132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:27]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til umræðu hefur verið á dagskrá Alþingis síðastliðin tvö þing. Það er út af fyrir sig rétt hjá þeim hv. þingmanni sem mælti fyrir málinu sem formaður iðnaðarnefndar að málið hefur fengið þó nokkra umfjöllun. Það er hins vegar rangt hjá hv. þingmanni að það hafi hlotið nóga umfjöllun því það vantar mikið upp á það. Ég geri ráð fyrir að það eigi eftir að koma í ljós í umræðunni og menn muni rökstyðja það með skýrum hætti hvers vegna þau orð eru sögð hér.

Með frumvarpinu er gerð tillaga um ný vatnalög. Frumvarpið var til meðferðar Alþingis á 131. löggjafarþingi og var þá afgreitt frá nefnd en náði ekki til lokaafgreiðslu. Þessu frumvarpi er ætlað að leysa af hólmi núgildandi vatnalög frá árinu 1923, en gildandi vatnalög, nr. 15 frá 1923, sem voru í raun heildarlög um vatnsréttindi, eru afar merkileg og hafa staðist tímans tönn mjög vel. Það er hins vegar ljóst að margs konar breytingar á lagaumhverfi og stjórnsýslu kalla á endurskoðun þeirra í náinni framtíð. Þó kom mjög skýrt fram á fundum nefndarinnar með umsagnaraðilum og sérfræðingum að ekki væru uppi sérstök vandamál sem gerðu það að verkum að hraða þyrfti endurskoðun þessara laga. Þvert á móti töldu margir sem á fund nefndarinnar komu að best væri að fara sér hægt í málinu en vanda þeim mun betur til verka. Rétt er að minna á, að það tók Alþingi sex ár á sínum tíma að fjalla um núgildandi vatnalög, lagabálk sem var upphaflega 155 greinar.

Í frumvarpinu eru vatnsréttindi skilgreind með neikvæðum hætti, þ.e. með almennri skilgreiningu, í stað þess að talin séu upp öll réttindi fasteignareigenda eins og gert er í núgildandi vatnalögum en það kallast jákvæð skilgreining réttinda. Í þessu gæti falist meiri breyting en ætla mætti af skýringum með málinu. Rétt er að nefna að upphaf þessarar umræðu segir einmitt svolítið um þann ágreining sem snýst um eignarhaldið á vatninu sjálfu og skilgreiningarnar á því og hvernig menn skilja það eignarhald hver með sínum hætti.

Í 1. gr. frumvarpsins segir:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, …“

Minna má það nú ekki vera. Það verður að teljast vafasamt orðaval ef hér á fyrst og fremst að vera um formbreytingu að ræða, eins og sagði í athugasemdum með frumvarpinu. Þar var einnig sagt að í þessari nýju skilgreiningu á vatnsréttindum fælist í raun meginatriði frumvarpsins. En þó var sérstaklega áréttað að það væri „fyrst og fremst“ um formbreytingu að ræða. Meginatriði frumvarpsins er sem sagt formbreyting samkvæmt því sem stendur í textanum.

Í athugasemdum frá laganefnd Lögmannafélags Íslands var sérstaklega fjallað um það orðalag og sagt að það væri til þess fallið að vekja vafa um markmið breytinganna og að mun skýrara væri að segja afdráttarlaust að hér væri einungis um formbreytingu að ræða.

Í sérstakri viðbótarumsögn Orkustofnunar sem nefndinni barst var tekið sérstaklega undir þessa athugasemd laganefndar Lögmannafélagsins. Meiri hluti nefndarinnar hefur lýst því yfir að þessi breyting sé einungis formbreyting en muni engin áhrif hafa á raunveruleg réttindi. Finnst mönnum ekki svolítið skrýtið að hlusta á hv. formann nefndarinnar, eftir svona yfirlýsingar um að þetta sé bara formbreyting, þegar hann gengur hér fram og ásakar menn um að ætla að taka einhver stórkostleg réttindi af mönnum, ef gamla skilgreiningin verður látin gilda? Finnst mönnum það ekki undarlegt að hlusta á þennan sama mann halda því fram að breytingarnar sem eru í frumvarpinu séu bara formbreytingar?

Eftir stendur að skilningur þeirra sem sömdu frumvarpið var og er óumdeilanlega að aðalmarkmið þess sé „skýrt eignarhald á vatni“. Það vekur óneitanlega tortryggni þegar því er haldið fram að aðalmarkmið lagasetningarinnar sé formbreyting eins og nú er orðin niðurstaða meiri hlutans.

Það að hér gangi mönnum annað til en umhyggja fyrir formi og samræmi sannaðist þegar aðalhöfundur þessarar lagasmíðar svaraði spurningum nefndarmanna, en hann var m.a. spurður hvort það gæti skapað skaðabótaábyrgð á hendur ríkinu ef ákvæði um vatn sem nú eru í lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu yrðu numin brott. Svarið var skorinort „já, án vafa“ mundi það skapa skaðabótaskyldu. Hvernig skyldi standa á því að þessi ágæti maður sem mætti þarna fyrir nefndina skuli hafa þá skoðun að ef sú skilgreining sem þarna er inni yrði numin á brott mundi það varða skaðabótaskyldu frá hendi ríkisins, en að einungis formbreyting sé á ferðinni þegar menn tala um vatnalögin? Hvernig kemur þetta heim og saman? Það væri afar fróðlegt að hlusta á hv. formann nefndarinnar útskýra það svolítið nákvæmar. Hvernig þetta tvennt getur farið saman, að ef litið er til laganna um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé um að ræða skaðabótaskyldu sem ríkið mundi skapa sér ef skilgreiningunni í þeim lögum yrði breytt. En ef skilgreiningin sem lagt er til að tekin verði hér upp verður að lögum, þá er bara um formbreytingu að ræða.

Hv. formaður nefndarinnar verður að fara vandlega yfir þetta og útskýra fyrir hv. þingheimi hvernig á því stendur að lagaklásúla í einum lögum hefur önnur áhrif en lagaklásúla í öðrum lögum, þ.e. lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu hafa öðruvísi áhrif en vatnalögin samkvæmt þessu. En það þarf ekki frekari vitnanna við. Ef sambærileg ákvæði laganna um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og þau sem hér um ræðir færa mönnum skaðabótarétt, verði gerð á þeim sú formbreyting að færa réttinn til fyrra horfs, hlýtur að mega gagnálykta á þann veg að í þeirri breytingu sem er í frumvarpinu felist breyting á réttarstöðu. Það er það sem menn eru að þræta fyrir. Verið er að þræta fyrir að hér sé á ferðinni breyting á réttarstöðu.

Sjá má af framlögðum gögnum og greinargerð með málinu að frumvarpinu ásamt frumvarpi til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum var ætlað að koma í stað vatnalaga. Síðarnefnda frumvarpið var einnig lagt fyrir á 131. löggjafarþingi (374. mál) og var til meðferðar í iðnaðarnefnd Alþingis en hlaut aldrei fullnaðarmeðferð og hefur ekki verið lagt fyrir Alþingi að nýju. Þess í stað flutti iðnaðarnefnd á 131. þingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, eins og frægt er orðið í sölum Alþingis. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins í iðnaðarnefnd tóku þátt í flutningi þess máls í þeim tilgangi að kostur gæfist á heildstæðari undirbúningi frumvarps til laga um jarðrænar auðlindir og boðaðs frumvarps sem byggt yrði á tilskipun Evrópusambandsins um aðgang að vatni sem gæti líka náð því að fá meðferð hjá Alþingi.

Fyrrnefnt frumvarp til laga um breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu náði ekki afgreiðslu á síðasta þingi en var endurflutt af iðnaðarráðherra á þessu þingi sem nú stendur og náði þá lokaafgreiðslu. Þegar ráðherra flutti málið á síðasta hausti hafði hún fellt út úr frumvarpinu bráðabirgðaákvæði um skipun nefndar til að móta reglur um framtíðarnýtingu auðlinda og meðferð umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi. Iðnaðarnefnd tók þá tillögu upp aftur og flutti auk þess breytingartillögur um þrengingu á heimildum ráðherra til að veita vilyrði fyrir nýtingarleyfum skv. 5 gr. laganna. Þetta mál, þ.e. breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, var afgreitt sem lög frá Alþingi á þessum vetri, eins og ég sagði áðan. En það er kannski ástæða til að gera því máli svolítið betur skil hér á eftir. Vegna þess að sá atbeini sem við lögðum til við meðferð þess máls var alltaf hugsaður sem möguleiki til að mynda svigrúm til að fjalla um þessi mál í heild og klára þá endurskoðun með myndarlegum hætti. En hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa svo sem ekki litið á það sem sáttarhönd með þeim hætti sem við vonuðumst til. Minni hlutinn vekur sérstaka athygli á því að þessi lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu eru einungis bráðabirgðalausn til mjög skamms tíma og að afar mikilvægt er að heildarmynd fáist á þá lagabálka sem eiga að koma í stað gildandi vatnalaga. Ekki verður mögulegt að ljúka umfjöllun um frumvarp um jarðrænar auðlindir fyrr en fyrir liggja tillögur þeirrar nefndar sem gert er ráð fyrir að fjalli um framtíð þjóðarauðlinda og meðferð þeirra ásamt því hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir rannsóknar- og nýtingarleyfum til orku- og auðlindanýtingar. Þá var einnig greint frá því í upphaflegum gögnum málsins að í umhverfisráðuneytinu hefðu verið gerð drög að frumvarpi til laga um vatnsvernd. Því frumvarpi er ætlað að koma til móts við tilskipun Evrópusambandsins um nýtingu og meðferð vatns og mun efni þess augljóslega koma í stað mikilvægra ákvæða vatnalaga frá 1923.

Þá er einnig rétt að geta þess að ýmis lög, t.d. á sviði umhverfisréttar, taka nú til mengunar vatna og einnig hafa verið sett sérlög, m.a. um vatnsveitur sveitarfélaga. Þróun lagasetningar á þessu sviði er því augljós. Þau mörgu og víðtæku ákvæði um vatn og rétt almennings og einstaklinga til að nýta það, sem fram að þessu hafa flest verið í hinum mikla lagabálki frá 1923 verða í framtíðinni í mörgum lagabálkum. Alþingi er sá mikli vandi á höndum að sjá til þess að þessi þróun geti orðið án þess að vandræði skapist. Það verður best tryggt með því að heildarendurskoðun vatnalaga fari saman við setningu allra þeirra laga sem eiga að taka við hlutverki þeirra. Um þetta ættu ekki að þurfa að vera deilur.

En ríkisstjórnarflokkarnir ætla sér ekki að standa þannig að málum. Alþingi er nú ætlað að ljúka umfjöllun um vatnalagafrumvarpið eitt og sér og fella vatnalögin frá 1923 úr gildi með samþykkt þess frumvarps sem hér liggur fyrir. Sú umfjöllun sem ég nefndi áðan er þar með slitin úr tengslum við aðra lagasetningu sem afnám vatnalaga frá 1923 kallar á. Það á við um áðurnefnt frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum sem ekki hefur komið fram á þessu þingi, eins og áður segir, og það á einnig við um boðað frumvarp á grunni vatnatilskipunar Evrópusambandsins. Síðan þarf að hafa í huga að lokaniðurstaða þessara mála fæst svo ekki fyrr en pólitísk sátt er fundin um það hvernig ráðstafa beri auðlindum í þjóðareign, hvort og hvernig þeim verði fundinn staður í stjórnarskránni og hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir nýtingu þeirra auðlinda.

Minni hlutinn telur þess vegna að Alþingi eigi að taka sér nauðsynlegan tíma til að skoða þessi mál í heild og að ekki eigi að fella hinn mikla bálk vatnalaga úr gildi fyrr en öruggt er að önnur lög geti tekið við hlutverki hans.

Þau vinnubrögð sem hér er ætlunin að viðhafa eru þess vegna fráleit að mati minni hlutans, þ.e. afnám vatnalaga og setning nýrra laga sem þó koma ekki að fullu í þeirra stað. Þessum sjónarmiðum hefur minni hlutinn komið á framfæri í nefndarstarfinu en meiri hlutinn hefur ekki viljað taka tillit til þeirra og ákveðið að taka málið til afgreiðslu án þess að önnur mál sem þetta frumvarp er óumdeilanlega hluti af fái nauðsynlega umfjöllun. Þá er einnig rétt að benda á viðamiklar umsagnir og tillögur um breytingar á lagatextanum frá ýmsum umsagnaraðilum sem bera með sér að hér er illa að málum staðið. Undirstofnanir umhverfisráðuneytisins, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun, höfðu fjölmargt við málið að athuga á síðasta þingi og lögðust gegn frumvarpinu. Forstöðumenn þessara stofnana hafa sagt á fundum nefndarinnar að þeir standi við þær umsagnir. Þetta sannar með öðru sem hér hefur verið á bent að málið hefur ekki hlotið næga umfjöllun í stjórnkerfinu eða hjá Alþingi.

Samband íslenskra sveitarfélaga lagðist gegn samþykkt frumvarpsins á síðasta þingi og nefndi fyrir því tvær aðalástæður. Hin fyrri sneri að skertum möguleikum sveitarfélaga til eignarnáms en til móts við þær athugasemdir hefur verið komið nú. Þá virðast ákvæði frumvarpsins skerða verulega rétt sveitarfélaga til að nálgast vatn í löndum annarra sveitarfélaga eða um þau. Meiri hlutinn hefur ákveðið að flytja breytingartillögu sem færir sveitarfélögum sambærilegan rétt til að nálgast vatn í öðrum sveitarfélögum og þau hafa innan síns lögsagnarumdæmis, sé á slíku nauðsyn, og ber að fagna þeirri breytingu. Síðara atriðið sem Samband íslenskra sveitarfélaga nefndi í umsögn sinni á síðasta þingi var að í ákvæði 1. tölul. 43. gr. frumvarpsins fælist fortakslaus skylda sveitarfélaga til að leggja fráveitur og í umsögn Kópavogsbæjar kom það sama fram. Ef þessi skilningur umsagnaraðila er réttur væru með þessu lagðar nýjar skyldur á herðar sveitarfélögum, t.d. í frístundabyggðum og á óskipulögðum svæðum.

Nú hefur verið komið til móts við þessar athugasemdir af hálfu meiri hlutans en hann þverskallaðist við þeim reyndar á síðasta þingi.

Sérstaka athygli vekur hið mikla hlutverk Orkustofnunar við framkvæmd og eftirlit sem spretta mun af þessari lagasmíð, í ljósi þess að einungis tvær greinar frumvarpsins fjalla um orkunýtingu. Ýmsir sem komu á fund nefndarinnar gerðu athugasemdir við stjórnsýsluþátt frumvarpsins af þessum ástæðum.

Þau atriði sem hér hafa verið tilgreind frá umsagnaraðilum eru einungis tekin sem dæmi um athugasemdir þeirra og tillögur um breytingar. Þeim athugasemdum og tillögum verða gerð nánari skil við framhald umræðu um málið.

Minni hlutinn telur að í þessari greinargerð hafi verið færð fram góð rök fyrir því að þetta mál eigi ekki að ná fram að ganga.

Minni hlutinn leggur til að málinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

Þar sem færð hafa verið gild rök fyrir því að:

a. með þeirri lagasetningu sem felst í frumvarpinu sé hróflað með óábyrgum og óvarlegum hætti við farsælli niðurstöðu Alþingis um nýtingarrétt á vatni frá 1923, sem fólst í setningu vatnalaga,

b. þessi lagasetning, og þar með afnám gildandi vatnalaga, sé ekki tímabær á meðan ekki liggja fyrir frumvarp um jarðrænar auðlindir og frumvarp á grundvelli vatnatilskipunar Evrópusambandsins, og

c. grundvöll skorti til allrar þessarar lagasetningar þar til pólitísk sátt er fundin um það hvernig ráðstafa beri auðlindum í þjóðareign, hvort og hvernig þeim verði fundinn staður í stjórnarskránni og hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir nýtingu þeirra, leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá.

Hlynur Hallsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Undir álitið skrifa hv. þingmenn Jóhann Ársælsson og Helgi Hjörvar.

