132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[10:31]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Því er haldið fram að spurningar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar séu málefnalegt innlegg í umræðuna. Það getur vel verið að svo sé, ég ætla ekki að leggja dóm á það. En er þá ekki eðlilegast að umræðan hefjist og hv. þingmaður komi þá því málefnalega innleggi á framfæri í umræðunni um frumvarpið og fái þá svör um það þar?

Talsvert hefur verið rætt að undanförnu um virðingu þingsins og komið fram mælingar í skoðanakönnunum um það. Ekki ætla ég að gera slíkum mælingum of hátt undir höfði en því hefur verið haldið fram hér í þingsölum í dag að málþóf sé í gangi eða í undirbúningi. Ekki vil ég nú ásaka hv. þingmenn um það en í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur um virðingu þingsins tel ég að við þurfum síst á því að halda að svo líti út gagnvart umheiminum að hér sé málþóf í gangi og að þingmenn séu að undirbúa sig undir að standa í slíku. Slíku vil ég ekki trúa á hv. þingmenn að þeir vilji að þannig sé horft til málanna.

Ég held líka að það sé mjög ómaklega sneitt að hæstv. forseta sem hefur lagt sig fram um að ná fram niðurstöðu í þessu máli þannig að bæði vilji meiri hlutans gangi eftir og minni hlutinn fái að koma fram sínum sjónarmiðum í umræðunni, eins og vera ber í lýðræðislegu þjóðfélagi. Ég held því að það sé skynsamlegast að við förum að ráðum forseta, hefjum umræðuna á málefnalegan hátt, þar verði svarað því málefnalega innleggi sem fyrir hendi er og síðan reynum við að ljúka umræðunni í friði og ganga til þess að greiða atkvæði.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefur greinilega eitthvað misskilið hvernig við leiðum mál til lykta hér á hv. Alþingi, það heyrist á ræðum hans í dag. Það er ekki þannig að menn eigi að liggja eftir dauðir, það gerist í einhverjum vopnaviðureignum. Hér á Alþingi leiðum við málin til lykta með atkvæðagreiðslu og þar þarf enginn að liggja dauður eftir.