132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

NATO-þingið 2005.

585. mál
[19:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að mér öðru hvoru í ræðu sinni langar mig til að gjalda í líku. Ég fagna því að hv. þingmaður hafi átt hreinskilnislegar viðræður yfir hádegisverði með fulltrúum Pentagon og er þá væntanlega að vísa í fund í McNair-virkinu í Washington sem vísað er til í skýrslunni. Þar voru rædd samkvæmt skýrslunni ýmis málefni sem NATO hefur haft afskipti af, Íran, Afganistan, innrásin í Írak o.fl. Þetta verður mér allt umhugsunarefni þegar aðild Íslands að þessu hernaðarbandalagi er annars vegar.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns, jafnaðarmannsins Össurar Skarphéðinssonar, hvort hann telji það vera heppilegt fyrir Íslendinga að þróa þetta samstarf innan hernaðarbandalagsins NATO áfram. Þá hef ég einnig í huga þá breytingu sem orðið hefur á því bandalagi með auknum áhrifum Bandaríkjamanna innan bandalagsins. Annars vegar hef ég það í huga og hins vegar þá valkosti sem bjóðast. Við ræddum áðan, eða hér var öllu heldur kynnt skýrsla frá ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, sem einnig á grundvelli þingmannasamstarfs er miklu víðtækara samstarf en sem nemur því sem gerist á evrópskri grundu. Hvort hann telji ekki heppilegra að við beinum kröftum okkar inn á þann vettvang í stað þess að leggja þá rækt sem við gerum við samskiptin (Forseti hringir.) við hernaðarbandalagið NATO.