132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[23:09]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hv. þingmenn sem talað hafa á undan mér hafa farið ágætlega yfir þau mál sem tengjast frumvarpinu. Um frumvarpið ætla ég ekki mikið að segja á þessu stigi. Við eigum eftir að fara yfir það í nefndinni eins og nefnt var áðan og fá svör við ýmsum spurningum um það, t.d. um 30 þúsund tonnin, hvaðan sú tala er upprunnin og hvaða gildi hún hefur og fleiri mál. Mér sýnist þó að frumvarpið sé hið ágætasta. Það skiptir miklu máli að koma bókhaldinu og skráningarkerfinu í eins fullkomið lag og hægt er, m.a. vegna þess að án þess þrýstings sem bókhaldið og kerfið setja er viðbúið að menn reyni að skjóta sér undan því að sinna þessum efnum, skjóta sér undan því að taka ábyrgð á gerðum sínum. Þá er ég bæði að tala um stjórnvöld, fyrirtæki og allan almenning því auðvitað er þetta sameiginlegt áhyggjuefni okkar allra.

Hins vegar er rétt sem fram hefur komið, að það veldur vonbrigðum að hæstv. umhverfisráðherra anno domini 2006 skuli láta sér nægja að koma fram með frumvarp af þessu tagi og geta þess ekki með verki, með fleiri frumvörpum eða lagatillögutextum eða þá með yfirlýsingum í framsögu sinni, hver eigi að verða framtíðin í þessu efni, hvaða stefnu umhverfisráðherrann hafi í helstu umhverfismálum samtímans. Farið hefur verið yfir það í fyrri ræðum með hvaða hætti æskilegt hefði verið að fá þetta en ég vil aðeins ítreka að mér finnst eins og hæstv. umhverfisráðherra upplifi sjálfan sig á þröngum leikvelli, að hún hafi ekki burði eða svigrúm til að móta sér eigin stefnu í þessu efni heldur hrekist hún nokkuð undan þeim ramma sem aðrir setja.

Umhverfisráðherrann hefur t.d. í raun og veru aldrei sagt álit sitt á því hvort Íslendingum sé skynsamlegt og rétt að ná þeim kvótum sem Kyoto-bókunin leyfir okkur. Eitt er að hafa möguleika til að menga, annað er hvort við viljum menga. Umhverfisráðherrann hefur sett fram 12 sviðsmyndir á fundi um daginn sem haldinn var til að kynna frumvarpið og því eðlilegt að tengja þær saman við frumvarpið. En ég hef ekki heyrt hæstv. umhverfisráðherra lýsa því yfir að við eigum að nota allan kvótann eða hvort við eigum að reyna að spara okkur hann og mæta hugsanlega í næstu umferð með það afrek okkar að hafa ekki þurft að nota þann kvóta sem við lögðum til. Ég hygg að ef það gæti gerst mundi það skapa okkur siðferðilegt svigrúm til forustu og leiðsagnar á þessu sviði sem gæti verið okkur ákaflega dýrmætt.

Eins er með stóriðjuákvæðið sem stundum er kennt við þjóðina að ósekju. Vissulega höfum við það ákvæði og það byggir á ákveðnum rökum sem menn tóku mark á á þeirri samkomu þar sem þetta var ákveðið. En svo kemur næsta spurning: Eigum við að nota þetta ákvæði? Er þörf á því að við notum þetta ákvæði? Er kannski betra fyrir íslenskt samfélag í fyrsta lagi, í öðru lagi fyrir íslenska pólitík út á við að við notum það ekki? Þetta eru grunnspurningar sem mér hefði fundist eðlilegt að hæstv. umhverfisráðherra svaraði fyrir sinn hatt eins og málum er háttað. Aðrir ráðherrar eru óhræddir við yfirlýsingar af þessu tagi í sínum málaflokkum og jafnvel utan sinna málaflokka. Það er alveg ljóst að hæstv. iðnaðarráðherra miðar skýrt við það að heimildirnar báðar séu fullnýttar en í umhverfisráðherranum heyrist ekkert um það efni.

Það eru álitamál í þessu sem hæstv. umhverfisráðherra þarf að svara. Hún svaraði með einhverjum hætti í fyrirspurn um daginn þannig að ég gat ekki skilið það betur en svo að hæstv. umhverfisráðherra teldi að meðaltalsreglan væri góð og gild. Það kemur líka fram í fréttatilkynningu í síðustu viku þar sem frumvarpið var kynnt ásamt sviðsmyndunum 12 sem ég minntist á, að við höfum leyfi til þess að miða við meðaltalið í þessu. Ég skal ekki um það segja. Það kann að vera lögformlega rétt að það sé þannig.

Ég hef ekki heyrt hvort hæstv. umhverfisráðherra finnist það heppilegt að við miðum við meðaltalið í þessum efnum eða ekki, hvort henni finnist það skynsamleg pólitísk stefna ríkisstjórnar og þjóðar eða hvort henni finnist það kannski óskynsamlegt í fyrsta lagi vegna þeirrar mengunar sem þetta veldur og í öðru lagi þegar höfð er í huga sú vígstaða sem við hefðum í framhaldi mála. Eins og kunnugt er verður þetta sennilega eitthvert helsta átakamál aldarinnar innan lands og utan.

Ég tek eftir því að sviðsmyndirnar 12 sem eru að mér sýnist afleiðing af mjög fínni vinnu, þær eru 12 vegna þess að verið er að leggja inn ... (Gripið fram í: Postularnir tólf.) Ja, í fyrsta lagi voru postularnir 12 og 12 er fögur tala. Búar voru líka 12 í dómum í gamla daga og eru enn á þeim germönsku svæðum þar sem þeir eru við lýði í kviðdómum Engilsaxa. En sviðsmyndirnar eru 12 hér vegna þess að í þeirri fyrstu er gert ráð fyrir afleiðingum af þeim stóriðjusamningum sem þegar eru klárir og ekki munu breytast nema náttúruhamfarir verði eða æðri máttarvöld grípi inn í. Síðan er stig af stigi bætt við, fyrst einum og einum af þeim sem eftir eru og síðan fleirum. Þetta kemur þannig út að í fjórum af sviðsmyndunum þar sem gert er ráð fyrir núverandi samningum plús einu álveri eru menn undir stóriðjuákvæðisviðmiðinu.

Í þremur af 12, þegar búið er að bæta við núverandi samninga tveimur af þeim kostum sem nefndir hafa verið, eru menn á mörkunum. Þá verður að nefna það líka að menn eru á mörkunum með koltvíoxíðið. Út af standa reyndar aðrar loftslagstegundir sem ekki eru í stóriðjuákvæðinu því að það fjallar bara um koltvíoxíð. Menn verða þess vegna að ná í það með einhverjum öðrum hætti, með því að hafa það út úr 10% í almennu hækkuninni eða einhverjum öðrum sem ég kann ekki svar við hvort menn kaupa þá sérstakar heimildir fyrir flúorlofttegundirnar og aðrar sem um er að ræða.

Í fimm af 12, þar sem gert er ráð fyrir fleiri framkvæmdum en þessum tveimur erum við yfir þessum mörkum. Í 12. sviðsmynd, þar sem talin eru saman öll þau áform sem nefnd hafa verið að undanförnu sem raunhæf, reyndar er sagt að ólíklegt sé að sú sviðsmynd verði vegna þess að menn mundu sennilega ekki þjappa öllum framkvæmdunum á tiltölulega stuttan tíma, þetta nær til 2020. En þar erum við yfir stóriðjuákvæðinu sem nemur milljón tonnum. Þó að það verði hugsanlega ekki gert á þessum tíma sýnir sviðsmynd 12 okkur ágætlega hver framtíðin gæti orðið ef menn ætla í öll þessi áform. Nú er ég bara að tala um mengunarkvótann og ekki um þær virkjanir sem stæðu á bak við.

Spurning sem ég vil gjarnan heyra hæstv. umhverfisráðherra svara er: Hvað telur hún æskilegt að við reiknum með á næstu áratugum, 2020 eða 2025, að við förum langt yfir stóriðjuákvæðið, sem er 1,6 milljónir tonna? Hvert telur hún fyrir Ísland inn á við að sé heppilegt mengunarhámark miðað við þessi ár? Hvernig telur hún okkur standa í samningum um Kyoto-tímabil tvö eða Kyoto-tímabil þrjú eða hvað sem þau tímabil eiga eftir að heita? Með þá ákvörðun kannski u.þ.b. árið 2010 að við ætlum ekki bara að klára þetta 1,6 milljóna tonna stóriðjuákvæði, heldur ætlum við á einhverjum tíma að taka milljón eða 2 milljónir tonna fram yfir?

