132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Losunarkvóti á gróðurhúsalofttegundir.

570. mál
[15:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. umhverfisráðherra um losunarkvóta á gróðurhúsalofttegundir og hvað líður því að hann verði reiknaður út fyrir þau álver sem eru í undirbúningi og einnig fyrir næsta losunartímabil eftir 2012 og hver stefna stjórnvalda sé, því þetta mál og þessi fyrirspurn snýst um stefnu stjórnvalda. Er það svo sem manni virðist raunin af að fylgjast með athöfnum stjórnvalda, að hæstv. iðnaðarráðherra sé að lofa stækkun álvera hér og þar á landinu og jafnvel fjölgun þeirra, eitt á Húsavík og jafnvel annað á Suðurnesjum, án þess að Umhverfisstofnun sé búin að reikna út hvort þetta standist alþjóðlegar skuldbindingar? Þetta er spurning sem hæstv. umhverfisráðherra verður að svara hér, hvort menn séu virkilega að æða áfram án þess að vita hverju þeir eru í rauninni að lofa. Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem Framsóknarflokkurinn væri að lofa einhverju sem hann getur ekki staðið við.

Ég man að fyrir sveitarstjórnarkosningar fyrir átta árum var lofað olíuhreinsunarstöð í Skagafirði sem ekkert varð úr. Það skiptir verulega miklu máli að menn fái á hreint hvort búið sé að reikna þetta. Ég hef það fyrir víst frá yfirmanni í Umhverfisstofnun að það sé búið og niðurstöður liggi í ráðuneytinu og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún ætli ekki að fara að birta þær. Ég gekk á eftir þeim áður en ég lagði fram þessa fyrirspurn, ég hafði samband við umhverfisráðuneytið og talaði þar við sérfræðing, Huga Ólafsson. Það komu ýmsar vöflur á hann þegar ég ætlaði að fá þessa útreikninga, þetta virtust vera einhver vinnuskjöl og ég fékk sendar einhverjar eldgamlar upplýsingar. Hvers vegna eru ekki uppi á borðinu þessi losunarmörk fyrir fyrirhuguð álver sem stjórnvöld eru að boða nánast í hverjum landshluta? Ég hefði talið að stjórnvöldum væri í lófa lagið að birta þetta og í rauninni er vafasamt að ekki skuli vera búið að því vegna þess að ef til vill er verið að vekja einhverjar vonir hjá fólki um álver eða einhverjar framkvæmdir víða um land en síðan þegar menn eru búnir að skoða útreikninga þá er kannski ekki innstæða fyrir slíku. Það verður mjög fróðlegt að heyra svör hæstv. umhverfisráðherra við þessari fyrirspurn vegna þess að ég hef það fyrir víst að þessir útreikningar liggi fyrir.