132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Mat á listnámi.

592. mál
[14:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir þessi svör, þau voru skýr og greinargóð. Það er sem sagt alveg ljóst eftir því sem hæstv. ráðherra upplýsir okkur hér um að þeir sem hafa próf úr gömlu skólunum fái hjá menntamálaráðuneytinu þá viðurkenningu að þeir hafi stundað nám á háskólastigi sem jafngildi þá að lengd og einingum þeim gráðum sem um ræðir. Ég held að það fólk sem stendur þarna úti og bíður eftir þessum óyggjandi svörum geti þá glaðst, því ég heyri ekki betur en hæstv. ráðherra sé búin að staðfesta það sem þetta fólk hefur eðlilega haldið, að gömlu skólarnir hafi verið á háskólastigi þó svo að þeir hafi heitið öðrum nöfnum áður en Listaháskóli Íslands varð til.

Að öðru leyti vil ég síðan bara segja það að Listaháskóla Íslands óska ég auðvitað héðan úr þessum ræðustóli alls hins besta. Þar er skapandi starf í gangi og mér fannst ágætt að taka hérna eina línu sem er tekin úr manifestó í leiklistardeild Listaháskólans sem hvatningu til hæstv. menntamálaráðherra, kannski sérstaklega í þessum erfiðu málum sem fram undan eru og háskólamálið sem var rætt hér áðan er kannski eitt af þeim.

Manifestó leiklistardeildar Leiklistarskóla Íslands hljóðar upp á nokkra skemmtilega punkta og einn sem ég hef valið hér að senda til okkar hér, þingheims alls, er þessi:

„Við erum framsækin, forvitin og höfum frumkvæði.“

Það er auðvitað það sem listnemar hafa borið út úr skólunum inn í samfélagið og ég held að það sé mikilvægt að stjórnmálamenn hafi á takteinum sömuleiðis þessa eiginleika.