Hæstv. forseti. Ég hef nú farið yfir þennan ritaða texta sem hér var dreift. Í honum var reyndar ákveðinn galli, eins og honum var dreift hér til að byrja með, sem kom upp vegna þess að sá sem hér stendur fékk ekki tækifæri að lesa yfir eftir að nefndasvið hafði fengist við málið. Nýju plaggi verður því dreift. Ég bið hv. þingmenn að taka tillit til þess þegar litið er á lokin á þeim texta sem var í greinargerðinni.

Við sem höfum setið í iðnaðarnefnd, bæði í fyrravetur og núna, erum búin að læra ýmislegt um aðdraganda þessa máls og ég tel mig vera farinn að skilja svolítið hvað er á ferðinni. Í upphafi átti ég dálítið erfitt með það. Mér fannst t.d. svolítið undarlegt að vera að hrófla við viðteknum venjum sem ekki höfðu valdið neinum sérstökum vandamálum og voru fólgnar í þeim skilgreiningum á vatni sem felast í vatnalögum frá 1923. Sú spurning hlýtur að vakna þegar ríkisstjórn kemst að þeirri niðurstöðu að það þurfi endilega að breyta skilgreiningu á máli eins og þessu, hvað búi þar að baki.

Mín niðurstaða er sú að að baki þessu búi hin undarlegu trúarbrögð sem eru fólgin í frjálshyggjuhugsjóninni. Það að menn skuli endilega vilja kalla vatnið eign landeigendanna er eiginlega dularfullt á margan hátt. Því þegar talað er um vatn sem eign er það mjög undarleg eign í þeim skilningi sem menn leggja í eignarrétt yfirleitt vegna þess að þessi eign, þ.e. vatnið, skiptir um eigendur án þess að nokkur viðskipti hafi farið fram. Gangi menn þessa götu áfram vaknar spurningin sem var lögð fram í nefndinni um það hvort þá þurfi ekki að skilgreina eignarhald á loftinu líka. Því loftið hefur að mörgu leyti svipaða eiginleika og vatnið. Það rennur fram hjá okkur yfir yfirborðið. Vatnið rennur líka yfir yfirborðið. Því skyldu menn ekki alveg eins hafa þá skoðun að loftið eigi að vera eign ef vatnið á að vera það? Það væri fínt að fá nánari útlistanir á því af hverju svo ætti ekki að vera. Verður þá vatnsdropinn sem í dag er undir þessari húseign og þar með eign Alþingis og almennings í landinu, eign Björgólfs í Landsbankanum á morgun vegna þess að vatnið hefur sytrað þar undir? Engin viðskipti hafa þó farið fram milli ríkisvaldsins og höfðingjans í Landsbankanum í þetta skiptið, þótt þau hafi stundum farið fram áður.

Þetta eru auðvitað heimspekilegar vangaveltur sem þarfnast útskýringa hér í sölum Alþingis, hvers vegna menn þurfa að standa í slíku þegar farsæl niðurstaða fékkst á sínum tíma árið 1923 eftir sex ára meðferð þessara mála í Alþingi Íslendinga. Hvers vegna standa menn í þessum sporum núna? Hvers vegna taka menn upp sömu orðræðuna og fór fram þá? Það kann vel að vera að síðar í máli mínu rifji ég upp eitthvað lítils háttar af því sem menn sögðu á þeim árum þegar vatnalagafrumvarpið var til umræðu.

Það er þess vegna algjör fölsun í raun og veru að halda því fram að niðurstaðan með vatnalögum 1923 hafi verið sú að eignarhald á vatni í þeim skilningi sem menn eru núna að reyna að útlista í þessu þingmáli hafi orðið niðurstaðan í reyndinni. Í raun var niðurstaðan sú að menn skilgreindu rétt manna til að nýta þessa auðlind, töldu nákvæmlega upp hvað væri innifalið í nýtingarrétti manna á vatni. Sú skilgreining reyndist alveg prýðilega og hefur gert það fram á þennan dag. Í nefndarstarfinu höfum við reynt að spyrja út í hvort slík breyting gæti haft einhver áhrif á dómaframkvæmd í framtíðinni. Þeir sem hafa verið til viðræðu við okkur í nefndinni hafa reyndar flestir verið mjög jákvæðir út í þá breytingu sem hér er á ferðinni. Þeir hafa haldið því fram að það hafi engin áhrif á dómaframkvæmdina að breyta þessari skilgreiningu. Ég hef fyrir mitt leyti fyllst meiri og meiri tortryggni hvað varðar þennan þátt málsins eftir því sem ég hef fylgst meira með og hlustað meira á þá sem hafa verið að mæla með þessu máli. Þegar svo var komið að aðalhöfundur frumvarpsins, eins og ég nefndi hér fyrr í máli mínu, hélt því fram að það væri stórhættulegt að breyta skilgreiningu sem væri í lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu til baka yfir í þá gömlu sem hafði verið, það væri bara formbreyting sem ætti sér stað ef menn gerðu það sem meiningin er að gera í þessu frumvarpi hér, þá varð ég enn meira tortrygginn en ég hafði verið fyrr.

Ég er þess vegna á þeirri skoðun að Alþingi eigi alls ekki að samþykkja þetta frumvarp. Þá er ég eingöngu að tala út frá þeirri skilgreiningu sem hér er um að ræða og þessari breytingu sem menn hafa ákveðið að leggja til að yrði, þ.e. að skilgreina eignarhaldið á vatninu upp á nýtt. Það er jú aðalmarkmið þessa frumvarps að gera það, það stendur í frumvarpinu. Markmið þessara laga er skýrt, eignarhald á vatni. Við eigum víst að taka mark á því númer eitt hér í Alþingi hvað stendur í 1. gr. frumvarpa. En ég er auðvitað líka á móti þessu frumvarpi vegna þess að við hér í sölum Alþingis höfum ekki heildaryfirsýn yfir þær breytingar á lögum sem í raun og veru tengjast órjúfanlega allri þessari endurskoðun á vatnalögum. Reyndar er þessi lagasetning gríðarlega víðtæk. Hún hefur komið fram að töluverðu leyti á undanförnum árum en það vantar enn upp á að hægt sé að ljúka henni. Í sjálfu sér ætti ekki að þurfa að deila mikið um að grundvallarlögin, vatnalög frá 1923, ætti náttúrlega ekki að fella úr gildi fyrr en um leið og menn væru búnir að klára þessa heildarendurskoðun, það væri ástæða til að gera þá kröfu. Mér finnst að hv. þingmenn stjórnarliða hljóti að verða við þeirri ósk að útskýra það nákvæmlega hér í sölum Alþingis hvað rekur svona á eftir því að þetta lagafrumvarp um vatnalög verði afgreitt frá Alþingi núna. Ég hef ekki heyrt nein sérstök rök fyrir því í raun og veru. Það er ekkert vandamál uppi sem hefur verið bent á í nefndarstarfinu sem gerir það aðkallandi að þetta frumvarp verði gert að lögum. Að minnsta kosti hefur það ekki komið fram svo ég muni og ég tel þess vegna ástæðu til að biðja um að hér verði farið yfir það nákvæmlega hvað það er sem rekur menn áfram í málinu með þeim hætti að það þurfi að klára málið núna.

Það hlýtur að vera ástæða til að velta fyrir sér hvers vegna þau frumvörp sem ég hef talað hér um eru ekki komin fram. Frumvarpið um jarðrænar auðlindir lá þó fyrir Alþingi á síðasta vetri. Því var ekki dreift á Alþingi aftur. Hæstv. iðnaðarráðherra ákvað greinilega að það mál skyldi liggja áfram. Það er því miður til vitnis um að ríkisstjórnin og hæstv. iðnaðarráðherra hafi ekki haft neinn sérstakan áhuga á að ljúka heildarumfjöllun um þau mál sem hér um ræðir. Það er fleira sem bendir til að svona sé. Það sem ég nefndi fyrr í máli mínu, að hæstv. iðnaðarráðherra flutti frumvarp til breytinga á lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu í haust, án þess að í því frumvarpi væri gert ráð fyrir að skipa nefndina sem lagt var til að yrði sett á laggirnar þegar iðnaðarnefnd flutti málið á fyrra þingi, er auðvitað athyglisvert í þessu samhengi og bendir til að hæstv. iðnaðarráðherra hafi ekki haft neinn óskaplega mikinn áhuga á að menn endurskoðuðu þessi lög í heildina og kæmust til ráðs við málin í heild, þannig að hægt væri að afnema vatnalög um leið og önnur lagasetning tæki við.

Því miður er margt sem bendir til þess að áhuginn sé lítill og ekki til staðar. Ekki má ég gleyma að nefna þennan undarlega krók sem kom á þetta litla frumvarp iðnaðarnefndar frá því á síðastliðnum vetri þegar hæstv. iðnaðarráðherra hafði flutt það aftur inn í þingið án tillögunnar um nefndina. Í kjölfar þess fjallaði nefndin um málið hér og þá kom í ljós að hæstv. iðnaðarráðherra hafði einhvern undarlegan skilning á málinu sem við höfðum ekki áttað okkur á á síðasta vori. Það gekk út á að hæstv. ráðherra gæti veitt vilyrði fyrir nýtingarleyfum alveg eins og honum dytti í hug skv. 5. gr. þessara laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þessi skilningur hæstv. ráðherra og það að nefndarmenn höfðu spurnir af því að fjölmargir aðilar hefðu skyndilega komið til iðnaðarráðuneytisins með umsóknir um nýtingarleyfi varð til þess að hér á Alþingi áttu menn mjög langar umræður um þetta mál. Þær stóðu alveg fram að jólahléi þingmanna. En þegar málinu var loksins frestað fyrir jól vissu menn svo sem ekki hvaðan á þá stóð veðrið en milli jóla og nýárs kom yfirlýsing frá hæstv. iðnaðarráðherra. Sú yfirlýsing var um að hæstv. iðnaðarráðherra hefði misskilið þetta allt saman. Hæstv. iðnaðarráðherra hélt því reyndar fram að starfsmenn ráðuneytisins hefðu eiginlega valdið þessum misskilningi. Rétt var að starfsmenn ráðuneytisins mættu á fund iðnaðarnefndarinnar og á þeim fundi, fleiri en einum reyndar, kom skýrt fram að þeir hefðu sama skilning á þessu máli og ráðherrann, þ.e. að ráðherrann gæti nýtt sér 5. gr. laganna um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu til þess að lofa mönnum nýtingarleyfi, virkjunarleyfi í raun og veru inni í framtíðinni, ef þeir sæktu um rannsóknarleyfi samkvæmt þessu frumvarpi.

Þessi umræða sannfærði mig um að Framsóknarflokkurinn með hæstv. ráðherra í broddi fylkingar hefur ekkert óskaplega mikinn áhuga á því að þessi mál nái niðurstöðu í heildina séð eins og við höfum hér verið að reyna að berjast fyrir heldur virðist eitthvað annað trufla hv. þingmenn og ráðherra Framsóknarflokksins og þeir virðast ekki hafa mikinn áhuga á því að ljúka heildarendurskoðun þessara mála. Við verðum þó alltaf að vona það besta og vona að menn sjái ljósið í því að vinna þessi verkefni með skynsamlegum og ábyrgum hætti í sölum Alþingis og þannig munum við auðvitað halda áfram að berjast fyrir skilningi okkar á þessum málum öllum.

Ég held að ástæða sé til þess að vekja athygli á ýmsum umsögnum sem hafa komið til nefndarinnar á undanförnum þingum tveimur. Um þær hefur nefndin fjallað svona töluvert og ýmsir aðilar hafa komið á fund nefndarinnar. Ég tel að það sé hollt fyrir hv. þingmenn stjórnarflokkanna að taka þátt í umræðu um þessi mál og ná góðri yfirferð um það í þeirri umræðu sem er núna fram undan. Ég vonast til þess að þeir muni taka virkan þátt í þeirri umræðu og leiða okkur frá villu okkar vegar ef þeim finnst við vera á villigötum í þeim skilgreiningum og þeirri afstöðu sem við höfum og umfram allt með það í huga auðvitað að við setjum hér sem skynsamlegust lög um þessi efni. Við teljum mjög mikilvægt eins og ég hef margsagt hér að þau lög verði heildstæð, að tekið verði tillit til allra sjónarmiða sem eiga erindi í umræðuna og að öll lagasetning um þetta efni verði gerð með heildaryfirsýn á þau lög sem eru í gildi og eiga að taka við af vatnalögum.

Ég ætla að byrja á að fara yfir umsögn Landverndar. Sú umsögn er frá því 28. nóvember 2005. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Vísað er í bréf Alþingis dagsett 17. nóvember 2005 þar sem lýst er eftir umsögn um frumvarp að vatnalögum. Stjórn Landverndar hefur kynnt sér frumvarpið og óskar að koma eftirfarandi atriðum á framfæri.

Það vekur athygli stjórnar Landverndar að frumvarpið beinist eingöngu að nýtingu vatns. Ekki er fjallað um varnir gegn mengun, hollustu, náttúruvernd, almannarétt og nýtingu lífrænna auðlinda sem allt eru allt afar mikilvæg atriði sem taka verður mið af við hvers konar nýtingu vatnsréttinda.

Í 1. gr. segir: Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að raska ekki vatni, farvegi þess, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er.

Stjórn Landverndar telur að þó þetta frumvarp beinist að nýtingu vatns en ekki verndun, verði að undirstrika mikilvægi verndunar með skýrari hætti en fram kemur í tillögunni. Stjórnin telur að þetta megi gera með því að tilgreina „að ekki megi spilla vatni að óþörfu“. Þá er einnig gagnlegt að skýra betur hugtakið „nauðsynlegt“ með því að vísa til „brýnna þarfa“ sem þurfi að vera fyrir hendi. Stjórnin leggur því til að 2. mgr. 1. gr. verðið orðuð þannig:“

Hér kemur tillaga Landverndar, með leyfi forseta:

„Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að spilla ekki né raska að óþörfu vatni, farvegi þess, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er til að mæta brýnum þörfum fyrir neysluvatn, iðnaðarvatn, áveitu eða orku.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Þetta er grundvallarbreyting frá núgildandi lögum þar sem segir að „landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni sem á henni er, á þann hátt sem lög þessi heimila“.

Stjórn Landverndar hefur lagt til við stjórnarskrárnefnd að hún geri tillögu að eftirfarandi ákvæði í stjórnarskrá Íslands:“

Svo kemur fyrirsögn, með leyfi forseta:

„Vistvæn nútíð — farsæl framtíð.“

Svo segir, með leyfi forseta:

„„Heilnæmt vatn og loft, náttúran og fjölbreytni hennar, landslag, annað umhverfi og aðgengi að náttúru eru gæði sem allir bera ábyrgð á að nýtt séu með sjálfbærum hætti. Jafnframt skulu borgarar landsins sýna aðgát þannig að náttúru landsins og auðlindum sé ekki spillt. Stjórnvöldum ber að leggja sig fram um að tryggja öllum rétt til heilnæms vatns, lofts og annars umhverfis og aðgengis að náttúru. Allir skulu hafa aðgengi að upplýsingum og ákvörðunum er varða þessa þætti.“

Stjórn Landverndar vill árétta það sem segir um vatn í sameiginlegri yfirlýsingu þjóðkirkjunnar og fjölmargra félagasamtaka, m.a. Landverndar:

„Vatn er takmörkuð auðlind og almannagæði sem er undirstaða alls lífs og heilbrigðis. Vatn er frábrugðið öðrum efnum að því leyti að það finnst náttúrulega í föstu-, fljótandi- og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn.““

Hæstv. forseti. Við höfum einmitt verið að ræða þessa hringrás vatnsins um heiminn svolítið í störfum nefndarinnar. Ég fór aðeins yfir það hérna áðan, þ.e. þessa undarlegu eiginleika vatnsins að vera aldrei á sama stað og hvernig í ósköpunum menn geta fundið það út að einhver eigandi sé að þessu vatni. Hv. þingmaður hlýtur að eiga vatnið sem hann hefur í glasi sínu. Enginn mun mótmæla því að hann megi eiga það. En hver skyldi nú eiga það þegar hann hefur skilað því frá sér?

