132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[12:13]
Hlusta

Frsm. meiri hluta félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki sammála því að hérna sé um einhverjar skammarlegar upphæðir að ræða. Þetta eru upphæðir sem hafa ekki verið inntar af hendi hingað til. Í dag eru þessar (JóhS: Þær eru lágar fyrir það.) upphæðir 0 kr. Þannig að hér er aldeilis verið að bæta réttindin. Hins vegar mun langstærsti hópurinn fara fyrst á greiðslur sjúkrasjóðanna sem í mörgum tilvikum greiða 80% af launum launamannsins sem eru yfirleitt talsvert hærri greiðslur en umræddar 93.000 kr. Þannig að til að byrja með fer fólk og fær greiðslur þar og kemur síðan til ríkisins ef börnin eru veik í lengri tíma en sjúkrasjóðirnir greiða fyrir.

Ég er búin að fara yfir röksemdafærsluna af hverju þessi breyting er gerð. Hún er gerð í anda þessa frumvarps. (ÖS: Hún er ekki í frumvarpinu.) Andi frumvarpsins er að það séu tengsl á milli vinnumarkaðarins og þeirra foreldra sem eru á vinnumarkaðnum og lenda í þessum aðstæðum. Þá er eðlilegt að menn haldi tengslunum áfram með því að fá greiðslur úr sjúkrasjóðnum fyrst ef þeir eiga rétt á þeim og komi svo til ríkisins.

Varðandi aðila vinnumarkaðarins, eða stéttarfélögin, er mér kunnugt um að hæstv. félagsmálaráðherra átti fund með forustumönnum ASÍ um ýmis mál tengd vinnumarkaði og þar á meðal þetta. (JóhS: Þeir kannast ekki við það.) Það kemur mér mjög á óvart ef þeir kannast ekki við það. Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef haft þegar ég var að vinna að þessu máli. (Gripið fram í.) Það er alveg ljóst að miðað við þær fréttir sem ég hef af því var þetta mál sérstaklega rætt við forustu ASÍ alla vega. En það er nú þannig að það þarf ekki að bera öll mál hér undir stéttarfélögin þó við viljum að sjálfsögðu vera í góðu samstarfi við þau.