132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[17:35]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um lax- og silungsveiði sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur mælt fyrir. Ég mun ekki að þessu sinni fara ítarlega í gegnum allt frumvarpið og forsendur þess þar sem málið kemur til hv. landbúnaðarnefndar og ég á sæti þar. Þar verður að sjálfsögðu farið nánar ofan í einstaka þætti. Það eru þó örfá atriði sem ég vildi koma á framfæri.

Þetta frumvarp til laga er um margt vel unnið, finnst mér, bæði hvað varðar einstakar greinar þess og einnig hvað varðar fylgiskjöl og annað. Það er sjálfsagt að taka það fram þó að síðan séu einstök atriði í frumvarpinu sem ég geri athugasemdir við eða vildi hafa öðruvísi.

Í 1. gr. frumvarpsins, sem lýtur að markmiði þess, segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að kveða á um eignarhald veiðiréttar í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra.“

Við eigum því ekki að venjast að í frumvörpum frá ríkisstjórninni sé minnst á verndun náttúruauðlinda, það er miklu síður að það orð heyrist. Þess vegna er hún þó virðingarverð viðleitnin í þessu frumvarpi, að taka fram í 1. mgr. verndun þessarar auðlindar, og væri betur ef fleiri hæstv. ráðherrar, sem leggja fram frumvörp sem lúta að svo veigamiklum þáttum í líf- og vistkerfi landsins, gerðu slíkt hið sama.

Ég hefði þó kosið að í 1. gr. yrðu ákveðin atriði dregin fram. Ekki er eingöngu um nýtingu að ræða, heldur líka umgengni og, eins og hér er kveðið á um, verndun þeirrar auðlindar sem er fiskur í ám og vötnum. Við erum aðilar að samþykktum um sjálfbæra þróun og ef það hugtak á einhvers staðar við hvað varðar umgengni, meðferð, nýtingu og verndun auðlindar þá er það hér. Það mundi því styrkja grunn þessara laga ef í þeim kæmi fram yfirlýsing um að gengið yrði um þessa auðlind á þann veg að hún lyti lögmálum um sjálfbæra þróun. Ég legg til að það verði skoðað að það komi hér inn í upphafsgrein laganna.

Vatnalíf er mjög fjölbreytilegt. Mismunandi erfðastofnar laxa eru í ám á landinu og jafnvel innan vatnasvæða geta verið mismunandi erfðastofnar vatnafiska, hvort sem það er lax eða silungur, urriði, bleikja eða hvað. Því er þarna á ferðinni gríðarleg erfðafræðileg og líffræðileg fjölbreytni sem okkur ber skylda til að standa vörð um. Við erum aðilar að alþjóðlegum samningi um líffræðilega fjölbreytni og sá samningur sem gerður var á sínum tíma, — ætli það séu ekki komin ein tíu ár síðan — samningur sem gerður var í Ríó um aðild okkar að verndun líffræðilegs fjölbreytileika, ætti einmitt að vera hér. Þessa auðlind, þetta lífríki eigum við að umgangast samkvæmt þeim samningi, þ.e. að vernda líffræðilegan fjölbreytileika vatnafiska. Það finnst mér að ætti að koma fram í upphafsgreinum þessara laga og í skilgreiningunum ætti að koma fram skilgreining á sjálfbærri þróun og skilgreining á líffræðilegum fjölbreytileika sem við höfum skuldbundið okkur til að standa vörð um.

Ég tel að það fari vel á því, og mundi fylla enn betur anda þessa frumvarps um lax- og silungsveiði, að í þessum lagabálki yrði þetta í fyrsta sinn, að því er mér er kunnugt, tekið upp — ekki fær umhverfið, umhverfisrétturinn og náttúran svo oft að njóta sín í lagafrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Það væri því mjög ánægjulegt ef við fengjum að sjá það hér og ég legg það alveg eindregið til.

Það er líka mjög athyglisvert að lesa hér um veiðiréttinn og ég vil taka undir þá skilgreiningu sem mér sýnist vera þar, þ.e. að það sé í sjálfu sér ekki eignarhaldið á fiskauðlindinni sem slíkri sem verið er að fjalla um heldur skilgreindur nýtingarréttur, og lögin kveða nánar á um það hvernig hann er skilgreindur og með er farið. Hér er því fyrst og fremst verið að tala um veiðirétt, þveröfugt við það sem við ræddum þegar við vorum að tala um vatnalögin þar sem verið var að tala um eignarrétt, sem við vorum náttúrlega andvíg.

