132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Uppbygging héraðsvega.

310. mál
[16:25]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins geta þess, af því að hv. þingmaður talaði um vegi sem væru lagðir af þegar býli færu í eyði, að mjög víða í Suðurkjördæmi er verið að leggja nýja vegi að nýbýlum vegna þess að fólk vill flytja út í sveit og búa þar, stofna býli, og þá þarf að leggja nýja vegi. Það hefur falið í sér aukinn kostnað fyrir sveitarfélög því að greiða þarf hluta af heimreið heim á bæi.

Það er sem betur fer víða líf í sveitum. Víða er verið að stofna nýbýli og ekki síst vegna þess að töluvert mikið hefur verið rýmkað með jarðalögin og það hefur gert það að verkum að auðveldara er fyrir fólk að kaupa og selja. Ég tel að þetta sé mjög jákvætt og vil koma því á framfæri hér.