132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[18:27]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson orðaði það á þann veg að þá hefðu menn það á hreinu hvert mitt mat á þessum hlutum væri. Ég vil taka það fram að ég setti alla fyrirvara við það hver niðurstaða mín væri. En ég stend við það að verði gripið til aðgerða eins og þessara af hálfu ríkisvaldsins verði ríkisvaldið sjálft að taka afleiðingum af því. Ég gerði hins vegar fyrirvara við þá niðurstöðu mína. Það getur vel verið að einhverjir séu ósammála mér um það og kynnu að telja að einhverjir aðrir ættu að koma að greiðslu þeirra bóta. Ég get hins vegar ekki fallist á það að um eignaupptöku á fé almennings væri að ræða ef gripið yrði til þessara aðgerða.

Ég er ekki að mælast til eins eða neins, hv. þingmaður. Ég er bara að benda á hugsanlega kosti í stöðunni. Við vitum að hagkvæmni fiskveiða í net í straumvatni er afskaplega lítil og tekjur af þeim veiðum eru mjög rýrar með tilliti til þess hvaða tekjur menn fá út úr stangveiðinni. Í því ljósi hef ég mínar efasemdir um að verði gripið til aðgerða eins og þessara þá leiði slíkt til verulegrar bótaskyldu fyrir hið opinbera, fyrir ríkið. Við þurfum ekki annað en að líta til þeirra tekna sem landeigendur hafa af netaveiði í dag til að vega og meta hvert tjón þeirra yrði. Ég hef því tilhneigingu til að ætla að hér sé um minna mál að ræða en margir hv. þingmenn vilja vera láta, (Forseti hringir.) þar á meðal netabændur.