132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:15]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að reyna að ræða hér um fundarstjórn forseta. En bið forseta samt velvirðingar á því að þótt ég ætli að ræða hér fyrst og fremst um formið þá verður form og inntak ekki alltaf svo auðveldlega aðskilið, eins og við sjáum annars vel í frumvarpi til vatnalaga.

Því hefur verið haldið fram af stjórnarliðunum að hér sé einvörðungu um formbreytingu að ræða en enga efnisbreytingu. Við sem erum í stjórnarandstöðunni erum sannfærð um og sjáum það á orðanna hljóðan í þessu frumvarpi að það er verið að færa nýtingarrétt yfir í lögformlegan eignarrétt. Það er verið að lögbinda einkaeignarréttinn á vatni og stjórnarliðar segja að með þessu sé verið að færa þetta til samræmis við réttarþróun sem verið hafi hér síðan 1923.

Það kann vel að vera að réttarþróunin hafi verið í þessa veru á undanförnum árum. En við erum pólitískt ósammála því og við tökumst á um málið pólitískt hér á þingi rétt eins og menn gerðu 1923. Það er auðvitað okkar hér að ákveða hvað við viljum festa í lög af þessum hlutum.

Ef þetta frumvarp nær fram að ganga þá er farið úr jákvæðri skilgreiningu á eignarrétti yfir í neikvæða. Það er ekki bara formbreyting. Það er efnisbreyting og lýtur ekki síst að framtíðinni. Við þurfum kannski ekki að hafa allar áhyggjur af því í dag en það er framtíðin sem við erum að hugsa um í þessu sambandi.

En telji stjórnarliðar nú að á þessu sé bitamunur en ekki fjár þá er auðvitað algjörlega útlátalaust af þeirra hálfu að koma til móts við stjórnarandstöðuna í þessu máli. Hér hefur heyrst nokkur sáttatónn í ýmsum stjórnarliðum í þinginu í dag, m.a. í formanni og varaformanni iðnaðarnefndar. Ég vil því leggja það til við hæstv. forseta að hún beiti sér fyrir því að kalla saman forustu stjórnmálaflokkanna hér á þingi til að ræða hvort ekki megi halda í þá skilgreiningu sem nú er í vatnalögum. Gera ekki þessa breytingu sem stjórnarliðar segja hvort eð er að sé bara formbreyting en ekki efnisbreyting. Það er ekki þar með sagt að við næðum endilega saman um þetta frumvarp. En ég er sannfærð um að það mundi liðka fyrir þingstörfum ef menn gætu brotið þar odd af oflæti sínu og komið þarna til móts við stjórnarandstöðuna.

Ég hvet því forseta til að beita sér fyrir þessu.