Það þarf að hugsa þetta nokkuð langt fram í tímann og það er eðlilegt þegar þessar sviðsmyndir eru komnar að ráðherra taki til þeirra pólitíska afstöðu. Sviðsmyndirnar eru engin hugarleikfimi þó að vissulega fari þær eftir því hvað í þær er matað. Það sést vel að þær eru ekki hugarleikfimi á því hvernig hæstv. ráðherra kýs að kynna þær því að hún gerir það á blaðamannafundi um leið og hún kynnir það frumvarp sem hér er til umræðu. Þess vegna er rétt að hæstv. ráðherra skýri það út einmitt í þessari umræðu hvaða afstöðu hún hefur til úrslitanna úr sviðsmyndunum til þess sem kann að vera fram undan í mengunarefnum og segi okkur frá því sem mikilvægast er um þetta, hvernig hún sjái fyrir sér samningana um næstu lotu í þessum málum.

Við höfum heyrt þau svör áður frá hæstv. ráðherra að það sé alls óvíst um næstu lotu, hvort verði af öðru Kyoto-tímabili eða ekki. Við þökkum fyrir þær fréttir, höfðum reyndar heyrt þær áður vegna þess að öll heimsbyggðin veit að núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum og önnur í þeirra skjóli, m.a. í Ástralíu, hafa ekki hugsað sér að taka undir hugmyndafræði Kyoto-bókunarinnar heldur beita öðrum aðferðum. En menn þykjast jafnframt vita að úr þessu verður ekki skorið fyrr en u.þ.b. árið 2009 þegar í Bandaríkjunum verða kosningar. Það sem er ljóst, hvernig sem þetta verður, er að það verður settur mikill þrýstingur á Bandaríkjamenn, Ástrala og aðrar þjóðir, líka þær þjóðir sem nú sleppa vegna þess að þær teljast vera þriðja heims þjóðir og eiga þess vegna að fá að vinna að einhverju leyti upp það forskot — það er skrýtið að tala með þessum hugtökum en það verður að gera samt — sem iðnvæddu þjóðirnar hafa vissulega á þær í mengunarefnum og auðvitað í iðnvæðingu. Settur verður þrýstingur á þessar þjóðir og það er ákaflega líklegt að á næsta tímabili verði ekki um það að ræða að menn þurfi að reyna að toga sig niður á einhverja fortíð eins og meiningin var með Kyoto-bókuninni eða að komast aðeins áfram eins og Íslendingum var leyft og nokkrum öðrum þjóðum, heldur verði uppi kröfur um verulegan samdrátt.

Ef við mættum til samninga samkvæmt sviðsmyndum 5–7 værum við búin með allt það sem við áttum inni í Kyoto og yrðum að draga saman það sem við værum nýbúin að byggja upp. Ef við mættum til leiks með sviðsmyndir 8–12 værum við komin langt fram úr þessu vegna meðaltalsútreikninganna sem ríkisstjórnin trúir á og ætlar að sleppa með í þau nokkru ár sem um ræðir. Með sviðsmynd 12 erum við komin milljón fram út og þyrftum þá að herja það út með einhverjum hætti. Ef niðurstaðan yrði sú að menn segðu: Nú eruð þið búin að fá nóg, það verður ekkert stóriðjuákvæði hjá ykkur áfram, þið eruð búin að nýta það og teljist vera búin að fá ykkar skammt af iðnvæðingu og mengun, þá kynnum við að þurfa að skera niður ekki bara úr þessum 1,6 milljónum tonna heldur líka úr þeirri milljón sem við bættist. Með glannalegri pólitík í þessum efnum gæti því núverandi ríkisstjórn og sú næsta þess vegna verið að skerða mjög möguleika þeirra ríkisstjórna, landsmanna og fyrirtækja sem á eftir koma, því að auðvitað haga fyrirtækin sér eftir því hvaða framtíð kann að vera í vændum fyrir þau, það þekkjum við.

Ég vil gjarnan fá svör við þessum spurningum frá hæstv. umhverfisráðherra í nákvæmlega þessari umræðu vegna þess að hún hefur gefið undir fótinn með það, hún hefur beinlínis hvatt til þess að í kringum frumvarpið fari fram þessi umræða með þeirri ánægjulegu tengingu sem hún setti á blaðamannafundinum milli sviðsmyndanna sem sýna hugsanlega framtíð okkar í þessum efnum og frumvarpsins sem hún hefur kosið að takmarka við bókhald og skráningarkerfi.