132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Samningur um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna.

662. mál
[15:41]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Sviss, Íslands og Noregs sem gerður er vegna þátttöku Sviss í Schengen-samstarfinu og Dyflinnar-samningnum.

Sviss hefur nýlega lokið gerð samnings við Evrópusambandið um aðild að Schengen-samstarfinu og Dyflinnar-samningnum. Er stefnt að því að Sviss verði orðið fullgildur þátttakandi í Schengen-svæðinu árið 2008.

Í tengslum við þátttöku Sviss í Schengen-samstarfinu og Dyflinnar-samningnum var einnig nauðsynlegt að Sviss gerði samning við hin Schengen-ríkin tvö sem standa utan Evrópusambandsins, þ.e. Ísland og Noreg.

Efni þess samnings er tvíþætt. Annars vegar fjallar hann um hvernig samstarfi við Ísland og Noreg skuli háttað er varðar Schengen-samstarfið, þ.e. hvað varðar afnám persónueftirlits á landamærum innan Schengen-svæðisins og sameiginlegar reglur um hvernig staðið skuli að persónueftirliti á ytri landamærum Schengen-ríkjanna.

Hins vegar fjallar samningurinn um samstarf Sviss við Ísland og Noreg varðandi framkvæmd svonefnds Dyflinnar-samnings sem fjallar um meðferð beiðna um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríki Evrópusambandsins, Sviss, Noregi eða Íslandi.

Rétt er að árétta að samningurinn fjallar aðeins um hvernig samstarfi Sviss við Ísland og Noreg skuli háttað á framangreindum sviðum en hefur ekki í för með sér neina efnislega breytingu á stöðu Íslands í Schengen-samstarfinu.

Ég legg til, virðulegi forseti, að lokinni umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og til hv. utanríkismálanefndar.