132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Stefna í málefnum barna og unglinga.

[16:13]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Sem formaður þeirrar nefndar sem skilaði þessari skýrslu sl. vor er ég afskaplega ánægð með að hún skuli vera rædd hér í sölum Alþingis. Við ræddum við fjölda fólks og ég vil meina að þó að nefndarstarfið hafi tekið langan tíma höfum við skilað af okkur afskaplega góðri skýrslu. Það sem við notuðum til grundvallar í upphafi var Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Við ræddum við fjölda manns sem sýslar með börn alla daga og það er ýmislegt sem við töldum, og teljum, að þurfi úrbóta við. Ég tel að svo sannarlega sé unnið að því alla daga eins og hæstv. forsætisráðherra sagði.

Það var rangt sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði áðan, að þessi skýrsla væri ekki notuð. Ég veit að hún er notuð hjá fjölskyldunefnd forsætisráðherra. Ég hef mætt fyrir nefndina og farið yfir skýrsluna með því fólki sem vinnur þar. Sem betur fer hefur alveg gríðarlega margt gott gerst síðan þessi nefnd hóf starf sitt.

Bara til að nefna eitt, hvað almennur efnahagur hefur batnað til muna þessi ár. Það er ekkert lítið sem bæði hagvöxtur og aukinn kaupmáttur hefur orðið öllum til góða, (Gripið fram í.) ekki síst barnafólki. Það er að þakka ríkisstjórn Íslands hve vel hefur tekist til. Við leggjum líka mikla áherslu á að vel sé hugað að þeim erlendu börnum sem flytjast til Íslands þannig að þau aðlagist samfélaginu. Ég held að við mættum taka okkur mikið á í því hvernig við tökum á móti erlendum borgurum og við leggjum í þessari skýrslu mikla áherslu á að heilsugæsla sé á öllum skólastigum.