132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[18:14]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir góða og efnismikla ræðu þar sem sást í gegn hans góða þekking á frumvarpinu og efnisinnihaldinu.

Hv. þingmaður er löglærður maður en sá sem hér stendur er það ekki og vil ég því spyrja hv. þingmann hvert hans mat sé á því hvort um veiðarfærastýringu væri að ræða eða hreinlega eignarnám ef lögum yrði breytt í þá veru að netaveiðar yrðu bannaðar.

Í annan stað vil ég spyrja hv. þingmann út í hið svokallaða Ásgarðsmál frá 1984. Þá ómerkti Hæstiréttur niðurstöðu matsnefndar eignarnámsbóta og komst að þeirri niðurstöðu að greiða þyrfti 2 millj. kr. fyrir veiðihlunnindin í Ásgarðslandi, en aðalgögnin sem lágu til grundvallar í því máli voru samningur milli Stangveiðifélags Reykjavíkur og landeiganda sem hljóðaði upp á 478.500 kr. fyrir alla stangveiði frá vori til hausts á sama svæði. Landeigendur fengu með öðrum orðum fjórum sinnum hærri upphæð greidda samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar en tekjur af leigu á þessu sama svæði voru. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji hið svokallaða Ásgarðsmál vera fordæmisgefandi ef netaveiðar verða óheimilar samkvæmt lögum og til bótagreiðslna kemur. Til frekari upplýsingar má nefna að tekjur bænda á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár eru um það bil 4,5 millj. kr. á ári þannig að ef sama leið yrði farin og Hæstiréttur komst að árið 1984 mætti ætla að matsnefnd eignarnámsbóta, ef þetta mál væri fordæmisgefandi á annað borð, legði til bætur upp á um það bil 18 millj. kr. til netabænda á umræddu svæði eða fjórum sinnum meira en tekjur þeirra eru í dag.