Sömuleiðis er kveðið á um hvernig skuli fara með þann veiðirétt, bæði hvort og með hvaða hætti megi skilja hann frá fasteign. Um það gilda mjög ströng ákvæði og hin almenna regla er sú að veiðiréttur eigi að fylgja viðkomandi landareign. Það þarf því verulega sterkar heimildir til þess að taka veiðiréttinn undan ákveðinni landareign og þarf lögformlegan gjörning. Það er því staðinn vörður um að veiðirétturinn fylgi landinu og megi ekki skilja þar frá. Þetta tel ég líka vera rétt og vara við því að þessi réttindi verði skert.

Það er líka ástæða til að staldra við ákvæði sem lúta að réttindum eða heimild til mannvirkjagerðar en í V. kafla er fjallað um fiskvegi og aðra mannvirkjagerð í og við veiðivötn. Þar er ítarlega farið yfir það hvernig þarf að vinna forvinnu áður en veitt er heimild til mannvirkjagerðar í veiðivötnum eða til að breyta eða hafa áhrif á fiskvegi, þ.e. ár og læki sem fiskur getur gengið um. Þetta tel ég líka afar mikilvægt og við erum seint nægilega á verði í þessum efnum. Þá er líka rétt að minnast á að um er að ræða gerólíka nálgun frá því sem er í nýafgreiddum vatnalögum. Í þeim lagabálki sem iðnaðarráðherra keyrði í gegnum þingið var litið á vatnið sem dautt, sem iðnaðarvöru, og fyrst og fremst átti að vita hvernig hægt væri að nýta það til iðnaðar eða virkjana. En auðvitað eru það sömu farvegirnir sem verið er að fjalla um í þessum lögum.

Ég segi fyrir mitt leyti, frú forseti, að ég treysti hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústssyni, betur en iðnaðarráðherra fyrir því að standa vörð um lífríkið í veiðivötnum og ám og lækjum og vera á varðbergi gagnvart mannvirkjagerð sem getur spillt því lífríki. Ég vil taka það fram hér að heldur vil ég sjá þau mál í höndum og umsjá landbúnaðarráðuneytisins og landbúnaðarráðherra.

Að mörgu er að huga. Á undanförnum árum hefur t.d. tilhögun við ræsa- og brúargerð í vegaframkvæmdum verið breytt. Verið er að hverfa frá því að búa til þessar steyptu brýr sem hleyptu vatninu óhindrað í gegnum sig yfir í að setja þröng ræsi sem takmarka þá gjarnan bæði vatnsstreymi og einnig líka flutning lífs á milli vatnasvæða. Rannsóknir á þessu sviði hófust nú í fyrra í samstarfi Veiðimálastofnunar á Norðurlandi og Vegagerðarinnar. Þá kemur í ljós að í allt of mörgum tilvikum eru heilu lífríkin skorin í sundur við vegagerð. Það eitt að ræsi í gegnum veg stendur í halla og stendur út úr farveginum hindrar að nokkurt líf berist upp eftir árfarvegunum. Nú er verið að setja umfangsmiklar rannsóknir í gang til að kanna hvaða tjón hefur þegar verið unnið á lífríki vatnasvæða, stórra vatnasvæða, hvað þetta varðar og hvernig megi fyrirbyggja það. Í þeim rannsóknum er gott samstarf á milli Vegagerðarinnar og Veiðimálastofnunar. Ef við sæjum þessi mál undir iðnaðarráðuneytinu dreg ég í efa að mikið yrði hugað að því.

Ég var að horfa á greinar sem lúta að V. kafla laganna, sem fjallar um fiskvegi og aðra mannvirkjagerð í og við veiðivötn. Ef eitthvað er þyrfti að skerpa á eftirliti og rannsóknum á áhrifum mannvirkjagerðar á þessi veiðivötn frekar en slaka þar á. Ég get svo sem nefnt dæmi, af því ég er kunnugur því: Við umhverfismat á virkjunum norður í Skagafirði, Villinganesvirkjun, sem vonandi verður aldrei gerð, var ekkert rannsakað, eða að minnsta kosti afar takmarkað, hvaða áhrif stíflan hefði á lífríki neðan virkjunarinnar að ég tali nú ekki um út til ósanna. Ég hygg að svo sé víðar. Ég legg áherslu á að þessir þættir séu mjög vel gaumgæfðir hér.

