132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[17:48]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst síðasta innlegg hv. 7. þm. Norðvest. í sjálfu sér ekki breyta þeirri niðurstöðu að með því að gera frumvarpið að lögum væru tekin af öll tvímæli um hvernig réttarstöðunni er háttað að þessu leyti, þ.e. þá er með skýrum hætti gengið frá því að þau vatnsréttindi og land sem nauðsynleg eru til reksturs 210 megavatta virkjunar við Þjórsá við Búrfell séu skýrt í höndum Landsvirkjunar. Það á ekki að valda frekari óvissu þótt vissulega hafi komið upp óvissa varðandi niðurstöðu óbyggðanefndar. Ég átta mig hreinlega ekki á því hvers vegna þetta þarf að vera svo flókið.

Í 40 ár hefur verið gert ráð fyrir því að Landsvirkjun hafi þessi réttindi og með því að samþykkja þetta frumvarp væri það staðfest og tryggt að það sé ekki neinum vafa undirorpið. Ætlunin með frumvarpinu er því ekki að breyta neinu réttarástandi miðað við það sem menn hafa talið síðustu 40 ár að þessu leyti.

Ég held að ágreiningur út af öðrum málum, varðandi þjóðareign eða nýtingarrétt á einstökum auðlindum, þurfi í sjálfu sér ekki að blandast inn í þetta mál heldur getum við tekist á um það við aðrar aðstæður.

Hv. þingmaður hefur hins vegar óskað eftir að aflað verði ákveðinna upplýsinga. Ég mun hafa forgöngu um að svo verði gert fyrir 3. umr. í þessu máli. En ég veit ekki hvort það kemur til með að varpa nokkuð frekara ljósi á það sem nákvæmlega felst í frumvarpinu.