132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[17:55]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta frumvarp til laga um lax- og silungsveiði en sé mig þó knúinn til að koma hingað upp til að benda á nokkur atriði sem ég óska eftir að hv. landbúnaðarnefnd taki til skoðunar.

Ég vil þó byrja á því áður en ég kem að þessum atriðum að hrósa þeim sem að þessu frumvarpi hafa unnið. Ég tel að það sé að efni til mjög vandað og að sama skapi verð ég að segja að þær upplýsingar sem fylgja eru efnismiklar og mjög fróðlegar. Eiga hæstv. landbúnaðarráðherra og þeir sem að þessari frumvarpssmíð hafa komið hrós skilið fyrir að leggja öll þessi gögn fram fyrir okkur sem sitjum hér á hinu háa Alþingi til upplýsingar.

Fyrra atriðið sem ég vil gera hér að umræðuefni er 27. gr. frumvarpsins, sem hefur verið til töluverðrar umræðu ekki bara á hinu háa Alþingi heldur líka úti í þjóðfélaginu. Það er spurning um netaveiði í straumvatni. Í 1. mgr. 27. gr. segir að í straumvatni megi við veiðar aðeins nota færi, stöng, lagnet og króknet. Um þessa heimild til netaveiða í straumvatni hafa verið miklar deilur. Þær hafa líka komið upp í umræðum um frumvarpið hér í dag. En eins og við vitum hafa menn skipst á skoðunum varðandi þetta lengi og kannski skipst í tvær fylkingar. Þar hafa skipst á skoðunum annars vegar veiðiréttarhafar, sem stunda netaveiðina, og hins vegar stangveiðimenn.

Það hefur verið upplýst í þessari umræðu, og það er í sjálfu sér mjög athyglisvert, að tekjur af hverjum veiddum fiski eru miklu, miklu hærri þegar fiskurinn er veiddur á stöng en þegar hann hefur verið veiddur í net. Ég er, svo það komi fram, þeirrar skoðunar að menn eigi að taka netin upp. Það hefur verið mín skoðun allt frá því að ég fór að fylgjast með þessum málum að menn ættu að taka netin upp úr ánum. Ég skil ekki hvers vegna landeigendur og veiðiréttarhafar hafa ekki ráðist í þá aðgerð að taka netin upp. Það er augljóslega miklum mun hagkvæmara að stunda stangveiði en netaveiði. Mér er þó kunnugt um að það eru ákveðnar ár sem eru þannig úr garði gerðar að þar verður ekki stunduð stangveiði. Það gildir kannski annað um þær ár en önnur vatnasvæði.

Menn hafa nefnt það hér í umræðunni hvort ástæða sé til þess að banna netaveiði. Ég hef nú verið þeirrar skoðunar að langskynsamlegasta leiðin í þessu sambandi sé að þessi ágreiningur sé leiddur í jörð með því að menn nái samningum. Það hefur tekist á Vesturlandi en ekki að sama skapi á Suðurlandi. Auðvitað væri það ósk manns að samningar næðust um að taka upp netin og að veiðiréttarhöfum yrði þá greitt fyrir upptöku þeirra. Ég vona nú að staðan sé ekki þannig að veiðiréttarhafar séu að — ja, hvað eigum við að segja — nýta sér stöðu sína í samningum við þá sem vilja kaupa netin upp, þ.e. að reyna að hækka verðið á þessum hagsmunum umfram það sem eðlilegt má telja.

Menn hafa fyrst og fremst nefnt, og það er nú kannski það atriði sem mig langar til þess að beina til hv. landbúnaðarnefndar, tvær leiðir varðandi það að ná netum upp úr ánum, sem ég tel að sé skynsamlegt að gert verði, þ.e. ef samningar nást ekki. Það er annars vegar að líta á slíkt sem eðlilega veiðarfærastýringu rétt eins og gerist og gengur í öðrum greinum eða við veiðar á öðrum stöðum, þ.e. úti í sjó. Ef lögspekingar mundu líta þannig á að eðli slíkrar veiðarfærastýringar í ám væri ekkert öðruvísi en í sjó þá er spurningin, og við þurfum að fá því svarað, hvort slíkt kynni að leiða til bóta fyrir landeigendur sem eiga veiðirétt.