Ég held að full ástæða sé til þess að menn velti því fyrir sér í alvöru út á hvers konar braut menn eru komnir ef þeir telja að eignarréttarhugtakið eigi að gilda um svona „eign“ sem í raun er engin leið að átta sig á hver er á hverjum tíma. Það er hægt að velta mörgu fyrir sér hvað þetta varðar. Við erum ekkert betur fær um að skilgreina eignarhald á vatni en þeir sem stóðu í þessu húsi árið 1923 eða í sex árin þar á undan og komust að þeirri niðurstöðu eftir alla umfjöllun þeirra um þetta mál að rétt væri að skilgreina vatnið þannig að það skyldi skilgreina nýtinguna sem eign en ekki vatnið sjálft. Það var niðurstaðan. Þó hv. formaður nefndarinnar komi hér í ræðustól hvað eftir annað til þess að reyna að halda öðru fram þá var það niðurstaða Alþingis 1923 að skilgreina ætti nýtingarréttinn á vatninu en menn skyldu ekki skilgreina vatnið sem eign.

Það lá alveg fyrir að hér skiptust menn í tvo hópa. Sumir héldu því fram að það ætti að skilgreina vatnið sem eign. Aðrir héldu því fram að það ætti ekki að gera og það varð niðurstaðan. Það er alveg sama þó að hv. þingmaður vitni hér miklu oftar í Karl Axelsson eða aðra lagaprófessora sem ég ber fulla virðingu fyrir. Það mun ekki breyta þeirri skoðun minni að þessi skilgreining á eignarhaldi á vatni sé fráleit og að full sé ástæða til þess að Alþingi vísi þessu máli frá eins og lagt er til og að menn taki nú til við þetta mál upp á nýtt, setji því nýjar forsendur, setji sér annað aðalmarkmið en skilgreiningu eignarhalds á vatni. Það gæti verið skýr nýtingarréttur á vatni. Þá gætu allir orðið sammála.

Það er í sjálfu sér algjör viðsnúningur, umsnúningur á því sem minni hlutinn hefur talað um í þessum málum, að halda því fram að við viljum taka einhver réttindi af mönnum sem þeir hafa fengið samkvæmt vatnalögum. Það er bara algjörlega fráleitt, enda er ekki minni hlutinn að leggja til breytingu á skilgreiningunni heldur meiri hlutinn. Ég bið um að menn snúi ekki rökunum öllum á haus í þessu máli heldur tali um málið eins og það er, eins og það liggur fyrir. Það liggur þannig fyrir að meiri hlutinn er að leggja til breytta skilgreiningu. Minni hlutinn vill að hún sé óbreytt. Meiri hlutinn getur þess vegna ekki haldið því fram að minni hlutinn vilji skerða réttindi manna. Það er algjörlega bara fráleitt. Mér finnst ekki boðlegt í umræðum í sölum Alþingis að sitja undir því. Mér finnst að hv. formaður nefndarinnar þurfi að vanda sig betur í þeim ræðum sem hann á eftir að halda hérna en hann gerði hér í upphafi með þeim útúrsnúningum sem hann hafði um þetta atriði málsins.

Síðan er ástæða til þess að þeir sem bera ábyrgð á ríkisstjórninni í þessu máli öllu saman útskýri hvers vegna í ósköpunum menn séu í sömu sporum enn þá gagnvart stöðu málsins um jarðrænar auðlindir og þeir voru á síðasta þingi þegar niðurstaðan var sú að láta það mál liggja. Hvernig stendur á því að hæstv. iðnaðarráðherra kemst upp með það á síðasta hausti að leggja fram frumvarpið sem ég nefndi áðan um breytingar á lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu án þess að gert væri ráð fyrir þeirri nefndarskipan sem iðnaðarnefnd lagði til á síðasta vori? Hvar var hv. formaður nefndarinnar þegar farið var yfir þetta frumvarp iðnaðarráðherrans í haust? Hvers vegna samþykkti formaður iðnaðarnefndar á þingflokksfundi Framsóknarflokksins að það mál skyldi lagt fram með þeim hætti sem hæstv. iðnaðarráðherra gerði? Ég held að það væri alveg ástæða til þess að hv. formaður nefndarinnar útskýrði það vegna þess að það var niðurstaða nefndarinnar að flytja þetta mál svona. En það kom inn með öðrum hætti í haust.

Þessi hluti ræðu minnar átti nú að fjalla um það líka að það er ekkert iðnaðarráðherra einn sem ber ábyrgð á þessum málum. Hv. formaður nefndarinnar bregst þarna í þessu atriði. Hann sér ekki til þess að niðurstaðan sem varð um að þessi nefnd yrði skipuð kæmi fram í frumvarpinu sem var flutt í haust. Hvernig stendur á því að þingmenn stjórnarflokkanna hafa ekki fylgt því eftir að það væri hægt að halda áfram endurskoðun á þessu máli, að hægt væri að vinna að því að frumvarpið um jarðrænar auðlindir gæti orðið að veruleika? Ég er ósammála þeim um skilgreininguna hér á vatni og því sem hér er á ferðinni. En ég er ekkert ósammála þeim um að það þurfi að endurskoða þessi lög. En hvers konar vinnubrögð eru þetta?

Á sama tíma situr hér nefnd um endurskoðun á stjórnarskránni þar sem verið er að vinna að því, vonandi og væntanlega, því að það er nú yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar og ég held allra þingflokka sem eiga þingmenn hér á Alþingi, að auðlindir í þjóðareign eigi að fara inn í stjórnarskrána. Auðvitað þarf þá á því að halda að sú vinna fari í gang sem ætlast er til að verði unnin til að hægt sé að velja þá sem fá að nýta auðlindir, með reglum sem styðjast við jafnræði en ekki handafl og að fyrir liggi hvers konar framtíðarstefnu menn samþykkja um nýtingu auðlinda í landinu. Allt á þetta að vera á könnu þeirrar nefndar sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur ekki enn skipað, en auðvitað hefði átt að tryggja að einhver slík nefnd hefði farið að vinna á síðasta vori. En hæstv. iðnaðarráðherra kaus að láta það vera, hann kaus að kippa þeirri tillögu út úr frumvarpinu sem iðnaðarnefnd flutti og hv. formaður nefndarinnar gerði enga athugasemd við á þingflokksfundi Framsóknarflokksins, eða hvað? Hv. þingmaður útskýrir það sjálfsagt fyrir okkur hér á eftir hvernig á þessu stóð.

Þetta er auðvitað allt til marks um hversu lítill áhugi manna á því að vinna heildstætt að þessum málum er, þ.e. að taka á málinu inni í stjórnarskrárnefnd, klára tillögurnar um hvernig eigi að umgangast auðlindir sem varða eignarhald og nýtingu á þeim, klára lagasetninguna um vatn, um vatnsvernd og þessi margræddu lög um jarðrænar auðlindir. Allt hefði þetta þurft að haldast í hendur og það er ekki séð fyrir endann á þessu máli enn þá, það er svo langt frá því, vegna þess að við stöndum í raun í sömu sporum og við gerðum hér fyrir ári síðan á Alþingi. Þá vorum við hér í þessum sal í 2. umr. um vatnalög og munurinn á þeim vatnalögum sem við erum að fjalla um núna og þeim sem við vorum að fjalla um í fyrra er ekki mjög mikill. Hv. þingmaður, formaður nefndarinnar, gerði grein fyrir þeim hér áðan og hefur fallist á að koma til móts við tvö, þrjú atriði sem menn voru með athugasemdir um í fyrra. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim atriðum en munurinn á því sem Alþingi er að gera núna og var að gerast fyrir ári síðan er enginn. Við stöndum hér í sömu sporum. Það er vegna þess að menn hafa ekki staðið sig í stjórnarflokkunum því að það eru þeir sem stjórna hér verklaginu. Við höfum viljað vinna að þessu frumvarpi, hv. þingmaður hefur stjórnað vinnunni í nefndinni og ég kvarta ekkert undan því, það er svo sem búið að halda fundi og allt það. En það hefur ekki verið komið til móts við aðalhugmyndir okkar, þ.e. að hægt væri að fjalla um þessi mál í heilu lagi og að menn stefndu að heildarniðurstöðum. Þess vegna stöndum við í sömu sporum.

Ég held að í raun og veru eigi menn að horfast í augu við það að við erum í sömu sporum. Það er best gert með því að stöðva þetta mál núna, reyna að sjá til þess að niðurstöður nefndarinnar sem hæstv. iðnaðarráðherra skipar vonandi sem allra fyrst verði tilbúnar fyrir næsta haust og menn geti fjallað um þær á næsta þingvetri og að þá verði líka til, og það ætla ég sannarlega að vona, niðurstöður um tillögur frá nefndinni sem er að fjalla um endurskoðun á stjórnarskránni þannig að menn geti skoðað þetta allt saman í samhengi. Þetta er það sem okkur vantar, að Alþingi geti á næsta vetri fjallað um vatnalög, um lögin um jarðrænar auðlindir, um lögin um vatnsvernd og um nýtt frumvarp um breytingu á stjórnarskránni. Allt þetta þarf að vera í höndum þingmanna til þess að menn geti gert sér grein fyrir því hvort þeir eru á réttri leið hvað varðar þessi gríðarlega mikilvægu mál sem við erum að tala hér um, sem er nýting auðlinda landsins til framtíðar. Á því berum við ábyrgð, hv. þingmenn, að í framtíðinni geti fólk hér í landi nýtt þessar auðlindir, að þeim verði ekki glutrað úr höndum þjóðarinnar, að þjóðarauðlindir og meðferð þeirra sé með ábyrgum hætti hvað varðar náttúruna, meðferð þeirra sé líka með ábyrgum hætti hvað varðar viðskipti og eðlilegast jafnræði til þess að nýta auðlindir, að meðferð þeirra sé með skynsamlegum, eðlilegum hætti eftir þeim leikreglum sem viðgangast almennt og eru viðurkenndar sem slíkar bæði í viðskiptum og meðferð réttinda almennings í landinu. Þetta er ekki hægt að gera öðruvísi en horfa yfir þetta heildstætt og vita hvert er verið að fara. Hæstv. iðnaðarráðherra mun sjálfsagt standa í þeim sporum á þessu ári að þurfa að svara því hvort hann eygi möguleika á að gefa mönnum einhvers konar starfsleyfi, (Gripið fram í.) rannsóknarleyfi.

Það er auðvitað umhugsunarefni hvort við höfum sama iðnaðarráðherra í haust og þann sem við höfum haft á undanförnum árum. Við sjáum að áhöfn skútunnar hjá framsókn breytist þessa dagana og hv. félagsmálaráðherra hefur ákveðið að fara til annarra starfa. Auðvitað vitum við svo sem ekkert hér í sölum Alþingis, eða a.m.k. ekki ég, hvort meiri breytingar eru fram undan hvað þetta varðar. En a.m.k. er full ástæða til þess að framsóknarmenn, sem bera ábyrgð á þessum málaflokki, hugsi svolítið sinn gang. Það er eiginlega ástæða til þess að velta því fyrir sér út frá fjölmörgum þáttum sem hafa verið uppi á borðinu undanfarin ár.

Það er t.d. þannig að hæstv. iðnaðarráðherra hefur lýst því yfir að í raun og veru sé engin þörf á að fara eftir Kyoto-bókuninni öðruvísi en með einhverjum nýjum reikningskúnstum. Það er allt í einu orðin niðurstaðan að menn eigi að reikna út meðaltal mengunarkvóta eins og hann var undirskrifaður í Kyoto-samkomulaginu og að meðaltal skuli reiknast yfir allt tímabilið. Þetta er í raun og veru niðurstaða sem segir okkur að Íslendingar geti tekið ákvarðanir um að byggja upp stóriðju í landinu sem fari langt fram yfir þau mörk sem eru í þessum loftslagssamningi eða geri það á síðustu árum samningsins og geti kært sig gjörsamlega kollótta um hvort það verði möguleiki að skrifa undir slíkan samning aftur eftir að samningstímabilinu lýkur árið 2012.

Ég er algjörlega ósammála þessu og tel að það sé full ástæða til að menn ræði það líka í þessu samhengi einfaldlega vegna þess að vatnalögin, lögin um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum og frumvarpið um jarðrænar auðlindar, sem ég hef verið að lýsa hér og reyna að rökstyðja og tel mig hafa gert það með fullnægjandi hætti, dregið öll saman, þau fjalla um auðlindanýtingu í landinu. Þau fjalla um auðlindir af ýmsum toga, öllum toga, og hvernig við förum með þær, hvernig stjórnvöld í landinu skapa reglur um meðferð og nýtingu þeirra. Það er þess vegna sem við getum og okkur ber skylda til að ræða þessi mál öll í samhengi.

Sú umræða sem hefur verið hér í gangi undanfarna daga er þessi skrýtni skilningur sem er allt í einu kominn upp hjá stjórnvöldum um að það þurfi bara ekkert að taka mark á Kyoto-bókuninni. Menn geti bara reiknað þetta að meðaltali vegna þess að það standi í bókuninni að þetta sé meðaltal. En það fer alveg eftir því hvaða gleraugu maður notar. Ef maður notar gleraugu sem segja að meðaltal á ári þýði bara meðaltal á ári, þá þýðir það innan árs. Ég held að þannig höfum við flest skilið þetta áður en nýi skilningurinn kom en með honum reiknast meðaltalið yfir allt tímabilið. Já, það er líka alveg hægt að skilja það svoleiðis ef við horfum bara á orðanna hljóðan. Ég get alveg fallist á að það sé hægt að skilja það svoleiðis. En þá skilur maður ekki framhaldið. Það er nefnilega ekki hægt að skilja framhaldið með þeim hætti.

Það var þess vegna sem ég var að reyna að spyrja hæstv. umhverfisráðherra í dag hvernig hún skildi framhaldið. Hún vildi ekki segja okkur hvernig hún skildi framhaldið, taldi að við værum að tala um eitthvað sem enginn vissi hvað yrði. (Gripið fram í: Iðnaðarráðherra veit hvernig þetta á að vera.) Iðnaðarráðherra veit alveg nákvæmlega hvernig á að skilja framhaldið. Iðnaðarráðherra segir okkur nefnilega, eða þannig hef ég a.m.k. skilið hæstv. iðnaðarráðherra, að hún telji þetta vera sjálfsagt mál. Það er búið að setja af stað viðræður um stækkun í Straumsvík og þegar niðurstaðan er fengin um það mál þá verður kvótinn búinn, þ.e. sá kvóti sem væri til staðar ef við notuðum eldri skilgreininguna á málinu. Þá er í raun og veru hægt að nota bara nýju skilgreininguna og segja: Ja, það er nógur kvóti ef við bara reiknum þetta að meðaltali fyrir allt tímabilið. Þá getur álverið á Bakka líka farið af stað því það er til nógur kvóti á tímabilinu sjálfu. Svo er bara eitthvert nýtt tímabil og við vitum ekkert hvað verður þá.

Niðurstaðan er sem sagt sú að við Íslendingar berum enga ábyrgð á framhaldinu, okkur beri ekki að taka neina afstöðu til framhaldsins né að við þurfum að gera okkur klára í að vera tilbúnir til að taka þátt í einhverju samstarfi sem fælist t.d. í því að Íslendingar bættu ekki við mengun hjá sér frá því sem gert er ráð fyrir í þeirri bókun sem nú er í gildi. En ég held að flestum sanngjörnum mönnum fyndist eðlilegt að skilja þetta þannig að við þyrftum að gera ráð fyrir því að í versta falli gætum við þurft að skrifa undir bókunina óbreytta.

Ef við gefum okkur það að menn vilji nota þennan skilning þá þarf að velta því svolítið fyrir sér hvers vegna menn leggja þessa lykkju á leið sína til þess að koma slíkum skilningi á framfæri. Það segi ég vegna þess að mér sýnist ekki líklegt miðað við framkvæmdahugmyndir sem nú eru uppi að menn fari fram úr árs framleiðslunni fram til ársins 2012. Hvers vegna er þá nýr skilningur kominn upp? Líklega vegna þess að þeir sem vilja skapa þessum nýja skilningi gott andrúmsloft í landinu virðast vera að búa til þann möguleika að Íslendingar taki ákvarðanir sem verða til þess að mengunin frá landinu verði meiri en núverandi samkomulag gerir ráð fyrir, þ.e. eftir árið 2012, vegna þess að þeir séu hræddir um að það verði einhverjir sem haldi því fram að þeir megi ekki taka svona ákvarðanir sem valdi því að framleiðslugetan fari fram úr 1,6 milljónum tonna á ári í mengun.