Það hefur komið fram í umræðunum að kaflinn um Fiskræktarsjóð í núgildandi lögum um lax- og silungsveiði stendur óbreyttur, kemur ekki inn í þessa endurskoðun. Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að um hann sé nokkur ágreiningur. Ég vil leggja þunga áherslu á að tekjustofnar Fiskræktarsjóðs verði ekki skertir. Það á alveg skilyrðislaust að skylda þá sem fá heimild til að breyta vatnsfarvegum og vatnsföllum, t.d. með virkjunum eða öðru slíku, til að greiða fjármagn til rannsókna og þróunarstarfs og eftirlits með vatnavistkerfi landsins.

Þetta er gert með öðrum siðuðum þjóðum. Tökum sem dæmi Norðmenn, Svía, eins og hæstv. landbúnaðarráðherra minntist á, og gott ef ekki Skota. Hví skyldum við ekki fylgja þessum þjóðum eftir í þeim efnum að bera svo mikla virðingu og umhyggju fyrir náttúrunni og auðlindum hennar og hinu dínamíska lífkerfi að ef gripið er þar inn í sé sjálfsagt að sá aðili sem það fær að gera greiði þar til? Ég tel því að það eigi að standa á bak við Fiskræktarsjóð og kröfur um greiðslur í hann, af hálfu t.d. virkjunaraðila, svo að greitt verði í hann refjalaust og hann efldur og styrktur til að takast á við þau miklu rannsóknar- og þróunarverkefni sem okkur ber skylda til að standa að?

Hér hefur verið rætt um netaveiði og aðra slíka þætti. Það er mjög eðlilegt að tekist sé á um hin ýmsu nýtingarform og þau séu rædd. Það er alveg sjálfsagt að meta öll þau rök sem þar koma fram varðandi takmörkun á netaveiðum og hvernig þeim málum verði fyrir komið. Best er að allt slíkt gangi fram með samningum hlutaðeigandi aðila. Að því má að einhverju leyti koma með opinberum hætti til að liðka fyrir að slíkir samningar náist en þegar um er að véla nýtingarrétt sem snertir marga aðila þarf það að ganga fyrir samningum og ég held að það eigi að vera megininntak okkar nálgunar hvað þetta varðar. Það er grundvallaratriði, eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, að við eigum að umgangast þessa auðlind samkvæmt lögmálum um sjálfbæra þróun. Við eigum að virða ákvarðanir um líffræðilegan fjölbreytileika á vatnasvæðum. Þetta er sá grunnur sem allir veiðimenn verða að fella sig undir, hvort sem þeir veiða í net eða á stöng.

Skýrslan sem var unnin af Hagfræðistofnun háskólans, Um lax- og silungsveiði á Íslandi, efnahagsleg áhrif og líffræðileg staða auðlindarinnar, er mjög góð og lax- og silungsveiðimenn og þeir sem þá auðlind umgangast hafa í henni sterk rök á hendi. Þar eru nefndir gríðarlega fjölbreyttir möguleikar á tekjum til samfélagsins í gegnum veiði, nýtingu og meðferð þessarar auðlindar, að ógleymdum þeim verðmætum sem felast í því að að njóta ánna og vatnanna á margvíslegan hátt.

Hæstv. ráðherra nefndi að 7, 8 eða 9 milljarðar kr. kæmu með beinum eða óbeinum hætti inn í kringum veiði, nýtingu og meðferð á vötnum og ám. Hver einasta króna er 100% þjóðhagslega hagkvæm, þ.e. við flytjum ekki mikið inn til að skapa þennan auð. Það má segja að þetta sé 100% sjálfbær tekjuöflun. Nákvæmlega. Ekki er hægt að segja það sama um álið, frú forseti, af því við horfumst í augu, ég og hv. formaður landbúnaðarnefndar, Drífa Hjartardóttir. Þegar álið er annars vegar eru menn að tala um að innan við 30% af brúttóútflutningsverðmætinu séu innlend verðmætasköpun, hitt sé allt erlent. Þannig að þetta er alveg gjörólíkt.

Frú forseti. Í lok ræðu minnar vil ég enn á ný hæla þessu frumvarpi þó á því séu náttúrlega einhverjir annmarkar, eitthvað sem þarf að skoða betur. Ég legg áherslu á það sem ég sagði í byrjun: Mér finnst að í upphafskafla þessa frumvarps eigi að geta þess að auðlindin lúti lögmálum sjálfbærrar þróunar og samningum okkar um líffræðilega (Forseti hringir.) fjölbreytni.