132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:27]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða um fundarstjórn forseta. Ég verð að segja að ég get ekki áttað mig á hvað er athugavert við fundarstjórn forseta.

Það er rétt að rifja það upp um þetta mál að það hefur legið lengi fyrir iðnaðarnefnd þingsins. Það var mikil umræða um það á síðasta þingi og aftur núna á þessu þingi.

Ég vil halda því til haga, virðulegi forseti, að séð var til þess að allir þeir sem beðið var um af nefndarinnar hálfu að kæmu til nefndarinnar, komu til nefndarinnar. Fjöldi manna kom, mikill her sérfræðinga og lögspekinga og fór yfir þetta. Við kölluðum á alla, eða flesta þá lögmenn sem mest hafa tekið þátt í umræðu um eignarrétt og fórum í gegnum þetta. Lögmannafélagið skilaði mjög mikilli greinargerð um málið.

Þegar við lukum þessari umræðu var enginn ágreiningur um að taka málið út, eins og segir hér. Í iðnaðarnefnd var enginn ágreiningur um að umræðu þar væri lokið.

Það er rétt að halda því til haga, virðulegi forseti, að þau sjónarmið sem komu fram í nefndinni frá þingflokknum Vinstri grænum voru mjög skýr. (Gripið fram í.) Eða Vinstra grænt framboð, ég biðst afsökunar, virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Þeirra sjónarmið komu mjög skýrt fram. Við sem höfum verið hér á þinginu nokkuð lengi þekkjum þau öllsömul, virðulegi forseti. Það er þessi 100 ára gamla tímaskekkja. Þeir eru sósíalistar og vilja þjóðnýta hlutina. Það var alveg skýrt. Það fór ekkert á milli mála.

Hins vegar verð ég líka að segja, virðulegi forseti, að mér var aldrei ljóst, og er það ekki ljóst enn þá, í hverju ágreiningur okkar, þ.e. þingmanna stjórnarinnar, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, var fólginn. Ég hef bara ekki náð því enn. Mér er það alveg hulin ráðgáta hvers vegna við erum að deila um þessa hluti, við þessa aðila. Ég skil það ekki og það verður að vera þannig. Ég skal, virðulegi forseti, leggja mig fram um að hlusta á hv. þm. Jóhann Ársælsson í nokkra klukkutíma í viðbót. En ég er alveg viss um að ég mun ekki nálgast skilninginn á sjónarmiðum hans með því.

Það er rétt að menn geri sér grein fyrir að þetta er komið hér til þingsins vegna þess að umræðu í nefndinni var lokið, ágreiningslaust. Það er rangt sem hefur komið fram, virðulegi forseti, að ég hafi látið liggja að því að mér finnist óeðlilegt að stjórnarandstaðan hafi hér uppi málflutning. Ég hef einmitt sagt að mér finnst það eðlilegt að þeir eyði í það jafnmiklum tíma og þeir telja rétt. Hvort sem menn verða í þessari umræðu fram að páskum eða lengur, þá er það bara eðlilegt. Þeir kjósa (Forseti hringir.) það og við tökum því.