Er þetta þá ábyrg afstaða? Það held ég ekki. Ég held að menn verði að horfast í augu við það að Íslendingar sem þátttakendur í alþjóðasamstarfi af þessu tagi eru í raun að fara leið sem mundi eyðileggja alla möguleika á áframhaldandi samstarfi þeirra sem taka þátt í Kyoto-samkomulaginu. Því að ef menn höguðu sér almennt á þennan hátt í þeim hópi sem hefur tekið þátt í samkomulaginu væri engin von til þess að hægt yrði að skrifa undir nýtt samkomulag, það er alveg ljóst. Ef allir sem tóku þátt í samkomulaginu litu þannig á að þeir hefðu bara gert samkomulag til 2012 og gera þyrfti algjörlega nýtt samkomulag eftir 2012 sem menn þyrftu ekkert að miða við það samkomulag sem gert var til ársins 2012, þá væru menn komnir algjörlega á byrjunarreit og ekki líklegt að neitt samkomulag náist um framtíð loftslagssamninga í þessum heimi ef það yrði niðurstaðan að þjóðirnar litu þannig á að ekkert mark ætti að taka á gamla samkomulaginu. Það væri bara búið 2012 og þá byrjuðu menn upp á nýtt með einhvern allt annan grunn, Íslendingar með miklu hærra en 1,6 millj. tonn. (Gripið fram í: Það væri Framsóknarflokkurinn.) Það er framsóknarhugsunin í málinu.

Þetta er svo óábyrg hugsun að það er alveg með endemum að menn skuli láta sér detta þetta í hug. Og til hvers? Vita menn hvað langt er til 2012, hafa menn velt því fyrir sér? Samkvæmt útreikningi mínum, ég hef ekki fjármálaráðherra hérna til að bera þann reikning undir hann, en samkvæmt mínum reikningi eru sex ár til 2012. Er ekki fangið fullt bæði hjá iðnaðarráðherra og öllum öðrum í landinu fram að þeim tíma? Þurfa menn að fara að ráðstafa loftslagsheimildum fram yfir 1,6 millj. tonn á því tímabili sem er fram undan þangað til samningurinn rennur út? Ég sé ekki fyrir mér að þörf sé á því. (Gripið fram í: Hvað viltu gera?) Það eru sex ár fram undan og fyrir liggur að ríkisstjórnin er búin að sleppa af stað stækkun í Straumsvík, niðurstaðan af henni kemur um næstu áramót. Þegar hún liggur fyrir er búið að fylla þetta samkomulag. Það verður þá nóg að gera í byggingu álvera út það tímabil sem þarna er um að ræða.

Þetta eru auðvitað harðir kostir fyrir þá sem vilja byggja á Bakka. Samt er það þannig að Íslendingar gætu verið innan þessa samkomulags þó að líka yrði byggt á Bakka, en þá þyrftu menn að gera ráð fyrir því að fluttar yrðu inn heimildir fram yfir þær losunarheimildir sem eru í samkomulaginu, þ.e. að menn keyptu þá kvóta til þess að nýta sér.

Mjög athyglisvert var að þegar hæstv. iðnaðarráðherra skrifaði undir samkomulagið vestan hafs kom hvergi fram að Alcoa fyrirtækið ætti að bera ábyrgð á því að skaffa losunarheimildir ef á þyrfti að halda, það kom hvergi fram. Ég tel ástæðu til að hafa áhyggjur af því að það fyrirtæki, Alcoa, líti þannig á að þátttaka ríkisins í undirbúningi þessa máls og undirskriftina um samstarfið geti hugsanlega haft í för með sér að þeir líti þannig á að íslenska ríkisstjórnin beri ábyrgð á að skaffa þeim þær mengunarheimildir. Það er a.m.k. enginn fyrirvari og hefur hvergi komið fram að neinn fyrirvari hafi verið gerður um þessar loftslagsheimildir sem þarna þyrfti þá til viðbótar ef niðurstaðan yrði sú að stækkað yrði í Straumsvík því að með því yrði kvótinn búinn. Þetta er auðvitað eitthvað sem mér fyndist að væri full ástæða til að stjórnvöld settu mjög skýrt fram í sölum Alþingis, að menn fengju að vita hvert menn ætla sér með þetta. Er það niðurstaðan að landið sé bara galopið?

Hæstv. umhverfisráðherra sem svaraði fyrirspurn frá mér í dag kom sér undan að svara þeirri spurningu. Lögin um mat á umhverfisáhrifum eru þannig úr garði gerð að hæstv. umhverfisráðherra, hver sem hann nú verður, verður að gefa starfsleyfi ef öll skilyrði eru uppfyllt. Þess vegna væri alveg sama þó að menn mundu klára þennan samning fyrir norðan um Bakka, fluttar yrðu inn losunarheimildir til að nota vegna útblásturs þaðan og menn kæmu svo í kjölfarið með álver í Helguvík, umhverfisráðherra yrði líka að skrifa undir það ef losunarheimildir væru þar til staðar. Það er alveg sama hversu mörg slík fyrirtæki eru sett upp á Íslandi miðað við óbreytt lög, ef innflutningur á losunarheimildum verður til staðar þarf hæstv. umhverfisráðherra að veita starfsleyfi fyrir slíkum fyrirtækjum.

Þetta er að mínu viti algjörlega óviðunandi staða í þessum málum og að engin stefna skuli vera uppi í þessu máli frá hendi ríkisstjórnarinnar um hversu langt megi ganga er með miklum ólíkindum. Ég held ekki að neinn Íslendingur geti hugsað sér það að hingað snjói endalaust nýjum iðnaðarfyrirtækjum. Þó svo að margir hafi samúð með stóriðju í landinu held ég að enginn Íslendingur vilji ganga svo langt að það fari í sama farveg og þegar skuttogararnir voru fluttir til landsins, að eitt álver komi á hvern þann stað þar sem hægt er að afla orku á Íslandi.

Nú er það þannig að einkaaðilar og sjálfstæð fyrirtæki á Íslandi geta rannsakað orkumöguleika og gert samninga um að skaffa þá orku til fyrirtækja eins og þessara án þess að nokkurt ráð sé fyrir því gert að það verði stöðvað. Ég tel að full ástæða sé til að menn gefi þessari stöðu gaum og auðvitað þarf að vera hægt að kalla í fullri alvöru eftir stefnumörkun frá ríkisstjórn. Hvernig stendur á því að ekki er hægt að fá svör þegar spurt er um slíkt? Hvaða virðingu ber eiginlega stjórnarliðið fyrir fólkinu í landinu þegar verið er að spyrja spurninga um stefnumörkun? Ég get alveg sætt mig við að menn segist vilja gera eitthvað sem ég er á móti. En ég get ekki sætt mig við það að ríkisstjórn og stjórnmálamenn í landinu séu alltaf í felum með vilja sinn, hvað þeir ætla sér. Það er pólitík sem á ekki að vera hægt að bjóða upp á. Kannski er það hluti af vanda Framsóknarflokksins, þessi sífelldi reykur í kringum flokkinn, að hylja sig í reyk eins og þótti gott hérna áður fyrr þegar menn börðust á hafinu á skútum úr tré, þá var fínt að hylja sig í reyk til að andstæðingurinn hitti ekki því að kúlurnar voru oft á þrotum og það var ekki allt of mikið til um borð af skotfærunum. (Gripið fram í: Farðu nú nánar út í þetta.) Þess vegna tala menn um að hylja sig í reyk, það er komið frá þessu, komið úr bardagamáli á hafinu. Margar af skútunum sukku, sumar strönduðu. Mér finnst einhvern veginn eins og Framsóknarflokkurinn sé farinn að nálgast ískyggilega brotsjóina, skerin og landið. Því er nauðsynlegt fyrir menn þar um borð að velta því svolítið fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að breyta um stefnu, hætta að hylja sig í reyk og segja skýrt og satt hvert menn ætla. (Gripið fram í: Framsóknarskútan …) Það er ástæða til að menn velti því fyrir sér.

Það er ekki eins og við séum að tala um einhver smámál. Við erum að tala um framtíðarauðlindanýtingu. Við erum tala um endurskoðun á stjórnarskránni, við erum að tala um endurskoðun á öllum lögum á því sviði sem við fjöllum um sem vatnalögin voru stærsti hlutinn af hér áður, sem er núna að verða í mörgum hlutum, í mörgum lögum. Allt snýst þetta um gríðarlega mikilvæg réttindi, auðlindir sem fólkið í landinu á að nýta í framtíðinni og reglurnar um hvernig það verði gert. Auðvitað er ýmislegt óþægilegt, það er margt óþægilegt í lestinni á þessari skútu. Til dæmis hvernig farið hefur verið með þjóðarauðlindina í hafinu. Það þarf að taka afstöðu til þess líka. Menn komast ekki fram hjá því þegar talað er um að setja þjóðarauðlindir inn í stjórnarskrána, þá er stærsta þjóðarauðlindin þar með, þ.e. auðlindin í hafinu.

Það er einmitt frjálshyggjuskoðunin, eignarhaldsskoðunin á fiskinum í sjónum sem er okkar stærsta vandamál og hefur verið aðalvandamálið í umfjölluninni um fiskveiðistjórnina og sjávarútveginn í gegnum tíðina á undanförnum árum. Sá vandi hefur fyrst og fremst stafað af því gríðarlega ósamkomulagi um eignarhald á fiskstofnunum á Íslandi. Í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða stendur eins og allir vita að fiskstofnarnir séu sameign þjóðarinnar. En ríkisstjórnin sem situr hefur undir forustu Sjálfstæðisflokksins allan tímann haldið áfram að reyna að einkavæða, gjörsamlega einkavæða hvern einasta titt sem syndir í kringum landið. Ef þeir hafa fundið munaðarlausan fisktitt hafa þeir reynt að koma eignarhaldinu á hann. Ekkert má vera án eignarhalds að þeirra mati.

Framsóknarflokkurinn, (ÖS: Sá góði flokkur.) hefur bara trillað með. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað þessum málum allan tímann sem Framsóknarflokkurinn hefur setið við stjórnvölinn (Gripið fram í.) og þeir hafa látið þetta gott heita. Eini maðurinn sem hefur talað öðruvísi er hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson (GAK: Og er skammaður fyrir.) og hann virðist ekki vera vinsælastur manna innan flokksins. (Gripið fram í: Þú ert góður.) Ég hef að vísu ekki séð neina vinsældakosningu innan þingflokksins en hún fór fram ekki á síðasta hausti heldur þar áður. Þá fór hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson svolítið illa út úr þeirri vinsældakosningu, fékk ekki neina nefnd og var settur út í kuldann. Svo var hann nú endurreistur og fékk einhverjar nefndir á síðasta hausti en samt sem áður virðist hann ekki vera mjög kátur með sinn flokk og hann hefur haft svolítið aðrar skoðanir á sjávarútvegsmálum en flokkurinn hefur haft.

Það er reyndar þannig að skoðanakannanir segja okkur að Framsóknarflokkurinn sé gjörsamlega í tvennu lagi. 50% af flokknum eru algjörlega andvíg því fyrirkomulagi sem er á kvótakerfinu, eignarhaldsfyrirkomulaginu þar, og langstærsti meiri hluti Sjálfstæðisflokksins er líka á móti því. Allir flokkar eru með stóran meiri hluta á móti þessu eignarhaldsfyrirkomulagi, allir nema Framsóknarflokkurinn, þar er helmingurinn á móti. Það er greinilegt að erfitt er að standa yfir þeirri línu í þeim flokki.

Ég er á þeirri skoðun að í þessari umræðu sé ástæða til að ræða þessi mál vítt og breitt, eins og hv. þingmenn heyra, enda eru þau þess eðlis að þau snerta svo gríðarlega margt. Ég kom að því áðan að hæstv. iðnaðarráðherra hefur núna t.d. það hlutverk að úthluta rannsóknarleyfum og nýtingarleyfum hvað varðar hitaveitur. Okkur tókst að ná samkomulagi við meiri hlutann í vetur þegar fjallað var um þetta fræga frumvarp sem ég nefndi áðan, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, þar sem niðurstaðan varð sú að þrengja þessa möguleika hæstv. ráðherra til að úthluta leyfum. Það var gert og nú hefur hæstv. ráðherra ekki möguleika á því að úthluta nýtingarleyfum með rannsóknarleyfunum nema þegar um er að ræða hitaveitur, annars er þetta slitið í sundur.

Það var ástæða fyrir því að Samfylkingin og stjórnarandstaðan tóku upp baráttu fyrir því að ná þessu fram til að hæstv. ráðherra hefði ekki frjálsar hendur í þessu, því að hæstv. ráðherra taldi sig sannarlega hafa það. Það kom mjög skýrt fram í umræðunni um þetta tiltekna mál í haust. Það hafa nefnilega komið fram fyrirtæki, eftir breytingar á lögum á raforkusviði, eftir þetta frelsi og samkeppnisumhverfi sem menn vilja kalla það á raforkusviðinu, sem óska eftir að taka þátt í einhvers konar samkeppni á þessu sviði. Menn eru farnir að leita eftir heimildum til að rannsaka hin ýmsu svæði, bæði ár og hitaorku sem gæti verið vænlegt að virkja fyrir ný álver eða í einhverjum öðrum tilgangi. Í iðnaðarráðuneytinu liggja núna fyrir umsóknir um rannsóknar- og nýtingarleyfi og virkjunarleyfi sem talin eru vera í vinnslu þar. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef sóttist Landsvirkjun t.d. eftir að rannsaka vatnasvið Skjálfandafljóts. Því var reyndar hafnað en hæstv. ráðherra taldi sig þá skorta lagaheimild. Nú telur hún sig sennilega ekki skorta þá lagaheimild lengur og þá er þetta mál að öllum líkindum aftur uppi á borðinu.

Vatnasvið Tunguár ofan Sigöldu, vatnasvið Þjórsár neðan við Búrfell, vatnasvið í efri hluta Skaftár, vatnasvið í vestari og austari Jökulsá í Skagafirði eru öll kunnugleg svæði. Landsvirkjun sækir um að skoða vatnasviðið á þessum fimm svæðum. En Landsvirkjun óskar líka eftir því að fá leitar- og rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum og leitar- og rannsóknarleyfi í Gjástykki og nágrenni þess. Landsvirkjun er þarna með sjö umsóknir til virkjunar í landinu eða í þeim tilgangi að leita að möguleikum til virkjunar.

Hitaveita Suðurnesja er með umsókn um rannsóknarleyfi á jarðhita á Reykjanesskaganum og ekki veitir henni af ef hún ætlar að skaffa raforku til þess að fóðra álver í Helguvík. Það liggur fyrir að menn hafa gert samkomulag um að leita þar leiða til að byggja álver. Hitaveita Suðurnesja hefur skrifað undir samkomulag um að skoða þessa möguleika til að skaffa raforku fyrir verksmiðju í Helguvík.

Orkuveita Reykjavíkur lætur ekki sitt eftir liggja. Hún hefur sótt eftir því að skoða háhitasvæðin í Reykjadölum og í Rangárþingi ytra og háhitasvæðið í Kerlingarfjöllum. Menn eru víst hættir að fara þangað á skíði, það hefur hlýnað svo í veðri, mikill hiti er í fjöllunum þarna og heitt í veðri líka þannig að skíðasvæði er þar ekki lengur til staðar. Því finnst þeim hjá Orkuveitunni náttúrlega alveg upplagt að fara þangað og virkja þetta allt saman og ná sér í góða orku til að fóðra einhvern nýjan stóriðnað í landinu. Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja hafa sameiginlega óskað eftir rannsóknarleyfi á háhitasvæðinu í Brennisteinsfjöllum og Rarik hefur síðan óskað eftir að fá að skoða vatnasviðið í Hólmsá í Skaftárhreppi.

Fyrirtæki sem heitir Héraðsvötn hf. vill skoða vatnasviðið í austari og vestari Jökulsá í Skagafirði. Ég er ekki alveg viss um hverjir eiga þetta fyrirtæki en kannski gæti einhver upplýst það í umræðunni á eftir. (Gripið fram í: Meðal annars Rarik.) Það er rétt, ég veit að Rarik á hluta í þessu fyrirtæki en þetta eru auðvitað atriði sem sjálfsagt er að skoða. Ég bið menn að taka mín orð ekki þannig að ég sé á móti því að þetta sé skoðað. Ég er fyrst og fremst að gera grein fyrir því að það eru gríðarlega margir möguleikar uppi hjá fyrirtækjum í landinu hvað varðar rannsóknir á orkunýtingarmöguleikum. Þess vegna er ástæða til að alþingismenn horfi vel til þessara hluta og fari vel yfir hvaða reglur eiga að gilda hér á landi um það hvernig nálgast eigi rannsóknar- og nýtingarleyfi, að það verði ekki bara til hugmyndir sisvona um það hvernig fara eigi með slík mál. Finna þarf skynsamlega pólitíska niðurstöðu þar sem jafnræðis er gætt og þar sem tekið er tillit til þeirra sem eiga að hafa nýtinguna með höndum, tekið er tillit til neytendanna í landinu og til þjóðarinnar í þeim tilfellum sem hún á viðkomandi orkulindir. Allt þarf þetta að vegast og metast í ljósi þess hvaða reglur er eðlilegt að setja um samkeppni og jafnræði til að taka þátt í henni hér í landi.

