132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Flutningur verkefna í heilbrigðisþjónustu út á land.

648. mál
[15:31]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það var hárrétt lýsing hjá hv. þm. Jóhönnu Pálmadóttur hvað atvinnuástandið úti á landsbyggðinni hefur mikil áhrif á þróun byggðar þar og hvort fólk geti yfirleitt hugsað sér að búa á ýmsum stöðum úti á landi. Heilbrigðisþjónustan ræður miklu um hvar fólk kýs að búa. Nú á ég sæti í nefnd sem hefur verið að endurskoða heilbrigðisþjónustulögin þar sem hugmyndin er að skipta landinu í ákveðin svæði. Ég tel að í þeirri skiptingu sem þar er lögð til, þar sem skilgreint er hvaða grunnþjónusta er í héraði, felist jafnframt ákveðin tækifæri fyrir landsbyggðina til að taka til sín aukin verkefni, m.a. endurhæfingu og eftirmeðferð sjúklinga sem hafa verið á stóru sjúkrahúsunum til meðferðar. Full ástæða er til ákveðinnar bjartsýni í þeim efnum að færa þjónustuna meira til fólksins í landinu.