132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Breytingar í nýjum vatnalögum.

[11:06]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er náttúrlega um makalausar dylgjur að ræða af hálfu hv. þm. Ögmundar Jónassonar og í raun og veru staðfestir sá málflutningur sem hv. þingmaður viðhafði hér úr ræðustól Alþingis málefnafátækt stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Það er ósköp eðlilegt að hv. stjórnarandstaða hafi verið dálítið uggandi eftir sex-fréttirnar í gær þar sem Karl Axelsson, einn virtasti sérfræðingur á sviði eignarréttar í landinu, kom fram (Gripið fram í.) og færði rök fyrir sínu máli. (ÖJ: Höfundur frumvarpsins.) Við hv. þingmenn höfum vitnað hér í alla helstu sérfræðinga á sviði eignarréttar 20. aldarinnar, Ólaf Lárusson, Þorgeir Örlygsson, við höfum vitnað í Ólaf Jóhannesson og Sigurð Líndal. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa ekki getað vitnað í sérfræðinga á sviði eignarréttar á 20. öldinni. (ÖJ: Við höfum vitnað í Ólaf Jóhannesson, Bjarna Benediktsson.)

Það sem má marka af málflutningi hv. stjórnarandstöðu — við höfum farið fram á það í umræðum hér á Alþingi að stjórnarandstaðan rökstyðji málflutning sinn. Rannsóknir og fræðigreinar þessara fræðimanna staðfesta þá túlkun okkar í stjórnarliðinu að hér sé um formbreytingu að ræða en ekki efnisbreytingu. (Gripið fram í.) Það er alveg sama hvað hv. stjórnarandstæðingar tala í þessu máli. Fræðimennirnir hafa fellt sinn dóm hvað þetta varðar.

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en sagt það þegar hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar tala um að hér liggi mikið á að það er margsinnis búið að leggja þetta mál fyrir þingið. Það er búið að vinna að þessu máli meðal þessara fræðimanna frá árinu 2001. Nú er árið 2006, hæstv. forseti, þannig að það er búið að vinna mjög gaumgæfilega að þessu máli og allur málflutningur stjórnarandstöðunnar hér hefur einkennst af málþófi þar sem hv. þingmenn hafa lesið upp ljóð, farið yfir sögu heilu stjórnmálaflokkanna á 20. öldinni sem kemur þessu máli hreint ekki neitt við. Hæstv. forseti. Við skulum virða Alþingi og bera þá virðingu fyrir Alþingi að umræða um vatnalög skuli vera málefnaleg hér eftir en ekki einkennast af málþófi eins og hefur einkennt alla umræðu af hálfu hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar.