132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:37]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tel að lögfræðingurinn, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, fari hér ekki með — já, við skulum orða það þannig að honum hafi eitthvað svelgst á. Auðvitað er hægt að gera ráð fyrir því í samþykktum sjálfseignarstofnunar að þar liggi allar upplýsingar fyrir. Í þeim lögum sem við mundum samþykkja um sjálfseignarstofnunina Ríkisútvarpið mundum við beinlínis segja að upplýsingalögin giltu. Það væri alveg hægt, mér sýnist á lögunum um sjálfseignarstofnanir að þar séu ákvæðin auðvitað það rúm að hægt væri að heimila t.d. þingmönnum að gera nákvæmlega þetta.

Ég held að þetta sé einhvers konar skref í áttina og fagna því að 1. minni hluti í þessari háu nefnd skuli hafa þorað að ganga svona langt. Hins vegar er ákveðinn munur á því að mega bera fram skriflega fyrirspurn og fá þá væntanlega skriflegt svar og geta síðan gert athugasemdir við það skriflega á næsta aðalfundi þar á eftir og því að geta kallað fram þær upplýsingar sem mönnum sýnist, ekki bara þingmönnum heldur öllum almenningi, þar með öllum fjölmiðlum, hvenær sem vera skal samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga sem að vísu verja, og vissulega eins og þau eiga að gera, viðskiptaleyndarmál og viðkvæma hluti samkvæmt sinni grein, og geta skotið því síðan til úrskurðarnefndar sem starfar samkvæmt þessum lögum og hefur, að ég hygg, tekist nokkuð vel til um flesta hluti þar, um hvort neitun sé réttlætanleg eða ekki. Þetta eru allt aðrir hlutir.

Fyrst við erum nánast fallnir í faðma, ég og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson í þessu efni, af hverju gengur hann þá ekki hænufetinu lengra og kemur alla leið til mín og tekur þessi upplýsingalög sem ég hygg að hann styðji í megindráttum — nema hann geri það ekki, hann hefur þá tækifæri til þess að svara því — og lætur þau gilda um þetta sérstaka hlutafélag, um þessa sérstöku starfsemi sem hefur sérstakan sess í hugum almennings og í íslensku samfélagi?