132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Breyting á XI. viðauka við EES-samninginn.

687. mál
[16:48]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Með þeirri þingsályktunartillögu er ég mæli nú fyrir er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 105/2005, um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB, um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.

Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir. Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Hvað varðar efnisatriði þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir nægir að meginstefnu til að vísa til greinargerðar er fylgir tillögunni, auk gerðarinnar sjálfrar.

Tilskipunin mælir fyrir um lágmarkssamræmingu á reglum um endurnot þeirra opinberu upplýsinga sem almenningi er á annað borð heimill aðgangur að. Takmarkanir og skorður við slíkum endurnotum má setja í þágu persónuverndar og friðhelgi einkalífs annars vegar og höfundarréttar og lögverndar annarra hugverka hins vegar. Ákvæði tilskipunarinnar varða markmið og gildissvið, tengsl við reglur um aðgang að upplýsingum, meðferð umsókna og skilmála um endurnot upplýsinga, upplýsingaskyldu um rétthafa verndaðra verka, form aðgangs, gjaldtöku og jafnan rétt til að endurnýta upplýsingar.

Þá er kveðið á um að beiting tilskipunarinnar verði endurskoðuð eigi síðar en 1. júlí 2008. Unnið er að innleiðingu þessarar tilskipunar í forsætisráðuneytinu.

Virðulegi forseti. Ég legg ég til að máli þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.