi. (ÖS: Viljið þið bjóða út?) Hugsanlega mætti bjóða það út. (Gripið fram í.) Aðrar hugmyndir hafa einnig verið viðraðar.

Ég tel t.d. fyrir mitt leyti koma til greina að hér yrði komið á fyrirtæki eða stofnun á vegum hins opinbera sem annaðist strandsiglingar. Það mundi sinna þjóðhagslega hagkvæmu hlutverki. Eins og hér hefur komið fram er hagkvæmt að flytja þungan varning sem er fluttur á landi í dag aftur sjóleiðis. Það er gert með tilliti til mengunar og álags á vegakerfið. En með fullhlöðnum flutningabíl með tengivagni er álagið á vegina á milli 20–30 þús. sinnum meira en af fólksbíl.

Þegar að Skipaútgerð ríkisins var lögð niður í upphafi 10. áratugarins, það mun hafa verið árið 1992, fór fram mikil umræða um það á Alþingi og einnig í fjölmiðlum. Morgunblaðið birti leiðara 24. mars árið 1992 þar sem fjallað var um þetta efni. Þar segir að einkavæðing strandsiglinga mundi, og nú vitna ég orðrétt í leiðarann, með leyfi forseta: „... tryggja nauðsynlega þjónustu eftir hagkvæmustu og ódýrustu tiltækum leiðum. Og létta jafnframt áhætturekstri og oftar en ekki taprekstri af ríkissjóði og þar með skattgreiðendum.“

Í leiðaranum voru miklar efasemdir um að einkavæðingin væri til hagsbóta fyrir neytendur og samfélagið allt. Menn töldu eindregið að svo yrði enda segir þar, með leyfi forseta:

„Svo er að sjá sem samgönguráðherra hafi haldið svo á þessu máli, að samfélagið hljóti af nokkurn hag. Af ríkissjóði hefur verið létt verulegum útgjöldum, án þess að þjónusta hafi skerst. Vonir standa og til að samkeppni Eimskips, Samskipa og annarra, sem strandsiglingar stunda, muni svara eftirspurn neytenda … Flest bendir því til þess að einkavæðing strandsiglinga muni takast vel.“

Þarna reyndist leiðarahöfundur Morgunblaðsins ekki sannspár og sannaðist þar eina ferðina enn að vafasamt er að setja jafnaðarmerki milli hagsmuna einstakra fyrirtækja annars vegar og þjóðarhags hins vegar. Í þessum skrifum kemur fram sá misskilningur að menn væru lausir allra mála eftir að hætt var að niðurgreiða eða styrkja Skipaútgerð ríkisins. Mönnum yfirsást að stuðningur ríkisins við samgöngukerfið kæmi fram í öðru formi, þ.e. nauðsyn þess að styrkja vegakerfið og búa það undir þungaflutninga.

Í umræðum á þingi hafa menn úr öllum stjórnmálaflokkum tekið undir þá hugsun sem þetta frumvarp byggir á. Einu skulum við ekki gleyma í þessu sambandi, þ.e. að þegar hefur verið ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar sem eru forsenda flutninga á sjó. Hafnirnar víðs vegar um landið standa, sumar ónýttar hvað þennan þátt snertir.

Menn trúðu því er leiðarinn var skrifaður að skipafélögin mundu vinna með þjóðarhag í huga en það er löngu liðin tíð. Það er ekki langt síðan Eimskipafélagið lýsti því yfir að það væri hætt að vera skipafélag heldur væru eigendurnir grúppa, eins og tíðkast að tala um slíka hópa, sem sinnti ekki siglingum og annaðist ekki siglingar til og frá landinu og umhverfis landið. Nei, nú var það fyrst og fremst fjárfestingarhópur. Þegar þessi ákvörðun var tekin hjá Eimskipafélaginu var það ekki svo að félagið væri á vonarvöl. En afskriftir á árinu 2004 voru áætlaðar 2.300 millj. kr. og gert var ráð fyrir að afkoma ársins 2005, nú er ég að vitna í gamlar tölur sem koma þó fram í greinargerð með þessu þingmáli, yrði um 3.000 millj. kr. og um 3.500 millj. kr. árið 2006. Þetta eru áætlanir sem á sínum tíma lágu fyrir. Þarna er með öðrum orðum um að ræða mikinn hagnað af starfsemi Eimskipafélagsins. En menn hugsuðu einfaldlega sem svo að hægt væri að fjárfesta og hafa enn meira með því að beina fjármununum í fjárfestingar innan lands og utan.

Við slíkar aðstæður ber samfélaginu að grípa inn í á annan hátt. Við höfum fundið fyrir því að það hefur ekki fengið góðar undirtektir af hálfu annarra en þingmanna úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að ríkið komi inn í þessar siglingar með beinum hætti, sem ég hef t.d. sjálfur sett fram tillögur um. (ÖS: Hvar?) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spyr hvar ég hafi sett þessar tillögur fram. Það gerði ég m.a. í blaðagrein sem ég birti í Morgunblaðinu 4. ágúst 2004 og er hér sem fylgigagn í þessu máli ef hv. þingmaður hefur áhuga á að kynna sér það nánar, sem hann greinilega ekki hefur gert. Það kom fram í frammíkalli hans áðan.

Við viljum hins vegar ná árangri og erum reiðubúnir að fara aðrar leiðir og fela hugsanlega öðrum aðilum sem sýna (Forseti hringir.) þessu málefni áhuga, þar með komin skýringin á útboðsleið okkar.