132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Framsal sakamanna.

667. mál
[16:54]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar lagabreytingar vegna frekari þátttöku Íslands í samningi Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 29. maí 2000 og bókun við hann. Um er að ræða ákvæði um þær málsmeðferðarreglur sem gilda skuli þegar beiðni er sett fram um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum á grundvelli fyrrnefnds samnings.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þegar gagnkvæm réttaraðstoð er veitt á grundvelli samningsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli ríkja Evrópusambandsins skuli fylgja þeirri málsmeðferð sem það ríki sem leggur fram beiðni tilgreinir sérstaklega að því tilskildu að hún brjóti ekki í bága við íslensk lög. Er þetta fráhvarf frá eldri reglu um réttaraðstoð milli ríkja en hún er sú að réttarbeiðni skuli framkvæmd samkvæmt lögum þess aðildarríkis sem beiðni er beint til. Tilgangur nýrrar framkvæmdar er að gera það mögulegt að þær upplýsingar sem fást með réttaraðstoð séu tækar sem sönnunargögn í málsmeðferð í því aðildarríki sem biður um aðstoð. Íslensk stjórnvöld geta þó alltaf neitað að verða við framangreindum óskum ef málsmeðferðin mundi brjóta í bága við íslensk lög.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að verða skuli við beiðnum um yfirheyrslu vitna eða sérfræðinga í gegnum síma eða með myndfundi eftir því sem unnt er. Yfirheyrsla í gegnum síma skuli þó einungis leyfð ef viðkomandi vitni eða sérfræðingur samþykkir. Þetta nýmæli um yfirheyrslur í gegnum síma eða myndfundi er í samræmi við ákvæði samningsins.

Virðulegi forseti. Við samningu frumvarpsins var haft samráð við samgönguráðuneytið vegna ákvæða fyrrgreinds samnings um hleranir og var kannað hvort þau kölluðu á breytingar á lögum um fjarskipti. Reyndist svo ekki vera, a.m.k. ekki að svo stöddu. Í 19. gr. samningsins er að finna ákvæði um gagnkvæmar skyldur aðildarríkjanna í tengslum við hlerun fjarskipta sem fara um gervihnattasambönd, samanber umfjöllun á bls. 6 í frumvarpinu. Markmið 19. gr. er að bregðast við þeim aðstæðum þegar aðildarríki hyggst hlera símtal einstaklings sem staddur er á yfirráðasvæði þess en sjálft samtalið fer um svokallaða gátt sem staðsett er í öðru ríki. Engin gátt er hér á landi og ekki munu vera líkur til að svo verði í náinni framtíð. Ekki er því talin þörf á lagabreytingu vegna fyrrnefndrar 19. gr. að svo stöddu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.