132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Styrkir til sjávarútvegs.

414. mál
[13:53]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það eru margs konar ríkisstyrkir í gangi. Það er auðvitað svo að stofnanir á vegum ríkisins eins og Hafrannsóknastofnun og önnur starfsemi sem er tengd því að hægt sé að gera hér út er meira og minna kostuð af ríkissjóði. Útgerðin í landinu borgar einungis lítinn hluta af þeim kostnaði.

Veiðirétti er líka úthlutað með ýmsum hætti, t.d. vegna þess að einhver byggðarlög hafa farið illa út úr aflasamdrætti. Síðan er aðalaflaheimildunum í landinu úthlutað á þann veg að þau veita þeim forskot sem eru í útgerð gagnvart hinum sem vilja komast þar inn og gefa þeim möguleika á að selja aðgang að auðlindinni. Þarna eru gríðarlegir fjármunir á ferðinni og með því fyrirkomulagi hafa menn lokað greininni þannig að mjög óeðlilegt ástand er og í sjálfu sér er það gjörsamlega óverjandi fyrirkomulag sem ríkisvaldið hefur komið á í landinu.