Þeistareykir ehf. og virkjanir í Skjálfandafljóti, því hefur verið hafnað. Ekki veit ég af hvaða ástæðum, það kemur ekki fram í þeim gögnum sem ég hef. Sunnlensk orka hefur endurnýjað rannsóknarleyfi eða vill fá endurnýjun á rannsóknarleyfi í og við Grændal. Mér skilst að Grændalur sé mjög fallegur dalur þar sem menn vilja skoða möguleika á að nýta jarðhita í. Mörg af þessum svæðum hafa ekki verið grunnskoðuð, ekki fengið grunnskoðun frá hendi t.d. Náttúrufræðistofnunar sem á að kortleggja, skoða og gera grunnrannsóknir á þeim svæðum sem hér er um að ræða. Það er alveg óhætt að segja að þar hafa stjórnvöld staðið sig illa og hv. þingmenn stjórnarflokkanna ættu að taka eftir því að þegar komið er út í samkeppnina sem verið er að tala um að koma hér á þá er afar nauðsynlegt að stjórnvöld standi í lappirnar og standi sig. (Gripið fram í: Eru það ekki einhverjir smápeningar?) Það er í raun og veru um smápeninga að ræða hvað varðar grunnrannsóknirnar. (Gripið fram í.) Það hefur margoft komið fram að Náttúrufræðistofnun hefur sett fram tillögur og hugmyndir um það hvernig megi ljúka þessum grunnrannsóknum á fáum árum. Hún treystir sér til að klára þessar rannsóknir á kannski fjórum árum ef til þess fást nægilegir peningar. En miðað við þá fjármuni sem Alþingi hefur skammtað þessari stofnun til þess að gera þessa hluti þá tekur tólf ár að ljúka þeim nauðsynlegustu rannsóknum sem þarna er verið að tala um. Auðvitað er það ekki boðlegt þegar ekki er um að ræða meiri fjármuni í heildina en sem svarar 64—65 milljónum. Ég endurtek, hæstv. forseti, talið er að það kosti 64–65 milljónir að ljúka þeim rannsóknum sem ég nefndi, þessum grunnrannsóknum sem þurfa að vera til staðar til að hæstv. iðnaðarráðherra, sem hefur það hlutverk núna að úthluta þessum rannsóknarleyfum, geti í raun og veru byggt á einhverjum grunnrannsóknum þegar tekin verður afstaða til þess hvort láta eigi menn hafa svona leyfi til rannsókna.

Þá kem ég að því sem margoft kom fram í starfi nefndarinnar að þeir sem komu fyrir nefndina fyrir hönd fyrirtækjanna sem eru í bransanum eins og sagt er, orkufyrirtækjanna í landinu, gerðu ítrekað athugasemdir við það að hæstv. iðnaðarráðherra væri að véla um það hvort þeir fengju rannsóknarleyfi á þessu eða hinu svæðinu, að sá sami hæstv. iðnaðarráðherra sem er yfirmaður Rarik, er yfirmaður Orkubús Vestfjarða og yfirmaður Landsvirkjunar væri ekki mjög trúverðugur í því hlutverki að velja á milli Landsvirkjunar og Orkubús Vestfjarða og/eða Rariks og annarra fyrirtækja úti á hinum frjálsa raforkumarkaði þegar sóst væri eftir leyfum til að skoða möguleikana á því að nýta orkulindir. Það er alveg rétt. Auðvitað er þetta ekki viðunandi og auðvitað vita þingmenn stjórnarflokkanna það og hafa vitað lengi að þetta gengur ekki. En af hverju er ekki tekið á málinu? Hvers vegna er þetta haft svona áfram? Það getur víst enginn svarað því.

Þetta er bara dæmi um það hvernig menn forsóma skyldur sínar þó að þeir komi auga á þær og skilji þær. Auðvitað skilja menn að þetta á ekki að vera svona. Iðnaðarráðherra á ekki að vera margfaldur í sínu hlutverki. Hæstv. iðnaðarráðherra stendur í alls konar bardögum hér við að koma á t.d. stóriðju í landinu. Hún hefur haft sérstakan áhuga á því að koma á stóriðju á Norðurlandi og allt í lagi með það, hún er þingmaður á því svæði og hefur skyldur við það, en hún er líka iðnaðarráðherra og hún er iðnaðarráðherra alls landsins. Það er alveg auðséð að þessi hæstv. iðnaðarráðherra getur komist í alls konar vandræði þegar hún þarf að gera upp hug sinn gagnvart því að veita leyfi til rannsókna á orkunýtingarmöguleikum einmitt vegna þess hversu margföld hæstv. ráðherra er í roðinu eða hve margt hún hefur á sinni könnu vildi ég heldur orða það frekar en að nota roðið. Það er reyndar oft notað líka um fólk og á ekki að móðga neinn.

Landeigendur Reykjahlíðar ehf. hafa sóst eftir umsóknum um rannsóknaleyfi í jarðhitasvæðinu í Fremri-Námum. Svo eru umsóknir hérna líka um nýtingar- og virkjunarleyfi og þá erum við að tala um nýtingar- og virkjunarleyfi. Orkuveita Reykjavíkur er að sækjast eftir virkjunarleyfi í Farinu í Bláskógabyggð. Það getur vel staðið í ráðherranum að veita það leyfi. Ég veit það ekki. Það er margt sem hæstv. ráðherra afrekar og Farið í Bláskógabyggð gæti vel orðið eitt af þeim afrekum.

Hitaveita Suðurnesja sækist eftir virkjunarleyfi fyrir 100 megavatta virkjun, svokallaðri Reykjanesvirkjun. Að lokum ætla ég að lesa upp útgefin rannsóknar- eða nýtingarleyfi vegna jarðvarma, þ.e. sem búið er að fjalla um og veita:

Hitaveita Suðurnesja hefur rannsóknarleyfi í Trölladyngju. Hún hefur líka rannsóknar- og nýtingarleyfi á Reykjanesskaganum. Orkuveita Reykjavíkur hefur rannsóknarleyfi á Hellisheiði og virkjunarleyfi á sama svæði. Landsvirkjun hefur rannsóknarleyfi á Kröflusvæði og líka í Köldukvíslarbotnum. Þeistareykir ehf. hefur rannsóknarleyfi á Þeistareykjum. Sunnlensk orka hefur rannsóknarleyfi á Reykjasvæði í Ölfusi. Það er reyndar útrunnið þannig að ég geri ráð fyrir að um það sé ekki að ræða nema að sótt verði um það aftur.

Það sem ég hef farið yfir segir okkur að gríðarlega mikið liggur af umsóknum um rannsóknir. Þótt ekki verði nema hluti þeirra umsókna sem hér um ræðir að veruleika sem virkjanir þá yrði af því gríðarleg orka. Þar fyrir utan eru, eins og þingmenn vita, fjölmargir aðilar farnir að huga að smærri virkjunum sem ég taldi ekki upp og um er fjallað með öðrum hætti.

Það er full ástæða til að menn geri sér grein fyrir því að umhverfisráðherra gæti staðið frammi fyrir því að innflutningur á mengunarkvótum verði gríðarlega mikill. Það er möguleiki. Ég held því ekki fram að hann verði það en ég tel að hann gæti orðið það. Álverð er gríðarlega hátt og það virðist mikill áhugi á nýjum álverum í heiminum, a.m.k. virðist hann mikill hvað varðar Ísland. Það kann vel að vera að það sé svolítið sérstakt vegna rafmagnsverðsins. En hins vegar er hægt að framleiða rafmagn með ekki síður hagstæðum hætti en gert er á Íslandi þó nokkuð víða í heiminum. Til eru möguleikar á vatnsaflsvirkjunum og alls konar öðrum virkjunarkostum. Það er ekki allt fengið þótt menn hafi fengið þau álver sem hér hafa verið í umræðunni.

Ósvarað er spurningunni um hver stefnan á að vera. Það liggur ekki fyrir af ríkisstjórnarinnar hálfu. Það er mjög nauðsynlegt að menn komist til ráðs með það og segi hvað þeir vilja í þessu. Ég held að niðurstaðan ætti að vera nokkuð ljós. Það er ekki hægt að bjóða upp á að ganga lengra á næstu sex árum en Kyoto-samkomulagið gerir ráð fyrir. Ég sé heldur ekki hvers vegna í ósköpunum menn ættu, á þeim skamma tíma sem er til loka Kyoto-samkomulagsins, að gera bindandi ráðstafanir fram yfir það tímabil. Hér eru menn með fangið fullt, í gríðarlegum framkvæmdum út allt þetta tímabil og meira en það. Hvers vegna ættu menn að stökkva til og gera bindandi ráðstafanir fram í tímann, fram yfir þetta tímabil?

Ég tel ekki skynsamlegt að setja af stað innflutning á mengunarkvótum þótt það megi. Menn eiga að stoppa, láta duga að nýta þá möguleika sem eru fólgnir í íslenska ákvæðinu og endurskoða stefnuna um leið og nýtt samkomulag liggur fyrir í loftslagsmálum. Þetta finnst mér vera skynsamleg leið og niðurstaða sem gæti orðið ágæt sátt um í landinu. Ríkisstjórnin setur þann möguleika í uppnám. Bakka-samkomulagið segir okkur að ómögulegt er að vita hvað ríkisstjórnin ætlar sér. Hæstv. umhverfisráðherra undirstrikaði það, að það á ekki að láta uppi hvað menn ætla sér. Þetta er óþolandi að fá ekki að vita hvað er fram undan og hvað menn ætla.

Mér finnst óábyrgt að láta það liggja í loftinu að Íslendingar ætli að taka ákvarðanir sem hugsanlega komi í veg fyrir að það sé hægt að framlengja Kyoto-samkomulagið að óbreyttu. Þeir láta það liggja í loftinu en af hverju segja menn ekki skýrt og skorinort: Við gerum fyrirvara um allar framkvæmdir sem hafa í för með sér að mengun aukist fram yfir Kyoto-samkomulagið og íslenska ákvæðið, þ.e. að gerist það verði viðkomandi fyrirtæki að flytja inn mengunarkvóta fyrir því. Það hefur ríkisstjórnin ekki heldur sagt. Það er óþolandi að svo skuli ekki gert. Það væri skárra ef menn segðu, þótt ég væri því algerlega ósammála, hvert menn ætla í þessu efni. Það væri skárra en að segja það ekki, láta það í veðri vaka að ríkisstjórnin ætli bara að taka sénsinn á að íslenska ákvæðið verði útvíkkað í næsta samkomulagi. Það á bara að taka sénsinn á því. Það finnst mér fráleitt fyrir utan að það er engin ástæða til þess. Það eru bara sex ár eftir af samkomulaginu og menn munu tala saman um það áður. Þannig er þetta pólitískt gjörsamlega óþolandi, að menn skuli ekki tala skýrt um þessi málefni.

Síðan er ástæða til að velta fyrir sér framhaldinu þegar kemur að samningum um Kyoto-samkomulagið. Ég er fyrir fram á þeirri skoðun að vafasamt sé fyrir Íslendinga að sækjast eftir útblástursheimildum fram yfir íslenska ákvæðið, með útvíkkun á því. Mér fyndist a.m.k. lágmarkið að koma því í umræðuna áður en menn setja mögulega í uppnám að Íslendingar geti skrifað undir samkomulagið aftur óbreytt. Það sem menn þurfa að hafa í huga þegar þeir velta fyrir sér hvort íslenska ákvæðið geti útvíkkast með einhverjum hætti er að allar líkur eru á því að fjöldi annarra þjóða komi inn á sviðið og bendi á möguleika sína til að nýta þetta ákvæði. Það eru til fleiri litlar þjóðir í heiminum en Íslendingar. Þeir eru fleiri sem framleiða ekkert óskaplega mikið af áli en Íslendingar. Þótt Íslendingum finnist framleiðslan býsna mikil þá er mengunin frá Íslandi aðeins á bilinu 0,03 eða 0,04%.

Mengunin frá Íslandi var 0,01 til 0,02% af menguninni þegar samkomulagið var gert. Það er ekki fyrr en á árinu 1995 eða 1996, þ.e. eftir stækkun á álverinu í Straumsvík, líklega með stækkuninni í 90.000 tonn í Hvalfirði að mengun frá stóriðju á Íslandi fór upp í að vera þriðji hluti þeirrar mengunar sem stígur til himna frá Íslandi. Einn þriðji, eða eitthvað svoleiðis eða innan við það. Íslenska ákvæðið sem gerir ráð fyrir því að við megum fara upp í 1,6 millj. tonna, sem þýðir líkast til að við áttföldum þá mengun sem kemur frá stóriðju á Íslandi, hefur þó ekki meiri áhrif en svo. Við erum áfram með mengun frá Íslandi sem er einhvers staðar á þessu bili 0,03–0,04% eða eitthvað svoleiðis.

Íslenska ákvæðið, sem Íslendingar kalla svo, gerir ráð fyrir að einungis þjóðir með undir 0,05% geti tilheyrt þessu ákvæði. En vel að merkja þá rúmast þó nokkur álframleiðsla á Íslandi ákvæðinu. Þannig gætu margar þjóðir og kannski tiltölulega stórar í álframleiðslu komist fyrir undir því ákvæði sem hér um ræðir. Þessu verðum við að reikna með þegar við veltum fyrir okkur hvort hægt sé að útvíkka íslenska ákvæðið og hvort við yrðum einir um að fá tækifæri undir því ákvæði. Hvort okkur hugnast að sækjast eftir útvíkkun eða ekki er svo önnur saga. Ég bendi á að það er ekki til einhlítt svar við því hvort menn fái möguleika á að útvíkka þetta ákvæði.

Hafa verður í huga að ál er undarlegur málmur. Fyrir liggja rannsóknir sem sýna að ál sem kemst í umferð til nýtingar í heiminum endist betur en allur annar málmur og annað efni sem er á ferðinni. Rannsóknir segja að 70% af öllu áli sem framleitt hefur verið í heiminum sé enn í umferð. Einungis 5% af framleiðslukostnaði áls fer í að endurvinna það. Sé framleiðslukostnaður nýs áls eða hrááls borinn saman við endurvinnslu á áli þá kostar endurvinnslan aðeins 5% vinnslu hrááls. Þess vegna ættu íslensk stjórnvöld auðvitað að leggja einhverja fjármuni í að skoða hver framtíð álframleiðslu er í heiminum. Getum við gert ráð fyrir að álverin gefi svo vel af sér sem þau hafa gert á undanförnum árum eða getur það breyst og Íslendingar standi þá frammi fyrir því að hagnaður af rekstri álveranna gufi upp að hluta eða þannig að einhverju máli skipti?

Ég veit ekki til þess að neinar rannsóknir séu til á Íslandi um þetta en það er full ástæða til að gefa gaum að því vegna þess að ál er að verða gríðarlega mikilvægt í þjóðhagslegu samhengi á Íslandi og álið er, eins og ég sagði áðan, sérstakt. Það að 70% af öllu áli skuli enn þá vera í umferð af því áli sem framleitt hefur verið í heiminum segir okkur að einhvern tíma geti komið að einhverjum mörkum og það geti gerst býsna hratt. Ég hef ekki séð neinar spár um þetta en ég veit hins vegar að ástæða er til að skoða þessa hluti.

Það væri gaman að ræða margt í sambandi við álið og þá möguleika sem það gefur okkur. Ég er ekki á móti álverum og tek það sérstaklega fram ef menn skyldu halda það. Ég tel hins vegar að þau eigi að vera fá og stór, þau eigi að vera öflug og á heimsmælikvarða, samkeppnisfær. Það er það sem skiptir okkur máli. Þess vegna tel ég að þau eigi að vera fá og stór svo fyrirtækin hér á landi eigi möguleika á því að standa sig vel í heimskapphlaupinu. Það geta komið vondir tímar og munu gera það örugglega og þá þurfa þau fyrirtæki sem hér eru rekin að standa þá af sér.

