132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[17:33]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir margt sem kom fram í ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. En ég vil kannski líka nefna að það kemur nú stundum fyrir hér á Alþingi Íslendinga að upp koma mál sem skarast á allar flokkslínur. Ég held að þetta mál, sérstaklega sá fyrirvari sem ég set á 27. gr. og 27. gr. öll eins og hún leggur sig, geti orðið bitbein og muni skarast á allar flokkslínur.

Í þinginu liggur fyrir frumvarp frá heilbrigðisráðherra um algert bann við reykingum á veitingastöðum, skemmtistöðum. Ólíkar raddir berast úr öllum áttum hvað það mál varðar, líka frá Samfylkingunni. Ég held einfaldlega að þetta sé eitt af þeim málum sem verður mjög spennandi í meðförum þingsins og sjálfur bíð ég spenntur, rétt eins og 60 þúsund stangveiðimenn í þessu landi, eftir því hver niðurstaðan verður við atkvæðagreiðslu á breytingartillögu minni (Forseti hringir.) eftir nokkra daga eða vikur.