132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Viðræður í varnarmálum.

[12:03]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ástæða þess að ég kem hér upp um störf þingsins eru misvísandi og óljós skilaboð sem fengist hafa af viðræðum milli íslenskra stjórnvalda eða samninganefndar íslenskra stjórnvalda og samninganefndar Bandaríkjamanna út af varnarmálum. Skemmst er að minnast þess að fram hafa farið umræður um það að utanríkismálanefnd hafi ekki verið kölluð saman eða henni ekki gerð sérstök grein fyrir því sem fram kom á fundum samninganefndarinnar núna fyrir skemmstu. Það var viðtal við hæstv. forsætisráðherra í tilefni þessara viðræðna og þar kom fram að ekkert nýtt hefði komið fram í þeim viðræðum þegar samninganefndirnar hittust. Hæstv. utanríkisráðherra sagði í umræðum á þingi, þegar hann flutti skýrslu sína, að íslensk stjórnvöld hefðu spurt ýmissa spurninga, orðaði það með þeim hætti.

Nú sá ég í leiðara Morgunblaðsins á laugardaginn, og kom mér það dálítið spánskt fyrir sjónir, að þar var því haldið fram að í „samningaviðræðunum við Bandaríkjamenn á dögunum“ — eins og segir hér, virðulegi forseti — „komu svo fram nýjar og forvitnilegar hugmyndir, sem lítil skynsemi væri í að vísa frá á þessu stigi.“ Þetta þykja mér nokkur tíðindi, virðulegur forseti, að Morgunblaðið skuli telja sig hafa upplýsingar um nýjar og forvitnilegar hugmyndir sem utanríkismálanefnd hefur ekki verið gerð grein fyrir. Forsætisráðherra hefur talað um að ekkert nýtt hafi komið fram og utanríkisráðherra talar um að það hafi verið spurt spurninga.

Þess vegna spyr ég, virðulegur forseti, hvað sé rétt í þessum efnum. Er Morgunblaðið að fara með fleipur og gefa í skyn að það viti eitthvað sem það veit ekki eða hefur það upplýsingar undir höfðum sem öðrum eru ekki útbærar?