132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[17:17]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður er ekki sannfærandi í málflutningi sínum. Nú ætti hann að venda sínu kvæði í kross og styðja eins og eitt mál frá mér. Við erum að tala um mikið framfaramál fyrir landsbyggðina. Og einmitt vegna þess að stofnunin er þetta stór eru tækifærin á landsbyggðinni meiri. Við erum að tala um þekkingarsetur út um allt land. Þetta er nákvæmlega það sama og aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við eru að gera. Hann talar um að Byggðastofnun sé ómöguleg en samt má ekki fara út í þetta. Það er ekki hægt að bjóða upp á svona málflutning.

Hv. þingmaður kemur svo hér og talar um að nefnd sú sem starfaði á mínum vegum hafi ekki lagt til að horft yrði til þessa samruna. Hér segir, með leyfi forseta, í einni af tillögum nefndarinnar:

„Sérstaklega verði hugað að frekari samhæfingu eða samþættingu starfsemi Byggðastofnunar, Impru, Iðntæknistofnunar […] með það að markmiði að tryggja sterka stöðu og sýnileika byggðamála í þeirri starfsemi sem ætlað er að stuðla að atvinnuþróun og nýsköpun.“

Það er einmitt þetta sem við erum að gera. Við ætlum að efla þekkingarsetrin, það kemur líka fram í greinargerðinni. Sá hv. þingmaður sem hér talaði áðan virtist ekki hafa gert sér grein fyrir því að það er stóra málið í þessu öllu saman.

Hvað varðar það að úthýsa starfsemi þá hefur það ekkert verið skoðað mjög nákvæmlega en engu að síður tel ég að þar séu ákveðin tækifæri. Það verður farið betur yfir það. Hins vegar er það fráleitt, eins og ég sagði áðan, að hugsa sér að þessar stofnanir sem slíkar verði seldar. Þarna fer fram frumkvöðlastarfsemi og þarna er frumkvöðlasetur, þarna eru grunnrannsóknir á sviði tæknirannsókna, handleiðsla, þúsundir viðtala á hverju ári við aðila í atvinnulífinu og atvinnurekendur og leiðsögn veitt í þeim málum. Það kemur því ekki til greina að þessi starfsemi verði einkavædd að mínu mati. Hins vegar eru áreiðanlega einhverjir þættir þar innan dyra sem mætti úthýsa.

(Forseti (RG): Ég bið þingmenn í salnum að gefa ræðumönnum betra hljóð.)