132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Íbúðalánasjóður.

[13:50]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Mér finnst þær upplýsingar sem hér hafa komið fram töluverð tíðindi og verð að segja að mér finnst sá málflutningur sem stjórnarandstaðan hefur haft í frammi í vatnalagamálinu verða æðiótrúverðugur þegar upplýsingar af þessu tagi eru lagðar fram. Mér finnst raunar að allur málflutningur stjórnarandstöðunnar hafi verið með nokkrum ólíkindum í þessu máli vegna þess að einkum er byggt á misskilningi á núgildandi réttarstöðu og síðan rangtúlkunum á því sem fram kemur í lagatextanum. Það er því kannski ekki að furða að þessi flötur verði nokkuð einkennilegur líka.

Varðandi hitt málið sem er til umræðu þá held ég að allir hljóti að átta sig á því að umhverfið á húsnæðislánamarkaði hefur gerbreyst á tiltölulega fáum missirum. Hér hafa orðið gerbreytingar á aðkomu banka og annarra lánastofnana að þessum markaði og það hlýtur að kalla á endurskoðun á Íbúðalánasjóði sem til þessa hefur verið helsti aðilinn. Nú eru nýir aðilar komnir inn og auðvitað er eðlilegt að hlutverk og starfshættir Íbúðalánasjóðs séu endurskoðaðir í því ljósi. Ekki er hægt að láta eins og ekkert hafi gerst. Þegar menn velta fyrir sér hver framtíðin á að vera þá er það nokkuð ljóst í mínum huga að ástæðulaust sé fyrir okkur að hafa til frambúðar ríkisbanka sem rekur almenna lánastarfsemi á þessu sviði.

Hins vegar geta menn velt því fyrir sér hvernig hægt er að mæta kröfum um að komið sé til móts við þá hópa sem ekki passa inn í almenna húsnæðislánakerfið með sama hætti og þorri íbúðalántakenda gerir. Ég þykist vita að það sé á þeim nótum sem vinna af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra fer fram (Forseti hringir.) að þessu leyti.