132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[17:19]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, spurði mig ekki neinnar spurningar en hann minntist á að ég hefði skammast hér mikið yfir bændum. Ég sagði í ræðu minni að auðvitað bæri okkur að virða gamla siði og gamlar hefðir en var þó fyrst og fremst að benda á þann möguleika að með breytingu á 27. gr. frumvarpsins gætum við skapað umhverfi í atvinnulífinu sem er þessu vatnasvæði lífsnauðsyn.

Ég er líka alveg viss um að þó að netaveiði yrði bönnuð fengju þeir góðu bændur sem enn stunda netaveiðibúskap á þessu tiltekna vatnasvæði önnur tækifæri. Ég hvet hæstv. landbúnaðarráðherra til að lesa grein eftir Harald Eiríksson sem er kunnur stangveiðimaður. Greinina er að finna á vefsíðu Stangveiðifélags Reykjavíkur en þar er tíundað hve mikið stangveiði í jökulánum sjálfum gefur af sér umfram netaveiðina. Það er jú líka hægt að byggja upp ferðaþjónustutengda stangveiði (Forseti hringir.) í íslenskum jökulám rétt eins og í bergvatnsám.