Ég er ekkert viss um að slíkt mundi leiða til skaðabóta ef litið yrði á slíkar aðgerðir sem venjulega veiðarfærastýringu. Slík reglusetning eða lagasetning yrði almenn og tæki til allra auk þess sem vandséð væri að slíkt mundi endilega hafa í för með sér tjón fyrir þá sem í hlut eiga. En ég mundi frekar telja að ef menn vildu fara þá leið að ná netunum upp með löggjöf þá vöknuðu upp spurningar um greiðslu skaðabóta til þeirra sem í hlut eiga. Ég held að það sé rétt hjá hæstv. landbúnaðarráðherra að veiðiréttur landeigenda hefur verið talinn til eignarréttinda þeirra sem ekki verða tekin af þeim bótalaust. Við höfum í 72. grein stjórnarskrárinnar ákvæði sem kveður á um friðhelgi eignarréttarins og hann verði ekki skertur nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum og þá þannig að fullar bætur komi fyrir.

Ef menn vilja fara þessa leið og telja hana mögulega þá tel ég að hv. landbúnaðarnefnd verði að fá upplýsingar um það við vinnslu málsins í nefndinni hversu háar fjárhæðir við værum að tala um í því sambandi. Ég hef rætt við einhverja aðila sem hafa látið sig þessi mál varða og eiga hagsmuna að gæta og það verður að segjast eins og er að sjónarmið þeirra eru eins og svart og hvítt. Þeir sem eiga þessi réttindi, réttinn til þess að veiða í net, telja að verði niðurstaðan sú að netaveiði verði bönnuð mundi slíkt leiða til mjög ríkrar skaðabótaskyldu fyrir þá sem það gera. Svo eru hinir sem hafa hagsmuni af því að netaveiðin verði bönnuð og telja að slíkar bætur þyrftu ekki að vera svo háar og hafa bent í því sambandi á að tekjur veiðiréttarhafa af netaveiðinni séu býsna lágar. Þetta eru auðvitað sjónarmið sem þarf að skoða og við þurfum að fá einhverja hlutlausa aðila til þess að vega það og meta hversu háar slíkar bætur yrðu ef gripið yrði til þessara aðgerða.

Við mat á skaðabótum vegna eignarnáms hljóta menn að líta til þess tjóns sem viðkomandi, sem eignarnámið beinist að, yrði fyrir. Ef skoðaðar eru veiðitölur og verðmæti þess afla sem kemur á land á grundvelli netaveiði þá erum við ekki að tala þar um háar tölur. Ég held að það sé alveg ljóst og í sumum tilvikum er það þannig að þeir landeigendur sem veiða í net hafa líka þann kost að stunda stangveiði í ám sínum og geta þá a.m.k. takmarkað tjón sitt með því að taka upp stangveiðar í staðinn fyrir netaveiðar. Það er því ekkert víst, það er a.m.k. ekki gefið, að verði netin tekin upp muni þessir aðilar verða fyrir einhverju tjóni. Það er ekkert gefið í því að landeigandi sem verður skikkaður til þess að hætta netaveiðum lendi í þeirri stöðu að landareign hans lækki í verði ef frá eru skildar þær landareignir sem eiga bakka að ám þar sem ekki verður stunduð stangveiði.

Ég legg mikla áherslu á að hv. landbúnaðarnefnd taki þessi atriði til hlutlausrar skoðunar vegna þess að í umræðunni hafa menn skipst mjög í tvö lið. Stangveiðimennirnir hafa bent á að þessar bætur yrðu ekki mjög háar en landeigendur hafa talað um gríðarlega háar bætur sem skiptu hundruðum milljóna og margir hverjir farið upp í milljarð. En ég hef tilhneigingu til þess að ætla og halda að slíkar bætur yrðu ekki mjög háar og ég bendi líka á það að ef menn vilja fara þessa leið þá eru heimildir í eignarnámslögunum frá 1973 fyrir þann sem það gerir til þess að hætta við ef matsnefnd eignarnámsbóta kæmist að því í þessum tilvikum að bætur yrðu það háar að þeir sem þyrftu að greiða þær gætu ekki staðið undir slíkum greiðslum.

Ég vil hins vegar árétta það, eins og ég sagði hér áðan, að auðvitað vill maður sjá að þessi mál verði leyst í frjálsum samningum milli þeirra aðila sem í hlut eiga. Það hlýtur að vera eðlilegasta leiðin til þess að greiða úr þessum vanda. En maður hefur náttúrlega orðið fyrir verulegum vonbrigðum með það að slíkt skuli ekki hafa tekist. Það er engin spurning um það að veiðar á laxi í net eru ekki hagkvæmar, það er alveg ljóst. Tekjurnar af slíkum veiðum eru ekki nándar nærri eins háar og veiðar á stöng og ég hygg að hæstv. landbúnaðarráðherra sé mér sammála um það. Þess vegna stend ég við það sem ég sagði hér áðan að ég skil ekki hvers vegna menn hafa ekki náð samningum um þetta. (Gripið fram í.) Þar fyrir utan skiptir þetta, tel ég, verulega miklu máli fyrir ferðaþjónustu í því kjördæmi sem hæstv. landbúnaðarráðherra er í. Ég tel að fari menn þessa leið megi landeigendur og hagsmunaaðilar og íbúar í kjördæmi hæstv. landbúnaðarráðherra búast við miklu hærri tekjum en þeir hafa nú af ferðaþjónustunni.

