132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

730. mál
[21:50]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fengið svar við þessari fyrirspurn frá hæstv. ráðherra. Þar er fjallað um þennan framtakssjóð með sérstaka áherslu á landsbyggðina. Hann var í upphafi einn milljarður en eigið fé hans hefur tapast mjög mikið. Það er lítill hluti eftir. Það kemur að vísu ekki fram í svarinu. En það kom fram í mjög svipuðu svari sem veitt var hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir tveimur eða þremur þingum síðan að þá var sá milljarður sem þar var lagður inn afhentur fjórum fjárfestingarfélögum sem bættu svo 125 milljónum við þær 250 milljónir sem fóru í hvern sjóð. En þá stóðu ekki eftir nema 593 milljónir. Ég tek fram að þetta var fyrir tveimur árum. Ég veit ekki hvernig staðan er núna.

Í þessum sjóði var lögð sérstök áhersla á landsbyggðina sem einkum átti að vera á sviði upplýsinga og hátækni. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að það er sagt einkum en ekki eingöngu. Þess vegna spurði ég hæstv. ráðherra, og vil fá svar við því hér, hvort það sé ekki réttur skilningur minn á þeim breytingum sem hér er verið að gera á þessum lögum að ákvæðið um sérstaka áherslu á landsbyggðina falli brott og þess sakna ég mjög ef svo er að gerast, þ.e. að þetta sé að fara þarna út.