Alcoa er ekkert smáfyrirtæki. Það er með 130–140 þús. manns í vinnu í heiminum í 43 löndum og er með gríðarlega fjölbreytta framleiðslu af áli af öllum mögulegum tegundum á sinni könnu fyrir utan að fóðra alls konar fyrirtæki sem nýta sér ál í hráefni. Ég var á fundi í Borgarfirði í vikunni. Þar var ágætur fulltrúi frá Alcoa sem sagði okkur frá fyrirtækinu. Ég spurði fulltrúann hvort fyrirtækið væri tilbúið til að liðsinna þeim sem hefðu áhuga á að skoða möguleikana á því að nýta sér hráefnið frá fyrirtækinu til að framleiða einhverja hluti, vera með einhvers konar úrvinnslu úr áli. Henni fannst ekki ólíklegt að fyrirtækið væri tilbúið til að veita upplýsingar og hafa samstarf við aðila um þau efni. Ég tel fulla ástæðu til þess að menn skoði þetta vegna þess að það er auðvitað ekki eðlilegt að við framleiðum eingöngu hráefni til álvinnslu en séum ekki, úr því að hér er svo gríðarlega mikið framleitt af áli, með úrvinnslu í landinu eins og möguleikarnir á því virðast vera líklegir til að geta verið til staðar.

Ég ætla ekki að ræða meira um álver í bili. Mér finnst samt full ástæða til að tala um álver vegna þess að þau tengjast málefnunum sem við ræðum. Ég er á þeirri skoðun að Alþingi eigi að ræða þessi mál í samhengi, hef komið því oft á framfæri og á sjálfsagt oft eftir að nefna það í umræðunni að þannig verði það að vera ef einhver skynsemi á að vera í umræðunni sem hér fer fram um vatnalög, að önnur lagasetning sem tengist vatnalögum sé öll undir í þeirri umræðu.

Ég er með í höndunum tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október árið 2000, um vatn. Ég fékk þetta í hendurnar fyrir stuttu. Á það er skrifað kirfilega „Drög“. Þýðingin er ekki tilbúin en tilskipunin var gefin út árið 2000 og okkur var sagt á síðasta þingvetri í iðnaðarnefnd að í umhverfisráðuneytinu lægi fyrir drög að frumvarpi á grundvelli málsins. Það bólar ekkert á því máli, það hefur ekki sést. Þó virðist ekki vanta plaggið og tilskipunin er orðin nógu gömul. Hún er frá því árið 2000. Samt er ekki búið að þýða hana þannig að hún sé tilbúin eins og stendur á plagginu.

Þetta er dæmi um að ekki hefur verið lögð næg vinna í málefni til að hægt sé að vinna í því á heildstæðan hátt. Þó er auðséð að tilskipunin er gríðarlega umfangsmikil. Í henni eru alls konar hlutir um meðferð vatns. Það er ekkert vafamál að hún getur haft veruleg áhrif til einhvers konar hömlunar að mínu viti á eignarrétti, umgangi eigenda um vatn. Það er full ástæða til að það sé a.m.k. borið til baka sem ég er að segja um það vegna þess að sagt hefur verið í umræðunni að þetta komi ekkert inn á vatnalögin, hafi ekkert að gera með skilgreiningu eignarhalds á vatni eða eitt eða neitt. Ég tel að það sé skylda Alþingis að kalla eftir frumvarpinu sem á að verða á grundvelli vatnatilskipunarinnar til að hægt sé að ganga úr skugga um hvort einhverjir hlutir komi til með að stangast á við það frumvarp til vatnalaga sem við fáumst við. Ég ætla ekki að fara nánar yfir málið núna. Ástæða kann að vera til að gera það síðar í umræðunni en Evrópusambandið hefur greinilega lagt gríðarlega mikla vinnu í vatnatilskipunina og það er kannski full ástæða til.

Við Íslendingar erum svo heppnir að búa á eyju. Við lendum ekki í einhverjum vandamálum út af landamærum við aðra hvað varðar vatnsrennslið. Stórár Evrópu renna um mörg lönd. Evrópubúar þurfa þess vegna að taka mikið tillit hver til annars hvað varðar umgang um vatn og reglur um hvernig með það allt skuli fara. Fjölmargir hlutir í vatnatilskipuninni eru örugglega hugsaðir út frá því að allir taki tillit til allra sem hlut eiga að máli ef um vatn er að ræða. Þess vegna er full ástæða til að halda að ýmislegt í vatnatilskipuninni geti hugsanlega rekist á við það sem menn ætla sér með endurskoðun á vatnalögunum sem hér eru eða þeim lögum sem gilda yfirleitt um vatn á Íslandi.

Það var eitt sem ég ætlaði að ræða um í umræðunni og tengist nýtingu á orkulindunum. Ég hef auðvitað gert það áður í sölum Alþingis og tel að ekki sé of oft kveðin sú vísa, þ.e. að ræða aðeins um eignarhald á fyrirtækjunum sem eru í orkuvinnslu og orkusölu í landinu og eru að langstærstum hluta til í höndum hins opinbera. Þau fyrirtæki eru komin í umhverfi sem á að verða einhvers konar samkeppnisumhverfi og það er ekki vel hægt að sjá að það sé trúverðugt. Það er ekki hægt að sjá að samkeppnisumhverfið geti orðið trúverðugt nema ríkisvaldið taki sér tak og búi hreinlega til samkeppnisumhverfi og sjái til þess að leikendurnir á því taflborði sem þarna verður séu það öflugir, nógu margir til að einhvers konar alvörusamkeppni verði. Það er ekki hægt að halda því fram að hún verði með þeim hætti að Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða verði sameinað í eitt fyrirtæki og síðan verði það fyrirtæki látið keppa við Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur. Eignarhaldið í þeim fyrirtækjum er allt saman þvers og kruss eins og allir vita og það er líka stærðarinnar vegna ómögulegt að sjá að það geti orðið skynsamleg samkeppni á milli fyrirtækjanna.

Ég hef þess vegna margoft sagt að taka eigi á þessum málum með þeim hætti að losa Reykjavíkurborg og Akureyri út úr Landsvirkjun og láta Rarik vera áfram sjálfstætt fyrirtæki á markaðnum. Það á að breyta um eignarhald á Rarik. Hið opinbera getur ráðið þessu öllu saman. Það má vel gera með því að gera sveitarfélögin að hluta til að eigendum Rariks. Rarik verður að hlutafélagi á næstunni og eignarhaldið á Rarik getur þess vegna orðið á eðlilegum markaði. Menn geta með þeim hætti búið til öflugt fyrirtæki sem keppir við Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja en leiðin er ekki sú að skella saman Landsvirkjun og hinum fyrirtækjunum.

Ég var satt að segja afar undrandi þegar ég heyrði af hugmyndinni á sínum tíma einfaldlega vegna þess að ég hélt að stjórnvöldum væri alvara í því að mynda alvörusamkeppnisumhverfi í raforkuframleiðslu og dreifingu í landinu eða sölu. Ég var mjög hugsi þegar ég heyrði að til stæði að sameina fyrirtækin og hef ekki fengið staðfestingu á því hvers vegna menn vilja gera þetta. Ég tel reyndar líklegast að ástæðan sé sú að eigið fé Landsvirkjunar sé ekki alveg nógu mikið að mati þeirra sem um það hafa fjallað og þeir telji ástæðu til að steypa saman fyrirtækjum í eigu hins opinbera. Með því yrði til meira eigið fé í Landsvirkjun eða sameinaða fyrirtækinu. Þannig væri Landsvirkjun eftir fjárfestingarnar fyrir austan aftur orðið öflugra fyrirtæki en það væri annars. Ég held að þetta sé ástæðan. Ég trúi því ekki að þannig sé komið fyrir Landsvirkjun að það sé einhver nauðsyn á þessu. Ef svo er held ég að það hljóti að vera vegna þess að samningurinn um Kárahnjúkavirkjun sé ekki nógu góður, hann færi fyrirtækinu ekki nægilega miklar tekjur og hagnaðurinn sé ekki eins og menn höfðu ætlast til og vonað.

Þá er eins gott að það komist til umræðu og menn fái að sjá það ef þannig er. En á meðan það hefur ekki verið lagt á borðið að á því þurfi að halda tel ég að það eigi alls ekki að sameina fyrirtækin Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Rarik.

Ég gæti auðvitað farið yfir rökin fyrir því að sveitarfélögin eigi að eignast hlut í Rarik. Rökin eru fyrst og fremst þau að í ýmsum sveitarfélögum á landinu, þar sem Rarik hefur verið þjónustuaðili, hafa neytendur verið að byggja upp þá eign sem þarna hefur orðið, þ.e. eigið fé Rariks. Það er gríðarlega mikið, það er talið vera kannski 11 milljarðar eða þar um bil. Það er engin ástæða til þess að gleypa það hrátt að þetta eignarhald eigi eingöngu að vera í höndum ríkisins. Sveitarfélögin, þar sem þjónusta Rariks hefur orðið til þess að skapa þessa eign, eiga að mínu viti ekki síður að eiga þarna rétt en þau sveitarfélög sem voru svo heppin að vera með í Landsvirkjun á sínum tíma. Ef menn skoða eignamyndun Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun sjá menn að sú eignamyndun hefur orðið gríðarlega mikil og hún hefur orðið fyrst og fremst vegna nýtingar á þeim auðlindum sem þetta fyrirtæki hefur haft í sínum höndum og hún hefur orðið vegna viðskipta við einstaklinga og fyrirtæki sem hafa keypt raforkuna af Landsvirkjun.

Það er ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að það eigið fé sem Reykjavíkurborg og Akureyri lögðu fram sé með þeim hætti að það gefi tilefni til þessarar gríðarlegu eignamyndunar heldur er það starfsemin sjálf sem hefur skilað þessu. Það er líka hægt að halda því fram að ríkisvaldið hafi ekki gætt hagsmuna landsmanna gagnvart öðrum eignaraðilum. Í rekstri Landsvirkjunar hefur þetta verið þannig að — ég ætla hér að vitna í svar iðnaðarráðherra við fyrirspurn frá mér sem ég fékk fyrir einum fjórum, fimm árum, það mun hafa verið í desember árið 2000. Þar kemur í ljós að í upphafi var Landsvirkjun, hún er stofnuð 1. júlí 1965, í helmingseigu ríkisins og Reykjavíkurborgar og er það fram til 1. júlí 1983.

Í upphafi lögðu eigendur fram eftirfarandi eignir, þ.e. ríkið: eignarhlut í Sogsvirkjun ásamt vatnsréttindum og vatnsréttindi í Þjórsá og undirbúningskostnaðinn að Búrfellsvirkjun. Þessi vatnsréttindi í Þjórsá voru ekki skilgreind nákvæmar í þessu svari en þingmenn kannast nú við það að hér er til umfjöllunar mál þar sem ríkið er að leggja fram aftur eignarhlut sinn í þessu fyrirtæki, en talið var að gögnin um eignarhaldið hafi ekki verið rétt og að ríkið hafi í raun og veru ekki eignast þetta land heldur keypt það af aðilum sem ekki áttu það. Síðan voru þjóðlendulögin sett og þar með varð ríkið alveg óvefengjanlega eigandi og menn telja tryggara að leggja þá landið fram aftur með formlegum hætti í hendur fyrirtækisins þannig að ekki sé hægt að halda því fram að hér hafi ekki verið staðið eðlilega að málum. Það mál hefur auðvitað sinn gang og mun sjálfsagt verða afgreitt hér frá Alþingi, um það er ekki neinn ágreiningur svo ég viti.

Reykjavíkurborg lagði fram í Sogsvirkjun eignarhlut sinn ásamt vatnsréttindum þar og einhverfilsstöð borgarinnar við Elliðaár og spennistöð þar ásamt ýmsum tilheyrandi lóðum. Einnig lögðu þessir eigendur fram fé á árunum 1966, 1972, 1974, 1975, 1976, 1979 og 1980 til að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins.

Þann 1. júlí 1983 varð Akureyrarbær eignaraðili að Landsvirkjun og lagði fram eignarhlut sinn í Laxárvirkjun. Jafnframt lagði ríkið, sem átti 35% í Laxárvirkjun, sinn hluta til Landsvirkjunar. Á verðlagi í september árið 2000 nema uppsöfnuð og endurmetin eiginframlög 16,7 milljörðum kr. Þetta eru sem sagt endurmetin eiginframlög alveg fram til ársins 2000.

Nú voru menn að meta þetta fyrirtæki í vetur leið, þegar tekist var á um það hvort ríkið ætti að fá yfirtöku á þessu fyrirtæki, á 56 milljarða kr., ef ég man rétt, þannig að menn geta á því séð að hér hefur eiginfjárframlag skilað miklum arði. En það er líka ástæða til þess að menn hafi það í huga að þetta fyrirtæki hefur fengið án greiðslu í hendur bestu virkjunarkosti á hverjum tíma. Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni með hvaða hætti þeir virkjunarkostir verða metnir þegar kemur að því að ákveða hver framtíð Landsvirkjunar verður.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst því yfir að hann vilji einkavæða Landsvirkjun. Það er nú ekki þannig að sú einkavæðing verði á næstunni en samt sem áður hljóta menn að þurfa að velta því fyrir sér með hvaða hætti verður farið með þær orkuauðlindir sem þessi fyrirtæki, sem hið opinbera á núna í orkugeiranum, hafa þegar og ef þær verða einkavæddar. Það er hluti af þessum heildarmálapakka sem ég er hér að tala um og þarf að leysa annars vegar með ákvörðun um að setja ákvæði í stjórnarskrána um þjóðarauðlindir og með því að nefndin, sem ég talaði um hér fyrr í ræðu minni, sem hæstv. iðnaðarráðherra á að skipa, geri tillögu um með hvaða hætti verði farið með þessar auðlindir, hvernig endurgjaldi verði háttað fyrir þær, hvernig jafnræðis verði gætt til þess að aðilar fái að nýta þessar auðlindir og hvernig verði t.d. gengið frá samningum við aðila sem fá að nýta auðlindirnar. Það er mikið verkefni sem þar þarf að leysa og ég geri ráð fyrir því að nefndin, sem vonandi kemst á laggirnar sem allra fyrst, komi með tillögur um þetta fyrir haustið.

Ég var farinn af stað í að rökstyðja hvers vegna ég tel að ríkisvaldið eigi að setja hluta af þessum eignum í hendur sveitarfélaganna. Ein af spurningunum sem ég lagði fram og fékk svar við árið 2000 hvað varðar eignarhlutina í Landsvirkjun var:

Hvaða greiðslur hefur Landsvirkjun innt af hendi til eignaraðila? Tegundir greiðslna og upphæðir óskast tilgreindar.

Svarið er þetta:

„Landsvirkjun greiddi eigendum sínum árlega arð á árunum 1986–1991 og nema þær greiðslur á verðlagi í september sl. 675 millj. kr. Í samræmi við eigendasamkomulag frá 28. október 1996 skal eigendum reiknaður 5,5% árlegur arður af eigendaframlögum. Útreiknaður arður hefur á árunum 1997–2000 numið 3.884 millj. kr. Af þessari fjárhæð hafa verið greiddar út 959 millj. kr. en ógreiddum arði að fjárhæð 2.925 millj. kr. hefur verið bætt við eigendaframlög. Samtals nemur því útgreiddur arður á árunum 1986–2000 1.634 millj. kr.“

Þetta segir svolítið um það hvernig kaupin hafa verið að gerast á eyrinni gagnvart Landsvirkjun. Landsvirkjun hefur á árunum 1988–2000 greitt eigendum sínum ábyrgðargjald vegna þeirra lána sem eigendur eru í ábyrgð fyrir og þetta gjald er greitt samkvæmt lögum til ríkisins en stjórn Landsvirkjunar ákvað að greiða Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ hliðstætt gjald enda eru allir eignaraðilar Landsvirkjunar ábyrgir fyrir skuldbindingum fyrirtækisins. Samtals hafa greiðslur ábyrgðargjaldsins numið 1,5 milljörðum á verðlagi í september sl.

