132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Starfsemi innri markaðarins í tengslum við frjálsa vöruflutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins.

669. mál
[16:57]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um starfsemi innri markaðarins í tengslum við frjálsa vöruflutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í frumvarpinu er lagt til að reglugerð ráðsins (EB) nr. 2679/98 frá 7. desember 1998, um starfsemi innri markaðarins í tengslum við frjálsa vöruflutninga milli aðildarríkjanna, verði tekin upp í íslenskan rétt en gerðin hefur verið felld inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Markmið reglugerðarinnar er að koma í veg fyrir alvarlegar hindranir á frjálsum vöruflutningum milli aðildarríkjanna, svo sem vegna vegatálmana eða eyðileggingar á varningi. Í reglugerðinni er annars vegar mælt fyrir um skyldur aðildarríkjanna til að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að fjarlægja slíkar hindranir og hins vegar komið á fót kerfi upplýsingaskipta á milli aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar eða eftir atvikum Eftirlitsstofnunar EFTA ef slíkra hindrana verður vart.

Eins og fram kemur í greinargerð var upphaflega farin sú leið að innleiða reglugerðina með fyrirmælum dómsmálaráðuneytisins til ríkislögreglustjóra. Það var gert á þeim grundvelli að rétt væri að ríkislögreglustjóri annaðist þær skyldur sem lagðar eru á íslensk stjórnvöld samkvæmt reglugerðinni, enda teldust þau tilvik sem reglugerðin fjallar um almennt til ólögmætra aðgerða. Auk þess gæfi forsaga reglugerðarinnar um þau tilvik sem undir hana féllu ekki tilefni til frekari aðgerða af hálfu íslenskra stjórnvalda. Eftirlitsstofnun EFTA gerði hins vegar athugasemd við þessa innleiðingu og taldi hana ekki fullnægjandi. Í ljósi þessa var kannað hvort unnt væri að fella reglugerðina inn í gildandi löggjöf. Þar sem reglugerðin tekur ekki aðeins til aðgerða sem lögregla getur þurft að grípa til verður hún ekki felld inn í lögreglulög, nr. 90/1996. Þá verður ekki séð að efni reglugerðarinnar eigi heima í öðrum gildandi lögum. Til að fullnægja 7. gr. EES-samningsins er því lagt til að reglugerðin verði innleidd með sérstökum lögum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.