132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Jarðskjálftaupplýsingar í Ríkisútvarpinu.

603. mál
[14:43]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefur lagt fyrir mig fyrirspurn sem kemur fram á þskj. 887 um jarðskjálftaupplýsingar í Ríkisútvarpinu. Ég sendi þessa fyrirspurn upp í útvarp og þaðan bárust eftirfarandi svör, með leyfi forseta:

„Upplýst var um jarðskjálfta sem átti upptök sín í Krísuvík 6. mars sl. á Rás 2 Ríkisútvarpsins. Dagskrá Rásar 2 var rofin einni mínútu og 43 sekúndum síðar þar sem sagt var frá skjálftanum eða klukkan 14:33 og 37 sekúndum síðar. Fréttamaður sagði aftur frá skjálftanum þremur mínútum og einni sekúndu síðar og þá var klukkan 14:36 og 38 sekúndum betur. Þriðja frásögnin á Rás 2 var um ellefu mínútum þar á eftir, klukkan 14:47 og 40 sekúndum betur.“

Þá spurði hv. þingmaður einnig hvenær fyrstu upplýsingar um skjálftann hefðu verið settar á vefsíðu Ríkisútvarpsins og á textavarp þess og svar við því er:

„Tilkynning um skjálftann var skrifuð í textavarpið og á vef Ríkisútvarpsins um tveimur mínútum eftir að hans varð vart klukkan 14:33. Klukkan 15:09 og 45 sekúndum betur var tilkynnt um skjálftann með textaborða í sjónvarpinu og voru fluttar fréttir af skjálftanum á Rás 1 í útvarpsfréttum klukkan 15.“

Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn sem ég tel bæði skemmtilega og áhugaverða en mikilvæga. Hún er mikilvæg fyrir þær sakir að það er brýnt að Ríkisútvarpið haldi uppi þessari almannaþjónustu sem við gerum kröfu til. Það mál sem snertir Ríkisútvarpið og breytingu þess yfir í hlutafélag verður hér til umræðu síðar á þinginu. En það skiptir miklu máli að það geti rækt almannaþjónustuhlutverk sitt og öryggishlutverk ekki síður sem við munum væntanlega lögfesta í fyrsta sinn að það gegni öryggishlutverki. Ég efa það ekki heldur að m.a. í ljósi þessarar fyrirspurnar hv. þingmanns muni þeir starfsmenn Ríkisútvarpsins sem hlut eiga að máli fara gaumgæfilega yfir atburðina og atburðarásina og meta hvort hægt sé að gera hlutina betur. Það verður að sjálfsögðu sjálfstætt mat þeirra sem hjá Ríkisútvarpinu starfa.