Hafa eigendur Landsvirkjunar á einhvern hátt notið betri kjara en almennir viðskiptavinir og ef svo er í hvaða formi, og hver er heildarávinningur hvers eignaraðila á núvirði?

Svarið við þessu var:

„Að öðru leyti en því sem fram kemur í svari við 3. lið fyrirspurnarinnar, hvað varðar arðgreiðslur og ábyrgðargjald, hafa eigendur Landsvirkjunar ekki notið betri kjara en aðrir viðskiptavinir fyrirtækisins.“

Þetta er sjálfsagt alveg rétt. Það ber þó að hafa í huga að eignamyndunin í fyrirtækinu hefur orðið býsna mikil og að niðurstaðan sem varð af viðræðum milli Reykjavíkurborgar og ríkisstjórnar eða iðnaðarráðherra nú á síðasta vetri, um að ekki væri hægt að ganga frá samkomulagi um yfirtöku ríkisins vegna þess að ágreiningur væri um verð, bendir til þess að matið sem þá lá til grundvallar hafi kannski verið lægra en markaðsvirði fyrirtækisins mundi verða. Það er því ástæða til þess að halda að ríkið þurfi að borga verulega meiri fjármuni fyrir helmingshlutinn í Landsvirkjun en þær tölur gáfu til kynna sem var verið að ræða um.

Hæstv. forseti. Það er afar margt sem kemur til greina þegar við förum að ræða um þessi mál svona í heildinni og ég sé ástæðu til að ræða hér örlítið um auðlindanefndina sem skilaði af sér á árinu 2000. Ég tel það óásættanlegt að ekki skuli hafa verið meira gert með niðurstöður þeirrar nefndar. Í henni áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaafla í landinu, tillögur nefndarinnar voru heildstæðar og gríðarleg vinna var lögð í skýrslu sem var gerð. Tillögurnar fjölluðu um þjóðarauðlindir, þær fjölluðu um ný ákvæði í stjórnarskrána um þessar auðlindir, þær fjölluðu um það með hvaða hætti ætti að fara með þessar auðlindir og það var í raun og veru ástæða til að halda að þær gætu leitt stjórnmálamenn á Íslandi til einhvers konar niðurstöðu um gríðarlega merkileg mál og mikilvæg í samfélaginu, sem eru meðferð þessara þjóðarauðlinda.

Eitt af því sem auðlindanefndin lagði til var að tekið yrði nýtt ákvæði inn í stjórnarskrána. Ég vitna, með leyfi hæstv. forseta, í skýrsluna. með fyrirsögninni: Tillaga um nýtt stjórnarskrárákvæði.

„Í samræmi við það sem fram kemur hér að framan er lagt til að tekið verði upp nýtt ákvæði í VII. kafla stjórnarskrárinnar þar sem náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti verði lýstar þjóðareign. Ákvæðið verði svohljóðandi:

Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.“

Þetta er það ákvæði sem auðlindanefndin lagði til að sett yrði inn í stjórnarskrána. Ég sé ástæðu til að rifja það ákvæði upp vegna þess að sú nefnd sem er að störfum núna við endurskoðun á stjórnarskránni virðist þurfa svolitla hvatningu til að árangur náist af starfi hennar. Mér finnst að það megi ekki gerast að því starfi verði ekki haldið fram með þeim hætti að fyrir þjóðina verði hægt að leggja tillögur um endurskoðaða stjórnarskrá í næstu alþingiskosningum. En til að svo megi verða þarf auðvitað nefndin, endurskoðunarnefnd stjórnarskrárinnar, að vinna hratt og örugglega að þeim málefnum sem á borði hennar liggja. Þau eru mjög tengd þeim málefnum sem ég hef verið að ræða um og eru í rauninni órjúfanlegur hluti þeirra. Eignarhald á vatni, eignarhald á auðlindum í jörðu eru auðvitað hluti af þessu, eignarhald á fiskinum í sjónum, eignarhald á sem sagt auðlindum eru í höndum endurskoðunarnefndarinnar. Það er mjög heppilegt að menn ljúki endurskoðun þeirra laga sem við erum að ræða um og þessa lagafrumvarps samhliða því sem niðurstaða liggur fyrir frá þeirri nefnd sem ég nefndi áðan og á að setja á laggirnar samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. En þetta ákvæði er svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Við gildistöku laga þessara skal iðnaðarráðherra skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti þrír fulltrúar frá Samorku. Þá skal iðnaðarráðherra skipa tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Nefndin skal skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps til iðnaðarráðherra eigi síðar en 15. september 2006.“

Það er ekki langur tími. En á svipuðum tíma og sú nefnd á að skila tillögum sínum á nefndin sem endurskoðar stjórnarskrána að skila líka tillögum sínum. Alþingi ætti því að geta fjallað um þær tillögur sem þarna koma vonandi á næsta hausti og þá um leið ætti ríkisstjórnin að mínu viti að vera tilbúin með frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum, sem lá fyrir iðnaðarnefnd á síðasta þingvetri en náði þá ekki fram að ganga vegna þess að það starf sem nefndin sem ég ræddi um áðan á að framkvæma lá ekki fyrir. Menn sáu að það gat auðvitað ekki gengið að samþykkja og gera að lögum frumvarp um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum og að í því ætti síðan, eins og þar var gert ráð fyrir, að vera nefndarskipan sem ætti að hafa þetta hlutverk sem ég var hér áðan að lýsa og einhvern tíma í framtíðinni kæmi síðan þessi niðurstaða. Meiri hlutinn féllst þó á að ekki væri grundvöllur fyrir því að ljúka umfjöllun um það frumvarp fyrr en niðurstaða nefndarinnar lægi fyrir og tillögur um hvernig ætti að ráðstafa umsóknum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum, rannsóknar- og nýtingarleyfi. Það var sú niðurstaða sem í raun varð, að ógerlegt væri að klára umfjöllun um þetta mál fyrr en þær tillögur lægju fyrir. Þess vegna er mjög undarlegt, eins og ég sagði fyrr í ræðu minni, að hæstv. iðnaðarráðherra skyldi ekki flytja tillögu um að þessi nefnd yrði sett á laggirnar í haust þegar hún flutti tillögu sína um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem ég enn þá tek fram vegna þess að nöfn þessara lagafrumvarpa eru svo lík, var eingöngu bráðabirgðaráðstöfun hugsuð til að veita svigrúm til að hægt væri að undirbúa með sæmilega skynsamlegum hætti og fyllilega þetta frumvarp sem ég er að ræða um núna, um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum.

Ég þykist alveg viss um að þessi ræða mín sé ekki mjög skiljanleg því fólki sem á hana hefur hlustað og ekki hefur tekið þátt í starfi nefndarinnar því hér eru á ferðinni mörg mál og mörg atriði sem hafa komið inn í þessa umræðu. Þarna eru gríðarlegir hagsmunir í húfi sem ég hef komið inn á í máli mínu og mikil ástæða er til að ræða í sölum Alþingis. Það að stjórnarliðar skuli ekki hafa sinnt þessum málum með þeim hætti að heildstætt sé hægt að kalla það finnst mér óábyrgt og ég hef margoft sagt það og finnst ástæða til að nefna það nokkuð oft í umræðunni.

Hins vegar er því ekki að neita að þessi málefni hafa snert svo marga þætti og svo margs konar lög hafa verið endurskoðuð á undanförnum árum sem öll tengjast á vissan hátt hvað þessi mál varðar, að það þarf enginn að vera hissa á því þó einhver vandamál hafi komið upp við slíka endurskoðun. Ég er í sjálfu sér ekki að kvarta neitt yfir því. Það er bara eðlilegt að ágreiningur sé um margt í þessum málum og að eitthvað jafnvel mistekist.

Það væri við hæfi að við færum svolítið yfir það sem ég hef oft nefnt í máli núna mínu, þ.e. um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, því sú löggjöf er ekki nema frá árinu 1998. Gert er ráð fyrir að þegar lagafrumvarpið um jarðrænar auðlindir, sem ég hef líka oft nefnt og ég talaði um áðan, verður að lögum þá falli niður lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þegar þau lög voru fyrir Alþingi í frumvarpsformi hét það frumvarp til laga um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þessu heiti frumvarpsins var breytt í rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Skyldi það hafa verið einhver tilviljun? Ég held reyndar ekki vegna þess að í umræðunum um það frumvarp, sem voru þó nokkuð langar í Alþingi en hefðu gjarnan mátt vera miklu lengri, ég hef lesið þær og þær voru fróðlegar, kom fram að ágreiningur var um eignarhaldsinnihaldið. En því miður snerist umræðan ekki um eignarhald á vatni nema að örlitlu leyti.

Þegar menn fjölluðu um lögin sem nú gilda og heita rannsóknir á nýtingu á auðlindum í jörðu, tókust menn á fyrst og fremst um jarðhita og nýtingu hans og eignarhald á þeirri nýtingu. Mjög fáir sem tóku þátt í þeirri umræðu nefndu eignarhald á vatni, ég held ég fari rétt með að einungis einn eða tveir af þeim þingmönnum sem töluðu í málinu hafi nefnt að einhverju marki eignarhald á vatni. Það er mjög hæpið að mínu viti að halda því fram að menn hafi verið að skilgreina vatn sem eign upp á nýtt í þessari lagasetningu og þá með öðrum hætti en verið hefur í vatnalögunum fram að þessu vegna þess að umræðan um það efni varð óskaplega lítil.

Einnig er ástæða til að vekja athygli á að heiti laganna skyldi vera breytt úr því að vera um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu yfir í að vera um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Það frumvarp sem varð að lögum kallaði líka fram umræðuna um vatnalögin á sínum tíma einfaldlega vegna þess að lagaákvæði vatnalaganna giltu auðvitað um þau efni sem þar voru á ferðinni. Menn greindi þarna verulega á um hvernig ætti að taka á þessu. Átökin voru samt fyrst og fremst um hvort skilgreina bæri hluta af þessum réttindum til að nýta orku eða auðlindir í eignarlöndum manna sem fullkomin eignarréttindi, hvort líta ætti á þessi réttindi þannig að menn ættu tiltekið langt niður í jörðina eða hvort menn ættu að draga línuna við tiltekið dýpi, t, d. 300 metra dýpi, eða hvernig ætti að skilgreina þetta. Niðurstaðan varð sú í þeirri lagasetningu að þarna er í raun ekki skilgreining heldur má segja að niðurstaðan sé sú að landeigandi eigi réttinn til að nýta auðlindirnar undir sinni landareign eins langt niður og hann á möguleika á að nýta slík réttindi.

Við höfum fengið að heyra í nefndarstarfinu að með lagasetningunni hafi orðið grundvallarbreyting á skilgreiningu manna á eignarhaldi á vatni. Ég tel alls ekki að hægt sé að nota þann rökstuðning. Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni tel ég að þeir sem hafa mælt fyrir því að gera breytingar á vatnalögum með þeim hætti sem raun ber vitni og halda því fram að þær breytingar séu bara formbreyting geti ekki með trúverðugum hætti fullyrt að það megi ekki gera þá breytingu til baka sem þeir telja að hafi verið gerð þegar lögin voru sett um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sem ég er að vitna til. Þess vegna eru það ekki haldbær rök að við þurfum að hafa einhverjar áhyggjur af því að einhver skaðabótamál verði á hendur ríkinu þó að heildarlög sem verða sett um þessi málefni, vonandi á næsta vetri, verði með þeirri skilgreiningu sem hefur fram að þessu verið í vatnalögum.

Ég held að affarasælast sé að menn hrófli ekki við þeirri gömlu skilgreiningu, þeirri gömlu sátt sem varð um þessi mikilvægu málefni árið 1923 eftir sex ára meðferð á vegum Alþingis. Þess vegna tel ég ástæðu til þess að stjórnarliðar hlusti á það sem við höfum sagt í minni hlutanum um þessi málefni og snúi til baka með málið. Það er nógur tími, ekkert kallar á að við höldum áfram með málið núna, enginn rökstuðningur hefur komið fram um að það sé aðkallandi, að einhver vandamál séu uppi. Þvert á móti hefur komið fram í þeim fjölmörgu umsóknum sem nefndinni barst og hjá þeim sem komu til nefndarinnar og við ræddum við að engin sérstök vandamál hafi verið uppi hvað varðar vatnalögin á undanförnum árum og þau hafi staðist tímans tönn ótrúlega vel. Ég er þó ekki með því að segja að það eigi ekki að breyta þeim, endurskoða þau, heldur eigum við, eins og ég hef oft sagt, að taka á þessum málum heildstætt og halda okkur við gömlu upphaflegu skilgreininguna sem var og er í vatnalögunum. Það er engin ástæða til þess að gera á henni sérstakar breytingar.

Gaman væri að fjalla um margt sem fram kom hjá þeim aðilum sem sendu umsagnir sínar til nefndarinnar eða komu til hennar, því að málið er á áhugasviði mjög margra. Ég ætla að vitna t.d. í Landssamband veiðifélaga frá því 27. nóvember sl.

Þar stendur, með leyfi forseta:

„Í fyrirliggjandi frumvarpi til vatnalaga er margt til betri vegar fært frá núgildandi lögum að mati LV. Mat okkar er þó að verulega skorti á að skorður séu settar á heimildir fasteignareiganda til aðgerða í ám og vötnum sbr. VI og VII kafla frumvarpsins. Þetta á sérstaklega við þegar aðrir hagsmunir eru faldir í vatnasvæðinu s.s. veiðiréttur. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að núgildandi vatnalög eru að mestu óbreytt frá árinu 1923. Þá var löggjöf um veiði lítt mótuð en fyrstu lög um lax- og silungsveiði eru sett 9 árum síðar eða 1932. Það er fráleitt að mati LV að nú, þegar vatnalögin eru endurskoðuð, sé algjörlega skautað fram hjá stjórnsýslu veiðimála sem mótuð hefur verið undanfarna áratugi á grundvelli laganna um lax- og silungsveiði. Fram hjá því verður ekki litið að nútíminn kallar á að fleiri atriða verði gætt við lagasetninguna nú en var við setningu laganna á öndverðri síðustu öld.

LV gerir kröfu um aðkomu að stjórnsýslu veiðimála í lögum þessum, þar sem það á við, með vísan til núgildandi laga um lax- og silungsveiði.

Veiðifélög kunna að hafa almennra hagsmuna að gæta ef hróflað er við árfarvegi eða vatn tekið til nýtingar skv. frumvarpinu. Það er tillaga okkar að lögin kveði sérstaklega á um vörslu hagsmuna sem fólgnir eru í lífríki vatna t.d. með samþykki viðkomandi veiðifélags yfir framkvæmdum í vatni þar sem fyrir er stofn laxfiska og veiðifélag starfar að lögum. Þá telur LV nauðsynlegt að lögin taki af öll tvímæli um að hvers konar framkvæmdir í veiðivatni lúti einnig ákvæðum laganna um lax- og silungsveiði. Slíkt verði gert með sérstakri málsgrein í lögunum eða þeirri hugsun komið að í einstökum greinum frumvarpsins.

Nú stendur yfir heildarendurskoðun á lögunum um lax- og silungsveiði og þar kemur til álita lögsaga veiðifélaga yfir framkvæmdum í veiðivatni. Með vísan til skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ, um verðmæti sem fólgin eru í nýtingu veiði í ám og vötnum landsins, skal bent á þau gríðarlegu þjóðhagslegu verðmæti sem þar eru í húfi og mikilvægi greinarinnar í íslenskri ferðaþjónustu.

Þá ber þess að geta að með nýjum raforkulögum mun virkjunum fjölga. Nú þegar er vaxandi áhugi á smærri virkjunarkostum og í sumum tilfellum er um fallvötn að ræða sem í eru fiskstofnar. Í þeim tilvikum þarf augljóslega að huga að víðtækari hagsmunum en ráð er fyrir gert í frumvarpinu, s.s. leiðum göngufiska, seiðabúskap o.s.frv.

Við teljum óeðlilegt að framkvæmdir í veiðivatni, sem lúta að veiðiaðstöðu, fiskgengd og öðru sem bætt getur veiði, komi til álita í lögum þessum enda forræði slíkra mála ótvírætt hjá landbúnaðarráðherra og veiðimálastjóra eins og mælt fyrir um í gildandi lögum um lax- og silungsveiði.

