132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Útræðisréttur strandjarða.

491. mál
[14:27]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér áður áttu stórbændur útræðið. Nú eiga sjóbændur útræðið. Rétturinn var tekinn af öllum öðrum. Hann var tekinn af þeim sem eiga sjávarjarðir en hann var líka tekin af þeim sem búa við ströndina og höfðu haft rétt til að stunda sjóinn í gegnum tíðina frá því að stórbændaveldinu var hnekkt á sínum tíma. Að stjórnvöld á Íslandi skyldu ekki gæta jafnræðis þegar þessu fiskveiðikerfi var komið á verður mönnum ævinlega til skammar í sölum Alþingis. Það er það sem vantar inn í þetta fiskveiðistjórnarkerfi, að koma á einhverju jafnræði til að nýta þessa auðlind og þá eiga þeir sem búa við ströndina, eiga sjávarjarðir og vilja nýta sjósóknina að fá að sitja við sama borð til að nýta hana, en ekki að búa við slíkt lokað einokunarkerfi sem lokar fyrir alla nýliðun eins og við búum núna við.