132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:48]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ákveðnir þingmenn innan samstarfsflokksins hafa viljað selja Ríkisútvarpið. Til að mynda einn af þeim, sem er hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, sagði það í andsvari í dag að hann gerði sér grein fyrir að það væri enginn pólitískur vilji til að selja Ríkisútvarpið og því vildi hann standa að því að koma Ríkisútvarpinu í það rekstrarform sem mundi hæfa stofnuninni. (Gripið fram í.)

Ég hef því tröllatrú á að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson meini vel það sem hann segir og standi að þessu máli í góðri trú eins og fram hefur komið í hans máli. Það er auðvitað þannig að ef pólitískur vilji væri til að selja Ríkisútvarpið hefði verið mjög einfalt að gera það eins og lögin standa núna.

Varðandi samkeppni og annað og hvernig fjölmiðlamarkaðurinn er þá er það meining okkar að fréttaflutningur og dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu, og aðallega fréttaflutningurinn, verði áfram sá traustasti sem fyrirfinnst í landinu, óháður og án allra klafa. Við sjáum, og sem betur fer sjá flestir landsmenn það, að það er gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðina að hafa aðgang að slíkum fréttaflutningi. Nú er ég ekki að leggja dóm á aðra fjölmiðla í landinu. En við verðum að geta treyst því að hér sé almannaútvarp sem er óháð aðilum á markaði og ég held að við séum flestöll sammála um það.