132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:21]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að verið væri að einkavæða þessa auðlind. Nú skulum við hugsa okkur jörð og bónda. Hver fær einkarétt á því vatni sem er á jörðinni hans annar en hann sjálfur? Er það ég sem fæ einkarétt á vatninu á jörðinni hans? Ónei, það er hann sjálfur að sjálfsögðu sem eigandi jarðarinnar, þessi ákveðni bóndi. Ef þetta væri einkavæðing, sem ég er ekki sammála þar sem ég held að aðeins sé um formbreytingu að ræða, eins og hv. þingmaður segir, þá þýddi það að viðkomandi bóndi eignaðist vatnið, að gefnu því sem hv. þingmaður sagði, að þetta sé einkavæðing. Það er enginn annar sem eignast það.