Það er að okkar mati gagnrýnivert hversu almennar heimildir eru til vatnsnýtingar og framkvæmda samkvæmt frumvarpinu. Það að vera fasteignareigandi gefur slíkan rétt í viðkomandi vatni. Þarna virðist lagður að jöfnu réttur eiganda lögbýlis og eiganda lítillar sumarbústaðalóðar til hagnýtingar vatns eða framkvæmda og gerð mannvirkis við eða í vatni. Það er í hæsta máta óeðlilegt að litlar lóðir sem seldar eru undir frístundaafnot njóti svo víðtækra lögvarinna réttinda. Betur færi á að úr slíku væri leyst eftir atvikum hverju sinni ef ágreiningur rís.“

Frá þeim eru líka tillögur um einstakar greinar sem ég ætla ekki að lesa upp. En þetta er einungis sýnishorn af þeim umsögnum sem við höfum fjallað um í nefndinni sem benda flestar til þess að gera megi betur.

Áður en ég held áfram með tilvitnanir í umsagnir frá einstökum aðilum tel ég rétt að hverfa aðeins aftur til upphafsins, sem ég nefndi fyrr í ræðu minni, til þess tíma þegar menn fjölluðu um vatnalögin frá 1923 og skilning manna á hinu svokallaða eignarhaldi á vatninu.

Í nefndaráliti minni hluta fossanefndar frá 1917–1919 segir, með leyfi forseta, og gefur smá innsýn í hvað menn voru að hugsa á þeim tíma:

„Áður en minst er á hinar einstöku greinar frumvarp þess, er hjer fer á eftir, vill minnihlutinn að lokum taka það fram, að hann telur ekkert unnið með því að rökræða hjer um það, hvort umráð þau er landeigandi hefir yfir vatni því, er rennur yfir land hans sje þannig, að rjett sje, að nefna þau eignarrjett.“

Hv. formaður nefndarinnar hefur stundum vísað til þess að niðurstaða fossanefndar var sú að notfæra sér minnihlutaálit fossanefndar sem aðaluppistöðu í lagasetningunni (Gripið fram í.) vegna þess að minnihlutamenn sem voru svokallaðir eignarréttarmenn sömdu álit sitt út frá þeirri skilgreiningu sem hefur staðið í lögunum frá 1923. Hér er minnihlutinn að fjalla um þetta deiluefni. Hann telur ekkert unnið með því að rökræða um umráð sem landeigandi hefur yfir vatni sem rennur yfir land hans þannig að rétt sé að nefna þau eignarrétt.

„Eins og kunnugt er, hefir því verið haldið fram, að vatnið, að minsta kosti rennandi vatn, sje þess eðlis, svo hverfult, þar sem það er á sífeldu flugi, að ekki sje unt að hafa þann hemil á því, þau yfirráð, sem eru nauðsynleg til þess að um eignarrjett geti verið að ræða. Aftur eru aðrir þeirrar skoðunar, að ekkert sje því til fyrirstöðu, að landeigandi hafi venjulegan eignarrjett yfir því vatni, er rennur um landareign hans, því að eignarrjetturinn nái til þess vatns, sem á hverri stundu er á landareigninni. Í sænska nefndarálitinu frá 17. desember 1910 er um þetta efni farið svo feldum orðum á bls. 161: „Því er haldið fram, að rennandi vatn geti auðveldlega verið háð eignarrjetti, að svo miklu leyti sem eignarrjetturinn þá að eins tekur til þess vatns, sem á hverri stundu er á ákveðnum stað í farveginum. Að vísu er það vatn að augnabliki liðnu runnið fram hjá, en þá eru aðrir vatnsdropar komnir í staðinn, en eins og áður er sagt, tekur eignarrjetturinn til þess vatns, sem á hverri stundu er á þeim stað í farveginum, sem um er að ræða. Það út af fyrir sig, að efnið, sem eignarrjetturinn tekur til, í sífellu endurnýjast, er því eigi til fyrirstöðu, að um eignarrjett sje að ræða.““

Þarna er vísað til Svía.

„Það er augljóst að deila má til dómsdags um þetta hreint theoretiska atriði, og það er því skiljanlegt, að hvorki Norðmenn nje Svíar hafa viljað byggja vatnalöggjöf sína á því, hvernig lögfræðingar hafa litið á það atriði, og hvernig sem íslenskir lögfræðingar nú kunna að líta á þetta, þá vill minnihlutinn benda á það, að hann hefir hjer að framan sýnt fram á, að frá landsnámstíð hefir verið litið á rjett landeiganda yfir vatni því, er rennr um land hans sem eignarrjett.

En annars er það í sjálfu sjer ekki aðalatriðið, hvað rjettur landeiganda yfir vatninu er kallaður, ef hann efti eðli sínu er jafn tryggur og nýtur að öllu leyti sömu verndar af löggjöf, rjettarvenju og rjettarmeðvitund sem eignarrjettur væri. Og undir öllum kringumstæðum er minnihlutinn í engum vafa um að svo sje.

Orðið eignarrjettur er ekki viðhaft í 2. gr. frumvarpsins, er hjer er greinilega tekið fram aðalinnihald rjettarins yfir vatninu, að rjetthafinn hefir öll umráð yfir því, getur selt það, veðsett, leigt, og hagnýtt sjer það til hvers, er vera skal, m.ö.o. ráðið yfir því á alla vegu eftir geðþótta þannig, að umráð annarra eru útilokuð, nema sjerstök heimild liggi fyrir, er takmarki yfirráð rjetthafa. Þetta telur minnihlutinn að sje einkenni og kjarni eignarrjettarins.“

Þetta segir minni hlutinn um þetta mál. Hann setur jafnframt fram tillögur og þær hafa verið í vatnalögunum frá upphafi, frá 1923. Það er mjög undarlegt að menn skuli núna leggjast í þann leiðangur í sölum Alþingis, eftir öll þessi ár, að fara gegn þeim niðurstöðum sem þessir menn komust að. Er hægt að halda því fram að við, sem viljum halda okkur við sömu skilgreiningu og varð niðurstaðan í vatnalögum frá 1923, séum að leggja til að tekin verði réttindi frá þeim mönnum sem hafa haft réttindi samkvæmt vatnalögum? Það er ekki aldeilis þannig. Það sem við viljum (BJJ: Voru þið ekki að tala um sameign þjóðarinnar?) er að skilgreiningin verði áfram eins og hún hefur verið. Ef hv. þingmaður hefur ekki tekið eftir því þá skal ég segja það einu sinni enn: Við viljum að skilgreiningin verði áfram eins og hún hefur verið.

Það er rétt sem sagt er í áliti fossanefndar, að þetta eru eiginlega trúarbrögð og teoretískt atriði hvað menn kalla þennan eignarrétt eða afnotarétt á vatninu, nýtingarrétt á vatninu. Hins vegar virðist menn hafa lagst í leiðangur sem þjónar þeim eina tilgangi að koma orðinu „eignarréttur“ inn í þessi lög. Fyrir það ætla menn að leggja á sig næstum hvað sem er. Framsóknarflokkurinn virðist hafa tekið þann poka á bak sér fyrir Sjálfstæðisflokkinn (Gripið fram í.) en í Sjálfstæðisflokknum hafa ráðið ríkjum á undanförnum árum menn sem hafa frjálshyggjuna að leiðarljósi. Framsóknarflokkurinn tekur á sig alls konar pinkla og fer í leiðangra fyrir menn sem virðast telja öllu máli skipta að koma eignarrétti fyrir á öllu sem hönd á festir í þessu samfélagi, einkaeignarrétti.

Fyrst ber að nefna fiskinn í sjónum, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur bókstaflega lagst í víking fyrir með þeim afleiðingum að ekki má synda munaðarlaust kvikindi í kringum landið, þ.e. að einhver eigi það ekki, að ekki sé hægt að halda því fram að einhver eigi það. Þetta hefur gengið svo langt að menn hafa stokkið til og sett kvóta og einkaeignarhald á fiskstofna og veiðirétt án þess að hafa sérstakan rökstuðning fyrir því. Án þess að hægt hafi verið að grípa til rökstuðnings af því tagi sem þó var áður gert, þ.e. að vernda þyrfti viðkomandi fiskstofna og nauðsyn á að setja á þá kvóta. Núna höfum við í sjávarútvegsnefnd frumvarp frá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Þar hafa menn ekki lengur áhyggjur af því að verja fiskstofnana. Nú verja menn eignarhald á veiðiréttinum hinum megin frá, þ.e. vegna þess að það hefur verið léleg rækjuveiði og lágt verð á rækju.

Það hefur gengið illa að reka rækjuverksmiðjur og verið ódýrara að flytja inn rækju til að vinna í verksmiðjunum en að veiða hana á Íslandsmiðum. Þeir sem eiga rækjukvótana hafa lent í að geta ekki veitt 50% af veiðiréttindum sínum annað hvert ár eins og lög standa til. Þá koma þeir til ríkisins og óska eftir að lögunum verði breytt svo þeir missi ekki veiðiréttinn samkvæmt lögunum. Þá hleypur hæstv. sjávarútvegsráðherra til og hv. þingmaður, formaður iðnaðarnefndar sem hefur með þetta mál að gera, hefur sjálfsagt samþykkt það. Stjórnarflokkarnir hafa a.m.k. samþykkt þetta frumvarp sem ráðherra lagði fram. Þeir hlaupa til og nú skal sett á sú regla, að vísu til nokkurra ára í bili, að menn þurfi ekki að veiða rækju til að halda veiðiréttindum sínum. Samt sem áður skal öðrum, sem hugsanlega mundu vilja veiða rækju, meinaður aðgangur að rækjumiðunum. (BJJ: Við erum að tala um vatnalög.) Við erum að tala um eignarhald á auðlindum.

Ég tel fulla ástæðu til að tala um allt sem heitir eignarhald á auðlindum undir þessari umræðu. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur gengist undir þann poka hjá Sjálfstæðisflokknum að vera í fyrirsvari fyrir því að koma á svokölluðu eignarhaldi á vatni, gera þá breytingu á eignarhaldi á vatni sem hér er lögð til. Það er bara hluti af hinni endalausu vegferð Sjálfstæðisflokksins sem felst í að ekkert í þessu samfélagi sé ekki eign einstaklinga eða fyrirtækja í landinu.

Það er ekki nóg að menn hafi rétt til að nýta vatn heldur verður það að heita eign. Þess vegna er þetta fremur skylt trúarbrögðum en að það skipti endilega máli. Við vitum það ekki en við vitum hins vegar að sá sem samdi frumvarpið telur þetta skipta máli. Við vitum að úr því að hann telur svo vera þá standast ekki röksemdirnar í frumvarpinu sjálfu, að í 1. gr. frumvarpsins sé einungis formbreyting sem sé á ferðinni. Þá eru menn ekki hreinskilnir þegar þeir hafa talað um það. Það er rangt ef við gefum okkur að sá sem samdi frumvarpið hafi talað hreinskilnislega við okkur í nefndinni. Menn eru bara að fela sig í reyk, eins og ég hef stundum sagt, ef þeir segja að þetta sé bara formbreyting. Ég vil ekki bera ábyrgð á því, í sölum Alþingis, að taka þátt í að breyta svo mikilvægu atriði sem eignarhaldi á vatni, án þess að vita hvaða áhrif það hefur í för með sér í framtíðinni.

Ég tel fulla ástæðu til að standa í pontunni, ræða þessi mál vítt og breitt og kalla eftir skoðunum stjórnarliða og þeirra sem bera ábyrgð á lagasetningunni sem við fjöllum hér um, að kalla eftir skoðunum þeirra (BJJ: Við þurfum þá að komast að.) með heildstæðum hætti. Það er nógur tími fram undan og kemur líka alltaf meiri tími. Hv. þingmaður þarf ekkert að kvarta yfir því. Vonandi á hann langa ævi eftir og getur staðið lengi við að útskýra mál sitt eftir að ég hef lokið mínu. Ég efast ekki um að hann gefi sér til þess tíma. En í þeim umræðum sem hafa farið fram um þessi mál, þótt til þess hafi gefist tími, hefur ekki verið hægt að fá botn í málin eða upplýsingar um hvað menn ætla sér. Við stjórnarandstæðingar verðum að ráða í hvað stjórnarliðar ætla sér.

Ég upplifði það sjálfur í dag. Ég spurði hæstv. iðnaðarráðherra um hvað hún ætlaði sér, hvort hún væri sátt við það sem biði hennar ef hún sæti áfram í þeim stól, að stimpla allar umsóknir manna um starfsleyfi fyrir iðjuver ef þeir hefðu mengunarkvóta í höndunum, þá mætti flytja hann endalaust inn til Íslands. Hæstv. ráðherra sneri út úr og svaraði engu um þetta. Hún sagði að ég gerði mér einhverjar hugmyndir um eitthvað sem enginn vissi hvort gerðist og gerðist örugglega aldrei, eða eitthvað svoleiðis. Ég hef það ekki orðrétt eftir hæstv. ráðherra, reyni það ekki. En mér fannst þetta meiningin í því sem hún sagði.

Þarna vantaði aldeilis á hreinskilnina sem þarf að vera til staðar. Við erum ekki að tala um smámál. Við erum að tala um hvort Íslendingar geti skrifað undir Kyoto-sáttmálann óbreyttan fyrir sína hönd og íslenska ákvæðið óbreytt eftir árið 2012. Manni finnst einhvern veginn eðlilegt að líta þannig á að að því eigi menn að stefna. Það getur vel verið að menn hafi mismunandi skoðanir á því en við höfum heyrt að ýmsir ráðherrar hafa haldið því fram að sækjast eigi eftir útvíkkun á íslenska ákvæðinu. Gott og vel. Ég hef aðra skoðun á því en mér fannst ég ekki eiga að þurfa að hafa skoðun á því að hægt væri að líta þannig á að íslenska ákvæðið yrði búið 2012 og þá mundu menn byrja upp á nýtt. Undirskriftin sem hefur verður í gildi fram til 2012 hefur þar með enga þýðingu. Menn mundu byrja upp á nýtt. Menn gætu þess vegna gengið þannig frá að 2 millj. tonna færu upp í loftið frá Íslandi árið 2013. Ráðherrar hafa lagt á sig undanfarið að halda því fram.

Hæstv. umhverfisráðherra sagði þó skýrt, við umræðuna í dag, að enginn vafi léki á því að menn ættu að nota meðaltal áranna sem þetta samkomulag hefur gilt. Menn áttu að nota meðaltalið. Til hvers skyldu menn ætla að nota meðaltalið? Það getur ekki verið í neinum öðrum tilgangi, vegna þess að það gengur ekkert upp öðruvísi, en þeim að halda opnum þeim möguleika að hægt verði að taka ákvarðanir um meiri framleiðslu á áli á Íslandi, sem búið væri að taka ákvörðun um eða setja af stað fyrir 2012. Það hefði í för með sér að framleiðsla á áli sendi mengun frá Íslandi sem yrði hærri en 1,6 millj. tonn eftir 2012. Þess vegna er full ástæða til að íslenskir ráðherrar svari þessu skýrt. Er það þetta sem þeir meina? Félagar okkar frá öðrum löndum sem koma að þessum alþjóðasamningum hljóta að verða svolítið skrýtnir á svipinn þegar Íslendingar líta ekki undirskrift sína merkilegri augum en svo að þeir vilji nota hundakúnstir til að lesa það sem stendur í samningnum með einhvers konar lögfræðigleraugum. Engum datt í hug að halda þessu fram fyrr en í haust. Þá var allt í einu kominn nýr skilningur.

Til hvers ættum við að gera þetta með sex ár eftir af þessu tímabili og við með fangið fullt? Væri ekki miklu nær að menn legðu af stað, þótt ég sé ekki sammála því, í að reyna að vinna þeim hugmyndum brautargengi að íslenska ákvæðið verði víkkað út og láti sér þann leiðangur nægja? (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Forseta leikur hugur á að vita hvort hv. þingmaður telur að hann eigi langt eftir af ræðu sinni.)

Hæstv. forseti. Það eru nokkrir kaflar í ræðu minni eftir sem ég hef ekki komist í vegna þess að mér hefur verið of mikið niðri fyrir í ýmsu því sem ég hef rætt um í dag. Ég á þess vegna nokkuð eftir af ræðu minni.

(Forseti (BÁ): Forseti biður hv. þingmann um að gera hlé á ræðu sinni. Forseti verður að fresta umræðunni til morguns enda var gert ráð fyrir að þingfundurinn mundi ekki standa lengur en fram undir kvöldmat í dag.)