Ég er því þeirrar skoðunar, svo að ég dragi þetta saman, að taka eigi netin upp. Ég tel að það eigi fyrst og fremst að gera í samningum en ég skora á hv. landbúnaðarnefnd að taka þessi atriði sem ég nefndi til skoðunar. Ef gripið yrði til þessara aðgerða væri um veiðarfærastýringu að ræða eða þyrfti að grípa til greiðslu skaðabóta og hversu háar kynnu þær þá að verða?

Í annan stað vil ég vekja athygli á tvennu sem kemur fram í VI. kafla þessa frumvarps en hann fjallar um veiðifélög.

Í 1. mgr. 37. gr. segir, með leyfi forseta:

„Í því skyni að markmiðum laga þessara skv. 1. gr. verði náð er mönnum skylt að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi.“

Síðar í greininni segir, með leyfi forseta:

„Félagsmenn veiðifélags eru allir þeir sem skráðir eru veiðiréttarhafar á félagssvæðinu skv. 12. gr., en um atkvæðisrétt þeirra fer skv. 40. gr.“

Síðar í ákvæðinu er kveðið á um að ef nýr aðili tekur við veiðirétti fyrir afsal eða á grundvelli ábúðarsamnings sé þeim aðila skylt að gerast félagsmaður í veiðifélagi og taka á sig skuldbindingar fráfarandi félagsmanns. Með öðrum orðum er hér kveðið á um skylduaðild að veiðifélögum. Ég er nú ekki mjög hrifinn af því að skylda menn með lögum til þess að vera í félagi sem þeir óska ekki eftir að vera í en viðurkenni þó fúslega að á því kunna að vera erfiðleikar hvað þessi félög varðar. Það getur verið að eðli þessara félaga sé slíkt að það sé erfitt að koma því þannig fyrir að aðild að þeim geti verið frjáls. Ég skora hins vegar á hv. landbúnaðarnefnd að taka þetta atriði til skoðunar með það að markmiði að aflétta félagsskyldu í þessum veiðifélögum.

Að lokum vil ég benda á atriði sem kemur fram í 1. mgr. 40. gr. sem kveður á um atkvæðisrétt í veiðifélagi.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Á félagssvæði veiðifélags fylgir eitt atkvæði hverri jörð sem veiðirétt á í samræmi við ákvæði laga þessara.“

Ákvæðið er skýrt hvað þetta varðar. Hverri jörð fylgir eitt atkvæði. Ég verð nú að segja það fyrir mína parta að ég tel að það sé rétt að nefndin taki þetta atriði og þá greinina í heild sinni hvað varðar atkvæðisrétt í veiðifélögum til skoðunar vegna þess að ég tel að þessi regla geti leitt til ósanngjarnrar niðurstöðu. Getur það verið eðlilegt að landeigandi sem á meira og minna allt land að einni á njóti sama atkvæðisréttar og landeigandi sem á smáskika sem liggur að sömu á? Væri ekki réttara að miða við einhverja aðra mælikvarða en fjölda jarða hvað varðar atkvæðisréttinn, t.d. stærð árbakkans sem liggur að viðkomandi jörð? Ég er svo sem ekki með neinar patentlausnir á því hvernig eigi að leysa þetta en ég bendi nefndarmönnum í hv. landbúnaðarnefnd á að reglan eins og hún er núna í frumvarpinu getur leitt til ósanngjarnrar og óeðlilegrar niðurstöðu og ég skora á nefndina að taka þetta atriði um atkvæðisrétt í veiðifélögum til sérstakrar skoðunar. Ég hygg að það megi fara margar aðrar leiðir til þess að haga þessum málum á þann veg að ekki leiði til ósanngjarnrar niðurstöðu.

Að svo búnu, frú forseti, ítreka ég það sem ég hef áður sagt. Ég tel að þetta frumvarp sé vel unnið og fagna því hversu miklar upplýsingar fylgja því og það er til mikillar fyrirmyndar. En ég legg á það mikla áherslu að þessi atriði, annars vegar hvað varðar VI. kaflann um félagsaðildina og atkvæðisréttinn og hins vegar varðandi netaveiði í straumvatni, verði tekin til sérstakrar skoðunar í nefndinni.