132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[11:54]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Þetta var afar athyglisverð ræða um fundarstjórn forseta og örugglega til þess fallin að efla virðingu fólks fyrir hinu háa Alþingi.

Frú forseti. Ég legg til að þessum fundi verði nú slitið. Það er greinilegt að þetta mál er farið að hafa slík áhrif á störf þingsins að það er alls ekki til bóta. Ofurkapp hæstv. iðnaðarráðherra og jafnvel hæstv. forsætisráðherra einnig á að þröngva þessu máli hér í gegnum þingið hefur komið berlega í ljós.

Í umræðum í gær, frú forseti, komu nokkrir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hér upp og töldu að það væri nú ekki mikið mál að mæta hér á föstudegi, laugardegi, alla helgina jafnvel til að ræða þetta mál og við skyldum bara ræða það sem mest. Þeir höfðu varla sleppt orðinu, þessir þingmenn, þegar þeir sjálfir hlupu auðvitað úr þinghúsinu. Ég er hér með útprent af stimpilklukku þingsins. Það er tekið kl. 15:13 í gær. Hér sést að aðeins einn þingmaður stjórnarflokkanna var viðstaddur umræðuna. Það var hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður iðnaðarnefndar. Allir hinir þingmenn stjórnarflokkanna voru merktir bláir með fjarveru. (Gripið fram í.) Hvaða vitleysa? Ég er með þetta hérna skjalfest. Hérna er þetta. Þetta er nú áhugi hv. þingmanna sem sögðu að það væri nú alveg sjálfsagt mál að taka þessa umræðu bara hérna.

Er þetta lýðræði? Er það skilningur stjórnarmeirihlutans að lýðræði felist í því að leyfa stjórnarandstöðunni að tala og tala en hlusta ekki á hana, taka ekki orð mark á því sem við höfum að segja vegna þess að þeir eru búnir að ákveða sig og það skipta engin rök máli lengur? Það á bara að vaða áfram, leyfa stjórnarandstöðunni að tala en, auðvitað ekki að taka orð mark á henni, loka eyrunum, fara heim, fara á einhverja aðra fundi.

Ég vil minna á að hæstv. forseti sagði hér í gær að þingfundir hefðu forgang á aðra fundi. Þingmenn stjórnarflokkanna taka ekki mark á þessum orðum hæstv. forseta og það þykir mér mjög miður.