132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Ástand Þjóðleikhússins.

533. mál
[13:26]
Hlusta

Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Frá æskuminningu minnist ég þess að á stríðsárunum voru sandpokar allt í kringum Þjóðleikhúsið. Ég minnist þess líka, skömmu eftir stríð, þegar Þjóðleikhúsið var opnað og hversu stoltur maður var að fara inn í þetta hús. Maður var gagntekinn af tilfinningu um hvað það væri stórkostlegt að upplifa þetta hús og manni sárnar því hvernig komið er fyrir Þjóðleikhúsinu í dag. Þess vegna hvet ég hæstv. menntamálaráðherra til að gera almennilega úttekt á þessum málum og framkvæma þá viðgerð sem nauðsynleg er.