132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Tóbaksvarnalög – eftirlaunafrumvarp – starfsáætlun þingsins.

[12:19]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það kennir ýmissa grasa í umræðum um störf þingsins og kannski ekki að ástæðulausu. Í dag er miðvikudagurinn 19. apríl og hér áttu að vera fyrirspurnir á dagskrá, það eru einar 32 fyrirspurnir sem bíða afgreiðslu. Um 211 hefur þegar verið svarað en 32 fyrirspurnir bíða enn svara frá hæstv. ráðherrum. Við vorum að vonast til þess að eitthvað af þeim yrði á dagskrá í dag. Ekkert samráð var haft við þingflokksformenn, alla vega ekki þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar um þær breytingar sem gerðar hafa verið á fyrirhugaðri dagskrá og hingað til hefur það verið fastur liður að við tökum fyrir fyrirspurnir á miðvikudögum.

Við erum í dag með þrjú mál á dagskrá, tvö af þeim í 2. umr. og eitt í 1. umr. Síðan bíða 11 mál 1. umr. frá ríkisstjórninni og 12 mál bíða 2. umr., það bíða 5 mál 3. umr. og 7 mál bíða síðari umr. og þarna erum við bara að tala um mál ríkisstjórnarinnar. Ekki er enn búið að setja á blað öll þau mál sem bíða frá stjórnarandstöðunni og eiga vonandi eftir að fá eðlilega fyrirgreiðslu og afgreiðslu í þinginu. Þau eru ekki sett upp. Starfsáætlun þingsins er ónýt, því miður, vegna þess að hér hafa verið sett fram mörg ágreiningsmál sem hafa ekki einu sinni fengið eðlilega umfjöllun í nefndum. Og hvað varðar þetta svokallaða samráð sem hæstv. forsætisráðherra hefur verið að bíða eftir um lífeyrisfrumvarpið þá er það þannig að ekki hefur verið rætt við forustumenn flokkanna síðan í janúar. Risinn, Framsóknarflokkurinn, sefur á því frumvarpi og er líklega ekkert að rumska.