132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Hreyfing sem valkostur í heilbrigðisþjónustu.

560. mál
[14:20]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna þessari umræðu, um svokallaða hreyfiseðla. Ég fagna því frumkvæði sem sýnt hefur verið Garðabæ, eins og kom fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra.

Öllu fylgir kostnaður en hér er um fyrirbyggjandi aðgerðir að ræða. Við erum að tala um forgangsröðun, að lækka lyfjakostnað, styttri sjúkrahúslegu og heilbrigðara líf.

Annað mætti líka skoða, þ.e. að skattleggja ekki svokallaða líkamsræktarstyrki sem stéttarfélög veita félagsmönnum sínum. Þar eru nokkur þúsund króna á ári. Mér finnst grátlegt að það skuli skattlagt og þannig jafnvel unnið gegn hreyfingu. Menn vita hvað hreyfing og íþróttir eru hollar eins og sést á hv. þm. Jóni Kr. Óskarssyni sem er hér sjötugur og vel frískur.